Skipulag á Miðhálendi Íslands

124. fundur
Föstudaginn 10. apríl 1992, kl. 12:36:00 (5427)

     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram í umræðunni að það er skaðlegt hvað mörg stór mál koma seint fram á þessu þingi eins og oft áður, þegar bæði lítill tími er eftir til efnislegrar vinnu hér í þinginu, því nú skilst mér að samkvæmt dagskrá þingsins séu ekki eftir nema u.þ.b. þrjár vikur af þeim tíma sem markaður var í upphafi. Ég held því að það sé lítið svigrúm fyrir mörg þau stóru mál sem ríkisstjórnin hefur lagt fram til efnislegrar umfjöllunar.
    Hvað varðar þetta mál sem hér er á dagskrá, frv. til laga um stjórn skipulags- og byggingarmála á Miðhálendi Íslands, þá geri ég ekkert lítið úr mikilvægi þess að marka þar stefnu og taka þar á á ýmsum sviðum. Ég geri hins vegar athugasemdir við það þegar lagt er fram frv. sem miðar að aukinni miðstýringu þar sem lagt er til að taka undan sveitarstjórnum verkefni sem þær hafa farið með og fara með samkvæmt lögum og fela það sérstakri hreppsnefnd hv. umhvrh. eins og hér er lagt til. Hér er lagt til að stofna nýtt stjórnsýsluumdæmi með sérstakri hreppsnefnd sem umhvrn. skipar eftir hverjar sveitarstjórnarkosningar sem fari með vald á mikilvægum eignarsvæðum og umráðasvæðum sveitarfélaga og einstaklinga. Við þetta er ég mjög ósáttur og mun fara yfir það hér.
    Ég ræddi það, hæstv. forseti, í upphafi þessarar umræðu að það væri mikilvægt að hæstv. félmrh., sem fer með málefni sveitarfélaganna og hefur boðað þar aukið frelsi, aukið vald sveitarstjórnanna, væri viðstaddur þessa umræðu. Hverju sætir það nú að forseti hefur ekki komið slíkum boðum áfram? Eða var þeim boðum ekki komið til skila?
    Það á öllum að vera ljóst að verkefni sveitarstjórna eru samkvæmt lögum að fara með skipulags- og byggingarmál, þar á meðal gerð aðal- og svæðisskipulags, gerð deiliskipulags, framkvæmd byggingarlaga og byggingareftirlit. Þetta er skýrt markað í lögum landsins. Eins er það auðvitað skýrt markað að afréttir og upprekstrarlönd heyra undir viðkomandi sveitarstjórnir. Hitt er annað mál að ráðuneyti geta auðvitað krafið og veitt aðhald um það að sveitarfélög gegni skyldum sínum og þess þarf kannski stundum með í sumum tilfellum.
    Ef við víkjum aðeins áður en ég kem að frv. að afréttunum, hverjir eiga þá og hverjir eiga að fara með þau málefni. Það er nú svo með hálendið og marga stærstu afrétti á Miðhálendinu að þeir voru markaðir hreppum fyrir þann tíma að Alþingi sjálft var stofnað. T.d. var á Suðurlandi búið að stofna eina fjóra hreppa og skýrt markaður réttur hverrar jarðar til afréttarins og bændurnir áttu hlutdeild í afréttinum og greiddu gjöld samkvæmt þeim eignarrétti. Og þar með gerðist það að sveitarstjórnirnar fóru að fara með þessi málefni. --- Ég fagna því að hæstv. félmrh. er hér komin í þingsalinn, en hún hefur mjög boðað þá stefnu sem skal tekið undir að auka völd sveitarstjórna, stækka sveitarfélögin og færa þeim æ stærri verkefni í framtíðinni.
