Skipulag á Miðhálendi Íslands

124. fundur
Föstudaginn 10. apríl 1992, kl. 12:31:00 (5424)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er nokkuð sérstakt að hv. þm. hefur á móti því að menn hafi uppi skýrt mál í sambandi við svo mikilsvert atriði eins og frv. sem hér er til umræðu, sem ríkisstjórnin hefur haft fyrir að leggja hér fyrir þingið. En tilefni þess að ég vil svara í stuttu ræðu hv. þm. er það sem hann mælti varðandi túlkun mína á eignarhaldi á landi. Í rauninni svaraði hann því sjálfur í sínu máli en dró svo mjög einkennilegar ályktanir af því þegar ég gaf til kynna að um þetta væri mikil óvissa, réttaróvissa varðandi stór landsvæði. Það er ekkert annað en það sem fyrir liggur og það sem Hæstiréttur landsins hefur staðfest og nægir að vísa þar til hæstaréttardóms frá 1981 varðandi eignarrétt á Landmannaafrétti, en fyrir utan þá meginniðurstöðu að hvorki ríki né bændum var dæmdur eignarréttur yfir landinu en málinu nánast vísað til Alþingis eða löggjafans, þá segir m.a. í þeim dómsorðum:
    ,,Hins vegar verður að telja að handhafar ríkisvalds sem til þess eru bærir geti í skjóli valdheimilda sinna sett reglur um meðferð og nýtingu landsvæðis þess sem hér er um að ræða en líta ber til þess að fyrirsvarsmenn ríkisins hafa viðurkennt rétt byggðamanna til upprekstrar og annarra afréttarnota sem lög eða venjur eru fyrir.``
    Ég held einmitt að þessi niðurstaða Hæstaréttar 1981 segi okkur talsvert um það hver staðan er í þessum efnum. Og þegar ég tala um svonefndan eignarrétt, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) og skal ekki lengja mál mitt teljandi, þá er einmitt verið að vísa til

þessarar réttaróvissu. Ég held að hv. þm. ætti að lesa ritgerðir manna úr Sjálfstfl. varðandi þessi efni, t.d. varðandi auðlindir lands, eins og jarðhitaréttindi og kynna sér viðhorf manns eins og Bjarna Benediktssonar, sem einu sinni var formaður Sjálfstfl., þar að lútandi.