Framkvæmd jafnréttislaga

122. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 13:52:00 (5384)



     Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir svörin. Augljóst er að ýmislegt er verið að gera í ráðuneyti hennar eins og vera ber. Þetta er mjög þarft mál og ég efast ekki um að nauðsynlegt er að hafa reglur um þessi mál, við erum einfaldlega ekki lengra komin. Vandinn er sá hvernig á að fylgja þeim eftir.
    Mér líst vel á að alltaf séu tilnefnd karl og kona þannig að þeir sem skipa í viðkomandi ráð og nefndir eigi þá nokkurra kosta völ og það sé þá alla vega ekki hægt að skjóta sér á bak við það að það finnist ekki konur til að gegna viðkomandi störfum sem eru röksemdir sem oft heyrast.
    En auðvitað er ástæða til að hafa áhyggjur af ákveðnum geirum samfélagsins og þá dettur mér í hug t.d. bankastjórnir. Þetta eru virki þar sem karlveldið stendur föstum fótum og dyrnar eru býsna lokaðar. Þarna er auðvitað ekki bara um það að ræða að hafa reglur og fylgja þeim eftir heldur þetta sem við erum auðvitað alltaf að reka okkur á aftur og aftur að það þarf líka að breyta hugarfari. Ég vil því þakka svörin og hvetja ráðherrann til frekari dáða í þessum efnum.