Sóttvarnalög

124. fundur
Föstudaginn 10. apríl 1992, kl. 13:47:00 (5434)

    Virðulegi forseti. Ég þakka þeim hv. þm. sem hér hafa tekið til máls fyrir þeirra orð og stuðning við meginefni þessa frv. og skal reyna eftir föngum að svara þeim spurningum sem hv. þm. hafa varpað hér fram.
    Í fyrsta lagi var bent á það af hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur að það hefðu svo til einvörðungu læknar komið að þessu máli. Það út af fyrir sig er mjög eðlilegt vegna þess að sóttvarnastarfið er fyrst og fremst starf sem læknar eru í forsvari fyrir. Þeir eru ábyrgir sem faglegir ráðunautar heilbrigðisyfirvalda í þeim málum. Þeir sitja í þeim embættum sem um sóttvarnamál fjalla af hálfu hins opinbera og það er náttúrlega mjög eðlilegt að læknar, og þá sérstaklega sérfræðingar í smitsjúkdómum og þeir læknar sem fara með stjórnsýslumál í heilbrigðiskerfinu, séu sóttir til ráðuneytis um slík mál því að hér er fyrst og fremst verið að fjalla um tvennt, þ.e. annars vegar stjórnkerfi sóttvarnanna í landinu og í öðru lagi almennar sóttvarnaráðstafanir. Og hvort heldur menn fjalla um stjórnkerfi sóttvarnanna eða sóttvarnaráðstafanirnar þá eru það í öllum tilvikum læknar sem eru stefnumótandi ráðgjafar heilbrigðisyfirvalda um þessi mál. Það er því mjög eðlilegt að það séu fyrst og fremst læknar sem um þessi mál fjalla. Hins vegar er sjálfsagt að taka það til athugunar og ég vísa því til hv. nefndar sem með þetta mál fer hvort eðlilegt sé að aðrir en læknar komi að yfirstjórn og stjórn sóttvarna á Íslandi. En ég vek athygli á því að það eru náttúrlega fjölmargir aðrir starfsmenn heilbrigðiskerfisins sem að þeim málum munu vinna samkvæmt þessu frv. og að þeim málum vinna í dag því að þó að þannig sé tekið til orða í frv. að þau mál séu falin sóttvarnalækni eða héraðslæknum á viðkomandi stöðum, þá er þarna um að ræða stjórnsýsluaðila. Það er að sjálfsögðu starfsfólkið allt á heilsugæslustöðunum víðs vegar um landið sem kemur að málunum í raun jafnvel þó svo að héraðslæknarnir séu gerðir ábyrgir fyrir meðferð og sóttvarnalæknir og landlæknir fyrir stjórnun. Mér finnst sjálfsagt að menn skoði þessar ábendingar hv. þm. en ég vek athygli á því að það er ekkert óeðlilegt að í þessum þætti heilbrigðismála séu það fyrst og fremst læknarnir sem að málum koma. Það segir sig raunar nokkuð sjálft.
    Um 8. gr. er það að segja að eins og hún er hér í frv. er ekki fjallað nákvæmlega um sama efnisatriði og í upphafsmálsgrein 9. gr. 8. gr. er óbreytt frá sams konar ákvæði í gildandi lögum. Mér gafst ekki tími til þess að slá upp á greininni í gildandi lögum en í 8. gr. er fjallað um það, eins og kemur fram í athugasemdum við frv., að komist læknir að því í starfi sínu að einstaklingur sem smitast hefur af smitsjúkdómi sem er tilkynningarskyldur og hefur ekki hirt um að leita læknis, þá skuli hann þegar í stað vekja athygli héraðslæknis og sóttvarnalæknis á því.

    Í 9. gr. er fjallað um það hvernig læknir eigi að tilkynna til viðkomandi yfirvalda, þ.e. héraðslæknis eða sóttvarnalæknis, um aðila sem hann hefur rökstuddan grun um að smitast hafi af smitsjúkdómi og hvaða skyldur hvíla á forstöðumönnum rannsóknastofa, sjúkradeilda og annarra heilbrigðisstofnana. Það hafa því fallið niður einhver orð úr 8. gr. en það er ekki sama efnisatriði sem um er fjallað í henni og 9. gr. þó svo málsgreinarnar séu nokkuð líkar. En þetta er ekki sama efnisatriðið.
