Ferðamiðlun

123. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 17:43:00 (5411)

     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Frv. til laga um ferðamiðlun er að hluta til tekið úr frv. til laga sem flutt var á 113. löggjafarþingi um ferðaþjónustu. Það kom ekki fram í máli hæstv. ráðherra þegar hann mælti fyrir frv. Ég vil þó taka fram að veigamiklum atriðum er sleppt úr frv. sem ég hefði talið mjög mikilvægt að hafa inni og vonast ég til þess að samgn. taki til athugunar hvað lagt var til á sínum tíma varðandi ferðamiðlun, eins og það var kallað, og taki upp fleiri þætti sem þar koma fram sem ég held að séu til mikilla bóta. Ég vil taka það fram að mjög mikið samráð var haft við Félag ísl. ferðaskrifstofa þegar það frv. var samið, þ.e. það frv. sem ég vitnaði hér til, og langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra hvort eitthvert samráð hafi verið haft við Félag ísl. ferðaskrifstofa þegar þetta frv. var samið. Ég vildi spyrja að því vegna þess að ég minnist þess að það voru nokkur atriði sem fulltrúar þess félagsskapar lögðu höfuðáherslu á þegar verið var að ræða um þessi mál.
    Eitt af því sem lögð var mjög mikil áhersla á var að þeir sem hefðu leyfi eða fengju leyfi til að reka ferðaskrifstofu væri búsettir hér á landi. Reyndar vildu sumir að það fengju eingöngu íslenskir ríkisborgarar búsettir á Íslandi. Þeir vildu ganga svo langt en við töldum okkur ekki geta verið svo ströng á þessu og töldum að hitt væri eðlilegra og það varð að samkomulagi að eðlilegt væri að leggja til að menn hefðu búsetu hér á landi. Nú sé ég að það ákvæði er algerlega fallið burtu. Það má vel vera að þetta sé gert til þess að koma til móts við Evrópuréttinn, þ.e. þau lög og reglur sem við þurfum að taka yfir varðandi Evrópska efnahagssvæðið og væri gott að vita hvort svo er. Því hefur verið haldið fram m.a. af hæstv. utanrrh. að hægt væri að setja það inn í öll lög að krefjast búsetu, það

