Skipulag á Miðhálendi Íslands

124. fundur
Föstudaginn 10. apríl 1992, kl. 10:35:01 (5415)

     Guðni Ágústsson (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Þunnt er setinn ráðherrabekkurinn á þessum drottins degi. Hér á að fara að ræða stórmál sem er skipulag Miðhálendis. Ég skal ekki draga úr því. En þar sem mér sýnist að hér sé um tillögur að ræða sem draga völdin frá sveitarfélögunum, auka miðstýringuna, ganga þvert á stefnu núv. ríkisstjórnar, þá held ég að það væri mjög mikilvægt og fer fram á það að þetta mál verði ekki hér rætt nema hæstv. félmrh. verði viðstaddur. Ég tel að þetta frv. sniðgangi eigna- og umráðarétt einstaklinga og sveitarfélaga og vil að hæstv. félmrh. verði við þessa umræðu og geri kröfu um það að svo verði, þ.e. að umræðan hefjist ekki fyrr en hæstv. félmrh. verði hér viðstaddur. Það er nú svo að maður hefur svolítið meiri álit á þeim ráðherra en kannski mörgum öðrum.