Skipulag ferðamála

123. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 16:31:00 (5399)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Herra forseti. Ég þóttist vera búinn að svara því. Ég er þeirrar skoðunar að líta beri á ferðaþjónustu sem útflutningsatvinnurekstur og af þeim sökum eigi að skattleggja hana eins og annan útflutningsrekstur. Eitt af því sem þrengir mest að okkur nú er hversu illa hefur til tekist með öflun gjaldeyris. Ýmsar tilraunir, sem við höfum gert, hafa fullkomlega mistekist en á hinn bóginn hefur ferðaþjónustan skilað nokkru meira frá einu ári til annars og ég tel þess vegna að óhjákvæmilegt sé að efla þá atvinnugrein.