    Nú hefur það gerst að flokksbróðir félmrh. flytur hér frv. þar sem lagt er til að taka undan valdi og áhrifum sveitarstjórnanna heilan málaflokk, skipulags- og byggingarmál á Miðhálendi Íslands. Nú vill svo til að þetta Miðhálendi eða þessi hreppur sem hæstv. umhvrh. markar sér snýr ekki bara að Miðhálendinu því samkvæmt þeirri girðingu sem hann hefur sett á kort sýnist mér að hann sé nærri túnum allmargra bæja og heilu eignarjarðirnar séu inni á Miðhálendinu. Mér kæmi t.d. ekki á óvart þó að hv. þm. Egill Jónsson byggi á Miðhálendinu samkvæmt girðingunni sem er á kortinu og ég sé það að margir bæir á Suðurlandi eru markaðir innan Miðhálendisins, t.d. Merkurbæir undir Eyjafjöllum. Mér kæmi ekki á óvart þó að einhver hluti jarðar hv. þm. Drífu Hjartardóttur, sem hér situr sem varaþingmaður, sé inni á Miðhálendi og svo gæti ég áfram talið. Þannig að það er kannski nær höggvið valdsviði sveitarstjórna en ég gerði mér grein fyrir. Þess vegna er mér nú mikilvægt að vita það hvort hæstv. félmrh. er sama sinnis og umhvrh. að það þurfi af einhverjum ástæðum sérstaka hreppsnefnd á Miðhálendið.
    Ég er andvígur hreppsnefnd á Miðhálendinu og tel eðlilegra að við miðum við þau hreppamörk sem verið hafa og þau umráðasvæði afréttanna að þau gildi áfram og verði undir ábyrgð heimamanna, öll mál þar að lútandi, bæði skipulagsmál, byggingarmál o.s.frv., en það verði eðlinu samkvæmt stuðst við lög. Sem betur fer hafa flestar sveitarstjórnir sem fara með þessi málefni gert það, verið í mjög nánu samráði við Skipulag ríkisins, við Náttúruverndarráð um framkvæmdir og í flestum tilfellum tekist vel. En ég ætla ekkert að draga úr því að það getur verið og er sjálfsagt nauðsynlegt að setjast niður og semja áætlun um skipulag Miðhálendisins, ná um það samstöðu meðal allra Íslendinga hvernig við skulum marka framtíðina á þessu dýrmæta svæði landsins sem Miðhálendið er.
    Ég hefði talið eðlilegt, í stað þess að leggja þetta frv. fram að hæstv. umhvrh. hefði skipað samráðshóp þeirra sem landið eiga og nota og manna frá Skipulagi ríkisins, Náttúruverndarráði og úr umhvrn. þar sem gerðar væru tillögur um skipulag Miðhálendis í framtíðinni. Ég er í engum vafa um það að á hálendi Íslands er mikill auður. Sú þjóð er rík sem á bundið vatn í stórum jöklum og fannbreiðum hér á hálendinu. Forðabúr Íslands í orkumálum liggur í jöklunum, ám og vötnum Miðhálendisins. Og þetta eiga eftir að verða enn þá meiri auðæfi en við gerum okkur kannski grein fyrir á þessari stundu. Í heimi þverrandi orkugjafa liggur framtíðarauður Íslendinga, ekki síst í virkjuðu sem óvirkjuðu vatnsafli, í fossum og flúðum, svo og í jarðhita.
    Við vitum það að kol og olía eru auðlindir sem munu þverra innan áratuga og árhundraða. En fossaflið stendur fyrir sínu, endurnýjast meðan við varðveitum þessi forðabúr.
    Það væri kannski mikilvægasta verkefni hins nýja umhvrh. að reyna fremur að standa gegn hinum eyðandi öflum sem hafa áhrif á ósonlagið heldur en að standa í valdabaráttu með það í huga að miðstýra öllu Miðhálendinu úr sínu umhverfi, umhvrn., og eiga þar alveg sérstaka hreppsnefnd.
    Ég veit líka að hálendið er enn fremur dýrmæt paradís. Þangað beinist vaxandi fjöldi ferðamanna til að takast á við og njóta útiveru í stórbrotnu landslagi í kyrrð öræfanna. Það verða ekki bara Íslendingar sem vilja sækja sér hamingju og kraft inn á íslensk öræfi. Útlendingar sýna öræfum okkar vaxandi áhuga. Ferðalögin munu verða fjölbreytt. Það mun verða göngufólk, hestaferðir, jeppaferðir, sleðaferðir, enn fremur munu eigendur og notendur afréttarlandanna vilja nýta afréttinn undir sauðfé sitt. Þarna er og verður vaxandi umferð, vaxandi áhugi, þannig að skipulag og starfshættir eru mikilvægir hvað þetta varðar.