    Varðandi 15. gr., sem hv. þm. spurði einnig um, er því ekki að leyna, og ég reikna með að hv. þm. viti það ósköp vel eins og flestir aðrir, að heilbrigðisyfirvöld t.d. hér í Reykjavík hafa lent í miklum erfiðleikum með tiltekna sjúklinga sem haldnir eru smitsjúkdómi sem hættulegir kunna að vera öðru fólki og hafa ekki fylgt reglum sem sóttvarnalæknir eða héraðslæknir í Reykjavík t.d. hefur sett þeim að fylgja eftir og menn hafa lent í vandræðum með hvernig á að taka á slíkum málum. Þarna er verið að reyna að opna þessum aðila leið, þ.e. sóttvarnalækni, það er ekki gert ráð fyrir því að héraðslæknir geti gripið til þeirra aðgerða sjálfur að setja slíkan aðila í einangrun. Ég er alveg sammála hv. þm. um að það er ekki ástæða til að gerð sé sama krafa og er í 3. mgr. 13. gr. lögræðislaganna um að einhver nákominn ættingi viðkomandi einstaklings hafi forgöngu um málið. Ég lít svo á að um sé að ræða forgöngu sóttvarnalæknis í slíkum málum. Ég vona að mér fyrirgefist það, virðulegi forseti, þó ég fari ekki að tilgreina dæmi hér um, en ég býst við að flestir þingmenn þekki slík dæmi, að einstaklingur sem hættulegur hefur verið umhverfi sínu vegna smitsjúkdóma hefur neitað að fara að fyrirlagi héraðslæknis eða landlæknis og menn þurft að viðhafa sérstakar ráðstafanir til þess að kosta þá upp á gæslumenn til að fylgja viðkomandi einstaklingi eftir til þess að hann verði ekki öðrum að skaða. Ákvæðið lýtur að því að sóttvarnalæknir geti gripið til þess ráðs í slíkum tilvikum að einangra slíkan sjúkling á sjúkrahúsi eða með öðrum hætti en þó ekki lengur en 15 daga utan dómsúrskurðar.
    Hv. 18. þm. Reykv. kom réttilega að því að það tíðkast hér á Alþingi að þegar endurflutt væru frv. af hálfu stjórnvalda þá væri yfirleitt látið nægja að geta þess að slík frv. hefðu verið lögð fram áður og gera grein fyrir meginbreytingum sem gerðar hefðu verið á þeim. Ástæðan er einfaldlega sú að það mundi æra óstöðugan ef ráðherra færi að flytja alla sögu slíkra þingmála með þeim umræðum og þeim breytingum sem gerðar hefðu verið á því hverju sinni, heldur hafa ráðherrar yfirleitt látið sér nægja að geta þess hvenær slík mál hafi verið lögð fram á Alþingi og hvaða umfjöllun þau hafi fengið í stórum dráttum. Þannig sé verið að vísa þeim þingmönnum, sem hafa áhuga á að ná sér í viðbótarupplýsingar um málið, á hvert þeir geta sótt þær viðbótarupplýsingar. Þær eru að sjálfsögðu annars vegar til í þingtíðindum, hins vegar í þeim þingskjölum sem lögð hafa verið fram um þau mál á fyrri þingum og í þriðja lagi í vörslu þeirra þingnefnda sem um málin hafa fjallað. Þar eru t.d. allar umsagnir sem um mál hafa borist. Þetta er sú aðferð sem hefur verið viðhöfð hér á Alþingi. Það má vel gagnrýna það að þetta sé gert en svona er þetta einfaldlega. Hv. þm. er vísað á þá staði þar sem hægt er að finna upplýsingar um þau efni sem þeir spyrja um. Til dæmis spurði hv. þm. um afstöðu Margrétar Guðnadóttur læknis. Það kemur fram í séráliti hennar með fskj. þess frv. sem lagt var fram á sl. vori. Þar er sérálit Margrétar Guðnadóttur að finna. Ef hv. þm. óskar eftir því að ráðherra hafi upp á því þá er það auðvitað alveg sjálfsagt, en ég taldi ástæðulaust að vera að gera sérstaka grein fyrir því í framsöguræðu minni með þessu frv. vegna þess að hennar sérálit liggur fyrir á Alþingi í þinggögnum. Það er auðvitað guðvelkomið að grafa það upp og flytja um það sérstakt mál, en þá auðnast okkur að sjálfsögðu ekki að ljúka umræðunni í dag.
    Hv. 18. þm. gat þess einnig að það væri nauðsynlegt að efla fræðslu um sóttvarnamál. Það er rétt. Það er eitt af þeim hlutverkum sem ætlast er til að landlæknir gegni. Landlæknir fer með fræðslu um sóttvarnamál og ýmis önnur mál sem hv. þm. veit af. Það er tekið fram sérstaklega í 5. gr. að meðal verksviða sóttvarnalæknis, sem er nýtt embætti sem á að stofna til við landlæknisembættið, sé að hafa umsjón með forvörnum gegn smitsjúkdómum, m.a. hvað varðar upplýsingar og fræðslu til almennings um þessi efni. Þannig gerir frv. ráð fyrir því að um sérstaka fræðslu við almenning sé að ræða og að það

sé eitt af meginverkefnum sóttvarnalæknis að hafa yfirumsjón með þeirri fræðslu á vegum landlæknisembættisins. En eins og hv. þm. er kunnugt er það landlæknisembættið sem fyrst og fremst fer með fræðslumál til almennings um smitsjúkdóma, um aðra sjúkdóma, um forvarnir og um forvarnastarfsemi. Hann útbýr slík gögn í hendurnar á heilsugæslustöðvunum en eitt af hlutverkum heilsugæslustöðva eins og kveðið er á um í lögum um heilbrigðismál er að fræða almenning m.a. um varnir gegn smitsjúkdómum og um forvarnir gegn öðrum sjúkdómum. Það er því ekki rétt að í þessu frv. sé ekki lögð áhersla á það fræðslustarf. Þvert á móti er sérstaklega tekið fram að eitt af hlutverkum sóttvarnalæknis sé að hafa yfirumsjón með slíkri fræðslu.
