Skipulag ferðamála

123. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 14:24:00 (5389)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Skömmu eftir að ég kom til embættis samgrh. lét ég hefja vinnu við endurskoðun laga um skipulag ferðamála. Einn helsti tilgangur þeirrar endurskoðunar hefur verið sá að með nýrri löggjöf fengist í senn skilgreining á því hverjir teljast til ferðaþjónustu og um leið að samkeppnisstaða þeirra greina verði bætt, þeim verði sköpuð sömu rekstrarskilyrði og öðrum gjaldeyrisskapandi atvinnugreinum. Í þeim tilgangi lágu fyrir tillögur um fjármögnun Ferðamálaráðs en ekki tókst samstaða um þá lausn. Því verður bið á því til hausts að frv. verði lagt fram til nýrra laga um skipulag ferðamála og um Ferðamálaráð Íslands.
    Á hinn bóginn er ljóst að til þess að fullur trúnaður geti ríkt milli ráðherra og ráðuneytis annars vegar og Ferðamálaráðs hins vegar þarf ráðherra hverju sinni að hafa sína trúnaðarmenn í stöðum ráðherraskipaðra fulltrúa. Þetta er einnig nauðsynlegt til þess að gott samband sé á milli þessara stofnana og upplýsingastreymi rofni ekki. Á það skal minnt að hliðstætt vandamál kom upp í tíð fyrrv. menntmrh. varðandi Lánasjóð ísl. námsmanna og er frv. það sem hér er mælt fyrir sniðið eftir þeirri breytingu sem gerð var á lögum um lánasjóðinn um sama efni, sbr. lög nr. 107 1989.
    Ég vil sérstaklega taka fram í þessu sambandi að milli mín og ráðuneytisins og Ferðamálaráðs eru engin þau vandamál uppi nú sem hægt er að skilgreina sem slík að þau standi í vegi fyrir góðri samvinnu nema það eitt að nauðsynlegt er að marka pólitíska stefnu í ferðamálum. Eðlilegt er að formaður Ferðamálaráðs komi inn í þá endurskoðun og það er vitaskuld eðlilegt með hliðsjón af því að formaður Ferðamálaráðs sé sérstakur trúnaðarmaður ráðherra.
    Á sumri komanda þegar Ferðamálaráð hefur verið skipað að nýju, verði frumvarp þetta að lögum, verður skipuð nefnd í samráði við hið nýskipaða Ferðamálaráð og verður nefndinni falið að endurskoða lög um skipulag ferðamála og skila drögum að frumvarpi áður en þing kemur saman á ný að hausti. Í þeirri vinnu er óhjákvæmilegt að fullur trúnaður ríki milli ráðherra og Ferðamálaráðs. Á þessum vetri hefur farið fram nokkur umræða um skipunartíma fulltrúa í lögbundnum stjórnum og nefndum sem skipaðar eru af ráðherra án tilnefningar. Í flestum tilvikum háttar svo til að skipunartíminn er bundinn við ákveðinn árafjölda. Á hinn bóginn er embættistími þess ráðherra sem skipar fulltrúana bundinn öðrum lögmálum. Þess vegna verður alloft sú staða uppi að ráðherra á ekki trúnaðarmenn sína í lögbundnum stjórnum og nefndum sem hann ber þó stjórnsýslulega ábyrgð á. Eðlilegt verður að teljast að ríkisstjórn og þá um leið einstakir ráðherrar hennar eigi trúnaðarmenn sína í lögbundnum stjórnum og nefndum þegar um er að ræða fulltrúa sem skipaðir eru af ráðherra án tilnefningar. Ætla verður að tilgangur slíkrar skipunar nefndarmanna sé sá að með þeim hætti megi tryggja að ríkisstjórn á hverjum tíma, sem hefur meiri hluta Alþingis að baki sér, hafi áhrif á störf og ákvarðanir viðkomandi nefndar og að trúnaðarmenn ráðherra vinni að framgangi stefnu ríkisstjórnarinnar. Þegar fulltrúar ráðherra eru skipaðir af fyrrv. ráðherra, sem er pólitískur andstæðingur og hefur aðrar áherslur og aðra stefnu en núv. ráðherra, verður óhjákvæmilega trúnaðarbrestur milli nefndar og ráðherra. Til þess að koma í veg fyrir þennan trúnaðarbrest og til þess að tryggja eðlilegan framgang mála á vettvangi viðkomandi nefndar er á allan hátt einfaldast og eðlilegast að skipunartími ráðherraskipaðra nefndarmanna sé bundinn starfstíma þess ráðherra sem skipar þá.
    Ég vil svo, hæstv. forseti, ítreka það sem ég sagði áðan að með þessum frumvarpsflutningi er með engum hætti vegið að því fólki sem var skipað af forvera mínum í Ferðamálaráð, síður en svo. Hér er einungis um það að ræða að ég tel það eðlilegt að formaður Ferðamálaráðs sé pólitískur trúnaðarmaður ráðherra og geti unnið með honum að þeirri endurskoðun ferðamála sem óhjákvæmilegt er að vinna að. Hér er þess vegna ekki um neina persónulega áreitni af neinu tagi að ræða. Það er nauðsynlegt að það komi alveg skýrt fram.
    Ég legg til, hæstv. forseti, að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og samgn.