    Ég hef t.d. heyrt að hingað sæki erlendir menn í vaxandi mæli með börn sem eiga í erfiðleikum og það sé að verða ein aðalsálfræði til þess að hjálpa börnum út úr ákveðinni sálarkreppu að takast á við erfiða náttúru, fara þvert yfir hálendi Íslands. Ég sá það t.d. í umræðu hér á dögunum um vegalaus börn að bóndi í Biskupstungum og húsfreyja sögðu frá því að hvergi sæktu þau meiri heilsulind fyrir þessi börn en inn á öræfum í hestaferðalögum þar sem lækningin virtist koma við kraft öræfanna og þess að takast á við og bera ábyrgð á sjálfum sér í því fagra umhverfi.
    Það er mikilvægt, eins og ég hef sagt, að taka á þessu og gæta umhverfisverndar og eiga skipulag. Akstur utan merktra leiða og vegslóða, stórir flokkar manna með tugi eða hundruð hrossa, efnistaka á grjóti eða náttúruperlum, allt þetta án skipulags og án eftirlits getur valdið varanlegu tjóni og skaða fyrir þjóðina. Og eins er það auðvitað sem hér liggur í þessu frv. og ég hef rætt að það er mikilvægt að skoða byggingarmál hálendis, á fjallaskálum og öðrum mannvirkjum, með framtíðarsýn í huga. En að ætla með löggjöf að svipta eigendur á lögformlegu umráðasvæði, sveitarfélögin, að svipta eigendur viðkomandi svæða öllum rétti og allri ábyrgð væri glórulaus vitleysa. Og ég spyr hæstv. félmrh. hvort hún sé þeirrar skoðunar að svipta beri þessi sveitarfélög, sem farið hafa með þessi málefni í þúsund ár eða meira, öllum umráðarétti hvað þessi málefni varðar eins og frv. gerir ráð fyrir.
    Sveitarstjórnarmenn hafa hrokkið dálítið við sem er ekki óeðlilegt þegar þeir hafa heyrt anda þessa frv. Það hafa þeir gert af mörgum ástæðum. Þeir hafa gert það ekki síst vegna þess að þeir hafa borið talsvert mikla ábyrgð á sínum afréttum og margir sinnt því mjög vel. Ég ætla t.d. að nefna það hér að úr mínu kjördæmi, ef ég tek t.d. eigendur Biskupstungnaafréttar, sem er nú skýlaust sveitarfélagið því að það mun hafa afsal fyrir því að hafa keypt afréttinn af kirkjujörðunum, af Skálholti, af Haukadal og Bæðratungu. Sveitarstjórnarmenn þar hafa sýnt þessum afrétti sínum sem þeir nýta mjög mikla skyldurækni, bæði lagt til hans fjármagn til uppgræðslu, reynt að draga úr fjölda fjár sem á afréttinum er og gera það með skipulagi, lagt stórkostlega peninga til uppgræðslustarfa og í ofanálag tekið upp á því að hafa þar mann á launum, hreppsfélagið, allan ferðamannatímann yfir sumarið til þess að sinna ferðamönnum, hirða rusl og koma því fyrir kattarnef, fara með það til byggða og brenna það þar, vera með hey til þess að selja hestamönnum og leiðbeina þeim um óbyggðirnar. Þetta hefur þessi sveitarstjórn t.d. haft á sinni könnu og ég teldi óeðlilegt að ríkið færi þar að fást við slík verkefni eða sveitarstjórnirnar yrðu hraktar frá þessu starfi sem er í vaxandi mæli. Þannig gæti ég farið yfir fleiri afrétti hálendisins hvað Suðurland varðar, þar hafa sveitarstjórnirnar í vaxandi mæli verið að koma með aukna þjónustu. Þetta á við um Hrunamannaafrétt o.fl., hvað sorphirðuna varðar, hvað þjónustuna varðar við hestamennina og stóra hópa hrossa sem menn eru að fara með yfir, að passa að valdi ekki skaða og vera þar með heyfeng og fleira.