væri ekki mismunað vegna þjóðernis heldur eingöngu krafist að menn væru búsettir á landinu og væri það þá ekki talin mismunun. Ég vildi spyrja ráðherrann að því hvort það sé af einhverri sérstakri ástæðu sem þetta hefur verið fellt út og hvort Félag ísl. ferðaskrifstofa eða fulltrúar, sem töluðu fyrir þeirra hönd, hafi fallið frá þeirri hörðu kröfu eða hvort það hafi ekki verið talið fært af hálfu ráðuneytisins að verða við henni vegna þeirra skuldbindinga sem hugsanlega eru í samningunum um Evrópskt efnahagssvæði.
    Ég vil minna á að erlendar ferðaskrifstofur hafa starfað hér á landi allt of oft án þess að hafa til þess tilskilin leyfi og höfðu þeir fulltrúar, sem komu frá ferðaskrifstofunum, ýmsar sögur um það að segja. Ég ætla ekkert að fara að rifja þær upp en sumar hverjar voru ekki fallegar. Þær ferðaskrifstofur koma oft hingað með allt með sér, mat og starfsfólk, og skilja engan arð eftir hér á landi. Þetta var mikill þyrnir í augum þessara manna og skil ég það mjög vel að þeir telja að þetta sé miður heppilegt fyrirkomulag. Það er langt frá því að samkeppnisstaða þeirra innlendu aðila sem hér eru að reyna að reka ferðaskrifstofur fyrir erlenda ferðamenn sé sú sama og þessara erlendu aðila sem koma hingað og þurfa ekki að greiða skatta og hafa ekki neinar skyldur að því er varðar ríkissjóð Íslands.
    Í greinargerð með þessu frv. er tekið fram að eftirlit með því að rekstur ferðamiðlunar sé í samræmi við lög og reglur eigi að vera í höndum Ferðamálaráðs. Ferðamálaráð eigi að sjá til þess að lög og reglur séu haldnar og þá reikna ég með að það sé einnig að því er varðar starfsemi erlendra ferðaskrifstofa hér á landi. En ég sé ekki fyrir mér hvernig Ferðamálaráð á að geta sinnt þessu hlutverki. Ekki hefur verið hægt að koma í veg fyrir þessa starfsemi hingað til og hefur Ferðamálaráð mjög takmarkaðan fjárhag eins og margir hafa bent á og hæstv. ráðherra er fullkunnugt og hefur á engan hátt bolmagn til að taka á sig aukin verkefni. Ég tek eftir því að það er engin kostnaðaráætlun með þessu frv. eins og þó hefur oft verið með frv. sem við fáum og get ég ekki tekið því öðruvísi en að ekki sé reiknað með að þetta frv. hafi neinn kostnað í för með sér verði það að lögum. En ef Ferðamálaráð á að taka á sig aukin verkefni hlýtur að þurfa að ætla því auknar tekjur eða aukið fé.
    Ég tek líka eftir því að í frv. er gert ráð fyrir að fella úr lögum ákvæði sem fjalla um rétt sérleyfishafa. Nú er ég víst ekki með nýprentað skjal en ætli það sé ekki 20. gr. laganna eða 22. gr. hjá mér, ég held að ég sé ekki með nýjustu prentun. Þar er fjallað um eigendur og umráðamenn samgöngutækja. Það hefur færst í vöxt að þeir sem hafa yfir slíkum tækjum að ráða reka í raun ferðaskrifstofur án þess að þeir sæki um tilskilin leyfi. Ég sé að það er ætlunin að fella þetta ákvæði algerlega burt úr lögunum í staðinn fyrir að herða það eins og hefði kannski verið ástæða til. Ég vil því spyrja ráðherrann hvort það sé af einhverjum sérstökum ástæðum gert.
    Ég vil einnig spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki sé ástæða til að setja inn í frv. sem þetta ákvæði um að menn með íslensk leigsögumannaréttindi eigi að vera í hópferðum um landið eða hópferðum af einhverri ákveðinni stærð. Það eru reglur mjög víða erlendis að þess er krafist að innlendir leiðsögumenn komi inn í hópa þegar þeir fara um viðkomandi lönd. Þetta er misjafnt eftir löndum en það er mjög víða erlendis. Ég veit til að það er í Grikklandi og ég held bæði á Ítalíu og Spáni og e.t.v. víðar. Ég hefði talið eðlilegt að inn kæmi ákvæði um að menn með ákveðin réttindi og þekkingu þyrftu að vera í þessum ferðum. Við munum það frá síðasta sumri þegar menn komu í hópferðum á vegum erlendrar ferðaskrifstofu með erlenda leiðsögumenn og voru m.a. með eyðileggingarstarfsemi í Tjörneslögunum og e.t.v. víðar. Ég tel fyllstu ástæðu til þess að einhver ákvæði komi inn í frv. um hvaða réttindi leiðsögumenn sem eru í þessum hópferðum eigi að hafa.
    Þetta eru nokkur atriði sem ég vildi benda á við 1. umr. málsins. Þó er eitt atriði sem ég gleymdi en vildi spyrja líka um. Ráðherra minntist á að það væri mjög mikilvægt að reynsla og þekking og fjárhagsleg ábyrgð væru tryggð hjá þeim sem rækju ferðaþjónustu eða ferðaskrifstofu eða væru ferðaskipuleggjendur. En ég get ekki séð að neitt ákvæði í frv. sé um það atriði að krefjast eigi þekkingar á útgáfu ferðaskjala eða hafa einhverja reynslu í ferðamiðlun. Ég vil minna á að einn af þeim nefndarmönnum, sem voru í þessari svokölluðu ferðamálanefnd, sem fulltrúi Alþfl., heitir Bjarni Sigtryggsson og er með menntun í ferðamálum og hefur mikla reynslu a því sviði. Hann lagði mjög mikla áherslu á það vegna sinnar reynslu og þekkingar að þess þyrfti að krefjast að menn sem fengju leyfi til slíkrar starfsemi hefðu ákveðna þekkingu og reynslu. Það væri ekki hægt að hleypa hverjum sem væri í slík mál, þetta væri það flókið og það mikil ábyrgð sem í þessu fælist, sérstaklega að því er varðaði rétt neytanda. Ég man að hann taldi mjög mikilvægt að um það yrði ákvæði í lögunum. En ég get ekki séð að neitt sé um það í frv. og hefði talið eðlilegt að það yrði tekið til athugunar og e.t.v. sett inn sem ákvæði í frv. ef samkomulag verður um að vinna að málinu.
    Úr því að ég minnist á þennan ágæta mann sem var í þessari nefnd, ferðamálanefnd svokallaðri, vil ég nefna að ef ég man rétt átti hann mestan heiðurinn af því að koma með þau frumdrög sem urðu að IV. kafla frv., um ferðamiðlun. Ég held meira að segja hann hafi átt hugmyndina að þessu orði sem þarna er notað, að kalla þetta ferðamiðlun. Hann lagði mjög mikilvæga hluti inn í þennan kafla og hefði ég talið eðlilegt að meira tillit hefði verið tekið til þeirra sjónarmiða sem þar koma fram. Ég vænti þess að hv. samgn. taki til athugunar það sem hefur komið fram áður á fyrri þingum til að reyna að bæta frv. því það veitir ekki af og ekki hægt að samþykkja það óbreytt.