Skipulag ferðamála

123. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 16:30:00 (5398)


     Jón Helgason (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég varð fyrir vonbrigðum með svar hæstv. samgrh. við spurningu minni um hugsanlegt hlutafé úr Ferðamálasjóði. Vegna orða hæstv. ráðherra í ræðu sem var flutt í fyrra, sagði hann svo, með leyfi forseta:
    ,,En samtímis því sem fjárveitinganefnd hefur með þessum hætti lokað fyrir frekari umsóknir um styrkveitingar til hótelbygginga víðs vegar um landið hefur það gerst að einstakir ráðherrar og ríkisstjórn hafa vísað þeim sem hafa í hyggju að reisa hótel eða gistihús á Byggðastofnun með þeim ummælum að sú ríkisstofnun sé reiðubúin til að leggja fram fé til hótelrekstrar.
    Nú er það regla Byggðasjóðs að gerast ekki stærri hluthafi í fyrirtæki en nemur 20%. En 20% er nákvæmlega sama fjárhæð og greiða þarf virðisaukaskatt til ríkisins í hótelbyggingu.``
    Síðar segir: ,,Þetta hefur valdið því að í rauninni er ógerningur að hugsa sér að hægt sé að koma upp gistihúsi úti á landsbyggðinni af eigin rammleik nema til komi styrkveitingar úr ríkissjóði . . .  ``
    Ég sagði að ég teldi að það æskilegra að þetta væru ekki beinar styrkveitingar heldur hlutafé sem hægt væri að selja síðar en gæti haft mikla þýðingu. Það skiptir að sjálfsögðu engu máli hvort Ferðamálasjóður er sér eða sameinaður Iðnlánasjóði, þessi heimild er a.m.k. enn þá fyrir hendi. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé orðinn annarrar skoðunar en hann var í fyrra um að þarna þurfi að koma til stuðningur.