    Nú vill svo til að sex oddvitar í Árnessýslu hafa komið saman og brugðið illa við lestur þessa frv. og sýnist að þeir muni ekki sætta sig við þau áform sem þar eru því að á fundi oddvita í uppsveitum Árnessýslu, sem haldinn var að Borg í Grímsnesi 7. apríl 1992, mótmæla þeir harðlega framkomnu frv. til laga um stjórn skipulags- og byggingarmála á Miðhálendi Íslands. Ályktunin er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Fundurinn telur frv. ganga þvert á yfirlýsta stefnu um eflingu sveitarfélaga og aukin verkefni heima í héraði. Fundurinn telur frv. algjörlega sniðganga eignar- og umráðarétt einstaklinga og sveitarfélaga. Fundurinn álítur stjórnun á þessum málum best komna hjá aðilum sem hagsmuna eiga að gæta við nýtingu landsins og eru staðkunnugir.``
    Undir þetta rita oddvitarnir Böðvar Pálsson, oddviti Grímsneshrepps, Þórir Þorgeirsson, oddviti Laugardalshrepps, Steinþór Ingvarsson, oddviti Gnúpverjahrepps, Loftur Þorsteinsson, oddviti Hrunamannahrepps, Gísli Einarsson, oddviti Biskupstungnahrepps, og

Kjartan Ágústsson, oddviti Skeiðahrepps.
    Þetta vildi ég að kæmi fram við þessa umræðu og ekki síst af því sem ég hef áður talað til hæstv. félmrh.
    Ef ég aðeins skoða frv. og fer yfir greinar þess, þá segir þar skýrt í 1. gr. sem ég hef hér rakið að það er verið að taka ákveðna málaflokka undan yfirráðum sveitarstjórnanna og færa þá til miðstýringarvaldsins hér í Reykjavík. Þess vegna væri mikilvægt að hæstv. félmrh. læsi frv. og segði sitt álit.
    3. gr. segir frá því sem ég hef hér þegar gagnrýnt að umhvrh. skipi að afloknum sveitarstjórnarkosningum sérstaka stjórnarnefnd til að fara með stjórn skipulags- og byggingarmála á Miðhálendi Íslands. Tveir nefndarmenn skuli skipaðir að fenginni tilnefningu Sambands ísl. sveitarfélaga en þrír án tilnefningar. Ég held að það væri afskaplega óheppilegt ef menn settu þetta form á málið. Nú gætum við hugsað okkur það að umhvrh. vilji Miðhálendinu vel, sem ég efast ekki um, og þá þætti mér ekkert óeðlilegt að samstarfsnefnd væri skipuð. Ég hef þegar rætt um að ég teldi eðlilegt að gera skipulags- og framtíðaráætlun um svæðið, en að hér væri um einhverja samstarfsnefnd að ræða sem umhvrh. fengi skipaða í þetta verkefni, t.d. frá sveitarstjórnum á Suðurlandi, sveitarstjórnum eða héraðsnefndum á Norðurlandi, Vesturlandi og Austurlandi. Þetta þyrfti ekkert að vera flókið battarí en þar með hefði verið opnuð leið til samstarfs við heimamenn.
    Ég hef rætt 4. gr. sem er um hlutverk stjórnarnefndarinnar og tel allt í lagi að frumkvæðið um skipulag á Miðhálendinu komi frá Skipulagi ríkisins, frá ráðuneytunum sem málið varðar, en þetta skipulag verður ekki unnið nema í samstarfi við þá menn, eins og ég hef hér rakið, sem þessu landi ráða.
    2. liður 4. gr., um hlutverkið, er ,,að sjá um að skipulagstillögur fái lögformlega meðferð og senda slíkar tillögur til staðfestingar umhvrh., þegar hún telur formleg og efnisleg skilyrði vera fyrir hendi.`` Ég skil nú ekki alveg þessa flóknu grein sem þarna er sett fram.
