Ferðamiðlun

123. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 17:56:00 (5412)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Ég vil taka það fram að samtök ferðaskrifstofa eða fulltrúar Félags ísl. ferðaskrifstofa hafa að sjálfsögðu farið yfir frv. Þeir hafa lagt mjög ríka áherslu á nauðsyn þess, sem er aðalatriði þessa máls, að hægt sé að koma við meiri neytendavernd en verið hefur og hægt sé með ýmsum öðrum aðgerðum að bæta og tryggja rekstrargrundvöll ferðaskrifstofa. Það liggur alveg ljóst fyrir að þeir hafa verið hafðir með í fullkomnu samráði um frv. sem hér liggur fyrir.
    Ég sé ástæðu til að leiðrétta hv. 4. þm. Austurl. Hann var órólegur í ræðustólnum áðan, vísaði til þskj. og annars slíks. Ég gerði ráðstafanir til að fá að sjá slík þskj., sem er alvanalegt, og fékk til þess starfsmann þingsins, sem þingmanninum í þessu tilviki þóknaðist að kalla embættismann og gefa með því í skyn að embættismenn samgrn. hefðu verið á vappi hér inni í þingsalnum sem er fullkomlega rangt. Það var einungis um það að ræða að starfsmaður í skjaladeild Alþingis leitaði að skjölum fyrir mig sem varða það mál sem er til umræðu og sem hv. þm. vék sérstaklega að í sínu máli. Hann gekk meira að segja svo langt að beina til mín sérstökum spurningum sem lutu að því hver væri mismunur á því frv. sem liggur fyrir og frv. sem hann hafði sjálfur staðið að og var til umræðu á síðasta þingi. Það er auðvitað alveg ljóst að ekki er hægt að svara spurningum af þessu tagi ef maður hefur ekki við höndina þau plögg sem í hlut eiga. Nú þykist ég vita að hv. þm. hafi haldið að mér gengi annað til en raunin var og hafi af þeim sökum séð ástæðu til að vanda um við ráðherra.
    Ég vil fyrst víkja að 1. gr. frv. Hv. 4. þm. Austurl. vék réttilega að því að frv. er að stofni til og í mörgum efnisatriðum byggt á frv. til laga um ferðaþjónustu sem lagt var fram á síðasta þingi. Þar á meðal er sú almenna skilgreining sem hér er. Annars vegar er talað um almenna ferðaskrifstofu og hins vegar er talað um ferðaskipuleggjendur. Þetta er í fullkomnu samræmi við 24. gr. frv. sem lagt var fram á síðasta þingi. Þar segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Leyfi til starfsemi á sviði ferðamiðlunar eru eftirfarandi:
    A. Leyfi fyrir ferðaskrifstofur.
    B. Leyfi fyrir ferðaskipuleggjendur.``
    Hitt er svo annað mál að í frv. er tekið fram að ferðaumboðssalar megi starfa á ábyrgð ferðaskrifstofu. Þá er auðvitað um það að ræða að ferðaskrifstofan ber ábyrgð á störfum þeirra þannig að ég sé ekki að þarna sé um efniságreining að ræða milli mín og hv. þm. Á hinn bóginn er frv. sem hér liggur fyrir einfaldara og styttra en frv. sem lagt var fram á síðasta Alþingi. Skýringin á því að þessi aðferð er viðhöfð, að skilgreina almenna ferðaskrifstofu með þeim hætti sem hér er gert, er auðvitað sú að hugmyndin er að

