Skipulag á Miðhálendi Íslands

124. fundur
Föstudaginn 10. apríl 1992, kl. 11:57:00 (5422)

    Virðulegur forseti. Ég vil lýsa ánægju minni með að þetta frv. skuli komið hér fram. Það urðu mér hins vegar vonbrigði að hæstv. ráðherra skyldi segja að frv. væri flutt nú til

kynningar. Ég lít svo á að málefni hálendisins, þ.e. skipulags- og byggingarmál hálendisins, þoli ekki neina bið og vona ég að við berum gæfu til þess að afgreiða þetta mál fyrir þinglausnir í vor.
    Hv. 1. þm. Norðurl. v. talaði um það áðan að hér væri um mikinn lagabálk að ræða. Þetta eru nú ekki þau ósköpin að við ættum ekki að geta komist fram úr því á þessum tíma sem við höfum fram á vor og vonast ég til þess að hv. umhvn. geti strax hafist handa við að líta á þetta mál og við getum afgreitt það.
    Það kom fram hér í máli hæstv. ráðherra og reyndar fleiri að í október árið 1990 var skipuð nefnd af þáv. umhvrh. til að undirbúa frv. til laga um tilhögun stjórnsýslu á hálendi Íslands. Fulltrúi Kvennalistans í þeirri nefnd var Bryndís Brandsdóttir. Þó að öllum eða flestum hafi þá þegar verið ljóst að það þyrfti að gera átak í þessum málum, málefnum hálendisins, þá var það enn ljósara eftir starf þessarar nefndar. Eins og hér hefur komið fram fengum við skýrslu í hendur á Alþingi á 113. löggjafarþingi um störf nefndarinnar og geta menn þá sjálfsagt nálgast hana ef þeir hafa áhuga á að vita hvað þar kom fram.
    Ég held að það hljóti öllum að vera ljóst eins og ég reyndar sagði áðan að það þarf að taka á skipulagi hálendisins. Þetta frv. sem hér liggur frammi sýnist mér gera það á nokkuð ásættanlegan hátt. Það eru að vísu nokkur atriði sem þarf að taka til nánari athugunar sem ég tel sjálfsagt að verði gert í nefnd. Það eru atriði t.d. varðandi mörk hálendisins, nákvæmlega hvar þau eiga að liggja. Ég tel að það kort sem við fengum með þessu frv. ágætt viðmið en það má auðvitað endurskoða hvar mörkin eiga nákvæmlega að vera. Það kemur m.a. fram í fskj. með þessu frv. að litið hafi verið á það að hálendinu yrði skipt niður á allar sveitarstjórnir en fram komu margir annmarkar á því, m.a. má nefna að jöklarnir á Miðhálendinu mundu ekki tilheyra neinu sveitarfélagi og ýmislegt fleira sem gerir það að verkum að það er mjög erfitt að hugsa sér skipulags- og byggingarmál á hálendinu í höndum mjög margra sveitarstjórna. Ég er því mjög ánægð með það meginfyrirkomulag sem gert er ráð fyrir í þessu frv. og tel að þetta sé eina leiðin, að taka á skipulags- og byggingarmálum á þennan hátt. Það má síðan um það deila hvort það eigi að ganga enn þá lengra með alla stjórnsýslu og t.d. hafa margir bent á það að löggæslan er mjög flókin í höndum mjög margra sveitarfélaga. Það er að vísu ekki tekið neitt á því í þessu frv. heldur afmarkast það eingöngu við skipulagsmál. En ég hefði talið eðlilegra að líta á það einnig, en það verður þá væntanlega gert í framhaldinu.
    Svo virðist á mörgum að þeir haldi að málin séu í góðu horfi, alla vega einhverjir og má nefna til sögunnar hv. 1. þm. Norðurl. v. sem talaði hér áðan. Hann leit svo á að málunum væru ekki svo illa fyrir komið eins og þau væru núna. Mig langar þess vegna, virðulegur forseti, að fá að vitna hér í grein í Morgunblaðinu frá því 10. nóv. 1991 þar sem tekið er á þessum málum. Greinina skrifar Kristín Gunnarsdóttir, sem ég reyndar þekki ekki en ég reikna með að sé blaðamaður hjá Morgunblaðinu. Mig langar til að taka nokkur atriði úr þessari grein, með leyfi virðulegs forseta, en þar segir:
    ,,Öll sveitarfélög eru skipulagsskyld og allar byggingar ofan jarðar sem neðan jarðar háðar samþykktu skipulagi viðkomandi sveitarstjórnar og skipulagsstjórnar ríkisins.`` Þetta er haft eftir Stefáni Thors skipulagsstjóra. Og síðan, þegar búið er að rekja nokkuð hvernig þessum málum er fyrir komið, segir í greininni:
    ,,Þegar kemur að hálendinu virðist vera gloppa í lögum og erfitt að átta sig á hver fer með lögsögu þar og hvaða reglur eiga að gilda.`` Og enn síðar segir, og þá er haft eftir Stefáni Thors: ,,Við höfum túlkað það þannig að þegar sveitarfélögunum sleppir og um er að ræða svæði, sem ekki teljast sannanlega innan staðarmarka ákveðins sveitarfélags, þá sé það skipulagsstjórnar og ráðuneytisins að fjalla um byggingarmál þar. En það hefur borið við að fólk almennt og sveitarstjórnir hafa litið svo á að inni á miðhálendi gildi engar reglur og að þar sé hægt að gera nánast hvað sem er. Þá eru byggðir skálar án þess að leita umsagnar og tilskilinna leyfa. Og þó svo að tilskilin leyfi sveitarstjórnar liggi fyrir og umsagnir náttúruverndarnefnda þá telja margir að hægt sé að byggja þar öðruvísi, eða réttara sagt skála sem minni kröfur eru gerðar til en þeirra sem eru í byggð. En hús á hálendinu þurfa auðvitað að standast sömu kröfur og hús í byggð. Þar á ekki allt að fyllast