    Síðan er 3. liður 4. gr., þar sem farið er fram á það ,,að veita byggingarleyfi og önnur leyfi til framkvæmda á Miðhálendinu, eftir því sem áskilið er í lögum þessum.`` Það verði nefnd hér í Reykjavík sem fái þetta vald í hendur. Haldið þið að sé nú ekki heilbrigðara að menn sem fara með þessa málaflokka starfi eftir lögum og fari með þetta alveg eins á hálendinu, eftirlitið o.s.frv. eins og önnur mál í sínu sveitarfélagi?
    Síðan segir í 6. gr. frv. að þetta frv., ef að lögum verði, haggi í engu eignar- og afnotarétti einstakra aðila á landi sem verður innan umdæmisins. En ef maður les frv. áfram og kemur að 10. gr., í III. kafla, þá segir þar:
    ,,Í áætlun um hálendisskipulag skal kveðið á um þá þætti er snerta Miðhálendið í heild og tengsl þess við aðra landshluta. Hér er meðal annars átt við þá þætti sem lúta að samgöngum, orkuveitum, fjarskiptum, landnotkun og landnýtingu, náttúruvernd og ferðamálum.``
    Allt í einu hefur sá sem frv. samdi farið að herða klóna fastar, ná til sín völdunum á sem flestum sviðum eins og kemur glöggt fram í 10. gr. og þær stangast merkilega á, þessi grein við þær fyrri sem ég hef hér farið yfir.
    Ég get þó ekki lagt annað til hvað þetta frv. varðar en að það fái þinglega meðferð og ég efast ekkert um að það verði sent til umsagnar. Ég geri ekki ráð fyrir því að menn nái að afgreiða þetta mál á þessu þingi en kannski verður þetta grunnurinn, þessi umræða og umfjöllun hér í þinginu um málið og í þeirri nefnd, umhvn. sem á að fá málið, að menn nái breiðri samstöðu um að haga þessum málum með öðrum hætti en hér er lagt til, að menn átti sig á því samstarfi sem þeir þurfa að eiga um málið við heimamenn í hverju héraði og að hér gæti kannski með haustinu á nýju þingi legið fyrir mál með allt öðrum hætti en þetta miðstýringarfrv. gerir ráð fyrir.
    Ég hygg að ég hafi hér komið inn á flest þau atriði sem ég vildi minnast á. Ég hef ávallt verið þeirrar skoðunar að einræðisvald sé versta vald sem hægt er að setja upp og ég get ekki sætt mig við það að stór hluti þessa lands búi við það að því fari að ráða einhver ráðherraskipuð nefnd á hverjum tíma, skipuð pólitískt, sem óhjákvæmilega mun standa

í stríði við réttkjörna sveitarstjórnarmenn vítt og breitt um landið. Ég vil ekki trúa því að félmrh. fallist á slíkt. Ég vil heldur ekki trúa því að margir lýðræðissinnaðir sjálfstæðismenn sem að þessari ríkisstjórn standa muni heldur sætta sig við slíkt ofríki úr ráðuneyti í Reykjavík. Það er því ekki vafi í mínum huga að þetta mál muni hér í þinginu snúast á annan veg. Málið hefur þegar eins og það er lagt fram vakið úlfúð og tortryggni sveitarstjórnarmanna allt í kringum landið sem undra sig á þessu máli.
    Hæstv. forseti. Ég hef farið yfir helstu atriðin sem ég vildi koma að. Hæstv. umhvrh. flutti hér að vísu heilmikla framsöguræðu í málinu þar sem hann kom inn á mörg atriði. Ég veit ekki hvort ég á að fara að tína eitthvað sérstakt til að gera athugasemdir við hans ræðu en það var ýmislegt sem ég hnaut um í máli hans og er ekki sammála þó að annað hafi ég vel getað tekið undir.
    En ég legg að lokum áherslu á það að menn noti þau félagslegu og lögkjörnu samtök sem til eru í landinu til þess að ná samstöðu um málið því að ég tek undir það að þetta er mál allrar þjóðarinnar hvort sem menn búa í dreifbýli eða þéttbýli. Þetta er dýrmæt eign og við eigum okkur framtíðarsýn í kringum öræfin og þess vegna er það mikilvægt að menn nái sátt um málið og vinni eftir réttum leiðum en ekki með einstrengingslegum hætti og þvingaðri löggjöf að svo merku máli sem þessu.