nota þessar skilgreiningar síðar meir m.a. til þess að byggja á þeim í sambandi við tryggingar sem óhjákvæmilegt er að krefjast af þeim sem hafa starfsemi af þessu tagi með höndum. Það er augljóst að tryggingarfé þarf ekki að vera jafnmikið þegar um fyrirtæki, félag eða einstakling er að ræða sem annast fyrirgreiðslu og skipulagningu ferða fyrir hópa og einstaklinga innan lands. Þetta er svo augljóst að ekki þarf að hafa um það fleiri orð og í fullkomnu samræmi við hagsmuni og málflutning Félags ísl. ferðaskrifstofa.
    Um 2. gr. frv. er það að segja að, eins og hv. þm. er kunnugt, við höfum gert samning um hið Evrópska efnahagssvæði. Í ferðaþjónustunni sérstaklega hefur það verið stefna mín og hefur verið skoðun þeirra sem ég hef talað við innan ferðaþjónustunnar að það sé okkar hagsmunir að brjóta niður þá þröskuldi og höft sem eru á samskiptum Íslendinga og annarra þjóða. Ég hef m.a. af þeim sökum nýlega skrifað utanrrn. og óskað eftir því að gerður verði nýr loftferðasamningur milli Íslands og Danmerkur. Það vakti sérstaka athygli mína að tveir hv. þm. sáu ástæðu til að víkja sérstaklega að því hversu voldugt og mikið fyrirtæki Flugleiðir væru. Annar komst svo að orði að Flugleiðir hefðu í sínum höndum eða réðu öllum ferðum milli Íslands og Evrópu. Þetta er auðvitað algerlega rangt. SAS hefur þegar blásið til atlögu gegn Flugleiðum og beitir margvíslegum aðferðum til að reyna að veikja stöðu Flugleiða á þessari flugleið og um leið liggur það fyrir að dönsk flugmálayfirvöld hafa staðið á móti því að Flugleiðir hafa getað boðið þau fargjöld milli Íslands og Kaupmannahafnar sem Flugleiðir hafa talið henta sínum hagsmunum en við höfum vegna loftferðasamningsins orðið að sætta okkur við það. Sömuleiðis höfum við orðið að sætta okkur við að SAS hefur margvísleg tilboð sem Flugleiðir af augljósum ástæðum geta ekki boðið bæði hvað varðar framhaldsflug á Norðurlöndum og flug til Bandaríkjanna í sambandi við hótel og ýmislegt annað. Flugleiðir standa frammi fyrir mjög harðnandi samkeppni á þessari flugleið og megum við þakka fyrir meðan fyrirtækið heldur þeirri hlutdeild sem það nú hefur og meðan það hefur burði til að halda uppi þeirri atvinnustarfsemi, þjónustu, landkynningu og gjaldeyrisöflun sem það gerir. Talað er um að gjaldeyristekjur okkar af ferðaþjónustu séu í kringum 11--12%. Af því má tengja heminginn starfsemi Flugleiða eða um 6%. Við erum því auðvitað að tala um geysilega öfluga starfsemi sem er okkur mjög mikils virði og raunar lykillinn að velgengni okkar í ferðamálum.
    Það kom mjög skýrt fram hjá ýmsum þingmönnum sem hér töluðu að þeir eru hræddir um að erlend áhrif verði of mikil í ferðaskrifstofurekstri hér á landi og er í þeim efnum sérstaklega talað um að þeir sem fyrir slíkum rekstri standi þurfi að vera búsettir hér á landi. Í brtt. sem lögð var fram á síðasta þingi er gert ráð fyrir því, ef ég man rétt, að viðkomandi verði að hafa búið hér á landi í eitt ár. Nú man ég þetta ekki nákvæmlega en ég hygg að það sé svo.
    Með frv. er tekið mið af samningunum um hið Evrópska efnahagssvæði í 2. gr. enda samkvæmt þeim óheimilt að leggja þjóðerni til grundvallar í sambandi við atvinnustarfsemi. Síðasta Alþingi samþykkti viðamikil lög um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri og auðvitað fer um ferðaþjónustu sem annan atvinnurekstur. Hún hlýtur um leið að lúta þessum lögum. Í þeim er gerður sérstakur fyrirvari eða ákvæði eru höfð strangari varðandi fiskveiðar, fisvinnslu, orku, flugrekstur og banka. Þannig er gert ráð fyrir því samkvæmt þessum lögum að samanlagður eignarhluti erlendra aðila í íslenskum atvinnufyrirtækjum, sem stunda flugrekstur hér á landi, megi á hverjum tíma ekki vera meiri en 49%. Í bönkum er talað um 25%. Síðan eru almenn skilyrði sett í þessum lögum og kveðið á um það að erlendur atvinnurekstur í hverri atvinnugrein fyrir sig megi ekki fara yfir 25% nema til komi leyfi viðskrh. og ýmis önnur ákvæði eru í þessum lögum. Það er vitaskuld eðlilegt að ferðamiðlun starfi á sama grundvelli og aðrar atvinnugreinar að þessu leyti. Hitt er svo almennt íhugunarefni hversu langt menn vilja ganga í samvinnu við erlenda aðila og með hvaða hætti menn vilja opna landamærin. En öll slík viðskipti milli Íslendinga og annarra aðila hljóta að vera á gagnkvæmum grundvelli.
    Það liggur líka ljóst fyrir að þegar við erum að velta fyrir okkur með hvaða hætti við getum lengt ferðamannatíma og eflt ferðaþjónustu hér á landi stöndum við jafnan

frammi fyrir því að við höfum ekki ráð eða efni til að ráðast í ýmislegt það sem við höldum að geti orðið til að örva þessa atvinnugrein. Ég nefni sem dæmi ferðaþjónustu sem tengist Bláa lóninu og heilsuvernd, heilsuhælum, sérstakri meðferð á sérstökum sjúkdómum sem ég er nú ekki klókur í að lýsa. Það eru tilraunir í gangi og hugmyndir uppi um það víða um land hvernig við getum komið inn á þennan markað. M.a. er verið að athuga það sérstaklega norður í Þingeyjarsýslum en við stöndum á hinn bóginn alltaf frammi fyrir sama vandasmálinu, við höfum ekki peninga aflögu til að ráðast í tilraunir sem við sjáum ekki fram á hversu kostnaðarsamar verða. Hið sama á raunar við um ráðstefnumiðstöð hér á landi. Ýmsir hafa talið, og ég hygg að það sé á rökum reist, að þar þurfi að standa myndarlegar að verki en við gerum nú ef við eigum að gera okkur vonir um að ráðstefnuhald verði snar þáttur í ferðaþjónustu hér á landi.
    Ég tek undir með hv. þm. um að erfitt er að skilgreina og gera sér nákvæma grein fyrir hvað átt sé við með orðunum ,,að skaða hagsmuni íslenskrar ferðaþjónustu``. Þetta er auðvitað teygjanlegt hugtak og kannski ekki mjög lögfræðilegt en þarna er þó settur viss fyrirvari sem er rúmur og getur lotið að ýmsum þáttum bæði fjármálalegs og umhverfislegs eðlis.
    Ég vil að lokum segja, út af því sem sagt var um leiðsögumenn. Ég er fullkomlega sammála hv. þingmanni um að það þarf að skilgreina þá hluti betur, hver skuli vera réttindi leiðsögumanna og hver skuli vera staða þeirra og hvernig við eigum að meta atvinnuréttindi manna sem hingað koma með erlendum hópum. Það er sérstök nefnd að störfum að kanna þessa hluti á vegum samgrn., félmrn. og Ferðamálaráðs og er nýtekin til starfa. Ég vonast til að hún geti lokið störfum sem fyrst. Ég átta mig ekki á hvað átt er við með því sem sagt var um sérleyfishafa en þeir hafa að sjálfsögðu ekki ferðaskrifstofuleyfi. Þeir geta fengið leyfi sem ferðaskipuleggjendur að sjálfsögðu með sömu skilmálum og aðrir.