af skúrum, gömlum vinnubúðum og bensínafgreiðsluskúrum sem ekki er hægt að nota í byggð.``
    Þetta er haft eftir skipulagsstjóra ríkisins þannig að ég held að allir hljóti að vera alveg vissir á því, bæði eftir að hafa ferðast um hálendið og lesið það sem um það hefur verið sagt, að þar er ekki allt í lagi. Það verður að gera eitthvað í skipulagsmálum hálendisins. Og að halda því fram að það sé hægt að búa við óbreytt kerfi er auðvitað tóm firra.
    Ég verð, virðulegur forseti, að fá að vitna aðeins meira í þessa ágætu grein sem hér er þó að fréttir af því sem þar kemur fram hafi komið víða annars staðar. Til dæmis er talað um að það séu um 400 skálar á víð og dreif um allt hálendið, gangnamannakofar, slysavarnaskýli, ferðafélagsskálar og 100 skálar eru í einkaeign, í mismunandi ástandi. Og við höfum heyrt það í fréttum bæði í fyrrasumar og sl. vetur að það er alltaf verið að flytja skála þarna upp eftir og að mati margra og mín líka oft og tíðum í óleyfi eða að leyfið hefur ekki verið fyrir því sem byggt hefur verið. Til dæmis er auðvitað ekki hægt að leyfa að byggja einhverja skúra og eitthvert drasl og þó að sveitarstjórnir hafi kannski verið að reyna að spyrna við fótum, þá hefur samt verið farið með þessi hús upp á hálendið og í mörgum tilvikum hafa menn talið sig vera þar í fullum rétti.
    Ég má til að vitna hér, ég hef reyndar gert það áður úr þessum ræðustól, en það var um fyrirspurn þar sem ég var einmitt að spyrja um þetta atriði en mig langar til, virðulegur forseti, að segja aðeins frá því sem Ragnar Krisjánsson, sem er sérfræðingur Náttúruverndarráðs í skipulags- og mannvirkjagerð, segir um það hvernig menn líta á hálendið. Ragnar segir:
    ,,Spurningin er hvort sveitarstjórnir geta heimilað slíkar byggingar`` --- það er verið að tala um skálabyggingar á hálendinu --- ,,er ekki á hreinu og þar með ráðstafa því til næstu 25 ára.`` Það er sem sé ekki á hreinu hvort þeir geta leyft byggingar þar. Og svo segir hann: ,,Ég veit til þess að maður sem fór með skála inn á hálendið gerði athugasemd vegna annars skála sem reistur var í nágrenninu og honum þótti vera of nærri. Óskaði hann eftir að framkvæmdir yrðu stöðvaðar. Hvorugur skálanna hafði fengið tilskilin leyfi en hann vildi vera einn og taldi sig vera í fullum rétti þar sem hann kom fyrstur á staðinn.`` Og svo segir Ragnar: ,,Þetta minnir á hugsunarhátt bandarísku frumbyggjanna.``
    Þarna sjá menn að þetta er mjög óljóst. Það þarf að vera miklu ljósara hvernig með þessi mál eigi að fara og þeir sem hafa ferðast um hálendið vita að menn keyra þvers og kruss án þess að virða nokkrar reglur. Það er keyrt utan vega og því miður höfum við ekki heldur nægilega góða reglu varðandi það atriði, en ég ætla ekki að fara að ræða það hér. En hvaða skoðun sem maður hefur á því hver eigi að fara með stjórnsýsluna þá er alveg ljóst að hún er mjög langt frá því að vera í góðu lagi. Þess vegna vil ég aftur lýsa ánægju minni með það að þetta frv. skuli hér vera komið fram en velti því fyrir mér hvernig fer með skálabyggingar sem fyrir eru, hvort það er alveg ljóst að þá skála sem hafa verið byggðir í óleyfi hingað til verði mönnum gert að fjarlægja. Mér er það ekki alveg ljóst af lestri frv. en þó taldi ég að svo væri og vildi ég spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé rétt lesið úr þessu frv. ef það verður að lögum að menn verði þá skyldaðir til þess að fjarlægja þær byggingar sem hafa verið byggðar í óleyfi vegna þess að ég tel mjög mikilvægt að það verði gert.
    Ég vil minnast á eitt atriði í viðbót sem gerir það að verkum að ég tel mjög nauðsynlegt að það sé tekið á skipulagi hálendisins heildstætt, þ.e. að sú leið sé valin sem gert er ráð fyrir í þessu frv. Það er að ég tel mjög nauðsynlegt að það séu tekin frá ákveðin svæði þar sem ekki er neitt hróflað við og hafa verið nefnd óbyggð víðerni og er minnst á í fskj. II með þessu frv. þar sem Þóra Ellen Þórhallsdóttir ræðir um mikilvægi hálendisins. Og mig langar aðeins að lesa þar nokkrar línur, með leyfi forseta:
    ,,Öræfin skipa Íslendingum í fámennan flokk þjóða, þeirra sem enn eiga stór óráðstöfuð landsvæði. Í mörgum þéttbýlum löndum eru engin svæði eftir sem ekki bera merki um umsvif landsins. Upprunalegur gróður og dýralíf er að mestu horfið en í staðinn komin meira eða minna manngerð vistkerfi.`` Við erum svo heppin að eiga enn eftir nokkurt

land sem ekki er meira og minna komið með manngerð vistkerfi og tel ég mjög mikilvægt að við gætum þess að við skiljum eftir einhver ákveðin landsvæði algjörlega ósnortin til þess að við getum notið þeirra án þess að þar séu nein mannvirki, vegir, hús eða neitt annað.
    Mér gafst kostur á því fyrir einum þremur árum að fara til Bandaríkjanna og kynna mér þessi mál, eða ég gerði það í ferð sem ég fór þangað, og þá kynntist ég því hvernig Bandaríkjamenn hafa gert þetta. Þeir hafa tekið frá ákveðin landsvæði þar sem enginn fær að koma inn á nema gangandi. Það eru ekki nein vélknúin ökutæki á einn eða annan hátt, það er ekki hægt að fara á hestum þar inn heldur eingöngu gangandi. Þeir hafa gætt þessara svæða mjög vel og meira að segja svo vel að þeir skammta fólk inn á svæðin. Það má ekki vera nema ákveðinn fjöldi fólks inni á hverju svæði gangandi. Þeir telja að það sé svo mikilvægt að fólk geti verið þar í tengslum við náttúruna og það séu ekki allt of margir í einu á svæðinu þannig að það þarf að sækja um leyfi til að koma inn á þessi svæði. Mér er ekki kunnugt um það hvort mörgum sé vísað frá, en aðspurður sagði þó maður sem þetta kynnti að það væri nokkuð um það að fólk sem kæmi með stuttum fyrirvara og vildi komast inn á þessi svæði fengi ekki að fara inn vegna þess að of margir væru inni á svæðinu. Ég er ekki að segja endilega að við þurfum að ganga svona langt í að taka frá svæði þannig að við förum að standa við hlið og banna fólki að fara inn. Ég tel það bæði óframkvæmanlegt og vonandi er það óæskilegt, eða ég tel það á vissan hátt óæskilegt ef við þurfum að fara að gera slíkt. Ég tel mjög mikilvægt að taka frá ákveðin svæði og ég tel að það sé nánast útilokað að gera það öðruvísi en að taka á skipulagi hálendisins með heildstæðum hætti eins og hér er gert ráð fyrir.
    Ég vona að hv. Alþingi samþykki það að þetta mál fari til umhverfisnefndar. Hv. 1. þm. Norðurl. v. gerði það að tillögu sinni að þetta mál færi til landbn. Hann rökstuddi það alls ekki, hann rökstuddi ekki það mál á neinn hátt og skil ég alls ekki hvað lá að baki þeirri tillögu. En hv. þm. er því miður ekki í salnum þessa stundina þannig að ég get ekki beðið hann um skýringu á þessari tillögu sinni, en ég get ekki séð nokkur rök fyrir því að þetta mál fari til neinnar annarrar nefndar en umhvn. sem eðli málsins samkvæmt fjallar einnig um byggingarmál.
    Virðulegur forseti. Ég ætla mér ekki að fara út í einstök efnisatriði þessa frv. þar sem ég sit í umhvn. og tel mig geta þá komið þeim á framfæri en það eru nokkur smáatriði sem ég hefði viljað breyta eða hafa öðruvísi og mun þá vinna það í samvinnu við aðra nefndarmenn í hv. umhvn.