    Þá spurði hv. þm. nokkuð út í 14. gr., þ.e. hvernig gangur mála ætti að vera þegar sóttvarnalækni berst tilkynning um smitsjúkdóm. Ég get ekki svarað því öðruvísi en að vísa í efnisatriði greinarinnar. Þar er gerð grein fyrir því hvernig á málum skuli haldið. Ég ítreka það aðeins að hér er ekki verið að ræða um sóttvarnalækna í fleirtölu, eins og hv. þm. gerði, heldur sóttvarnalækni sem er sérstakt starf sem stofnað er til við embætti landlæknis samkvæmt frv. Því er lýst í þessari grein hvernig sóttvarnalæknir skuli bera sig að þegar honum hefur borist tilkynning um smitsjúkdóm, að grípa þurfi til frekari ráðstafana en læknir hefur þegar gert o.s.frv. Þannig tel ég að 14. gr. skýri sig nokkuð sjálf en ítreka að þarna er verið að tala um hinn sérstaka sóttvarnalækni sem ráðinn er til starfa hjá landlækni samkvæmt ákvæðum frv. en ekki sóttvarnalækna, óskilgreinda í fleirtölu.
    Þá er spurt hvenær göngudeildum verði komið á fót. Eins og ég sagði í framsögu minni er vísir að göngudeild fyrir slíkt fólk þegar starfrækt. Þ.e. göngudeild fyrir þá sem smitast hafa af alnæmisveiru og öðrum smitsjúkdómum, en vísir að slíkri göngudeild er starfræktur við Borgarspítalann eins og hv. þm. er kunnugt. Þó ekki sé búið að stofna sérstaka göngudeild fyrir þá sjúklinga sem haldnir eru varhugaverðum smitsjúkdómum þá er engu að síður kominn vísir að slíkri deild. Það er því ekki rétt sem segir í umsögn fjmrn. að ekki sé þegar búið að koma upp vísi að þeirri starfsemi sem um fjallar í frv. til sóttvarnalaga með stofnun deildar, sennilega þá við Borgarspítalann eða Landspítala, það færi eftir aðstæðum á hvorum spítalanum stofnsett yrði sérstök deild, göngudeild fyrir smitsjúkdóma, þ.e. varhugaverða smitsjúkdóma. Það er út af fyrir sig ákvörðun Alþingis um fjárveitingar hvenær að því kemur en ég ítreka að þegar er til vísir að þessu starfi.
    Ég hef að sjálfsögðu ekki upplýsingar um fjölda þeirra tilvika um sýkingar sem taldir eru upp sem smitsjúkdómar í fskj. með frv. Ég verð því miður enn að vísa hv. þm. í því efni á ársskýrslu landlæknis. Landlæknir sendir einu sinni á ári út skýrslu þar sem m.a. er greint frá tíðni smitsjúkdóma. Þær skýrslur eru áreiðanlega til hér á bókasafni Alþingis, þar er þessar upplýsingar að finna. Ég mæti því miður ekki með allar hugsanlegar upplýsingar um slíka hluti þegar ég flyt framsögu fyrir frv. af þessu tagi, annað en það að ég held ég geti fullyrt að það hafi ekkert tilvik af svarta dauða komið upp á Íslandi á sl. ári, né heldur af kóleru, né heldur af ýmsum öðrum hættulegum smitsjúkdómum sem hér eru nefndir. Með sama hætti get ég ekki svarað fyllilega þeirri spurningu sem ég fékk um fjölda berklaveikitilfella á síðustu árum annað en að upplýsa það sem allir vita að berklaveikitilfellum hefur snarlega farið fækkandi á undanförnum árum og er nú hrein tilviljun að upp komi slík tilvik. Um kynsjúkdóma og sýkingar vegna kynsjúkdóma hef ég einnig litlu öðru við að bæta en þeim almennu staðreyndum að þessir sjúkdómar virðast sveiflast svolítið til eftir árum. Eitt árið er talsvert mikið af slíkum tilvikum, annað árið minna.
    Virðulegi forseti. Þetta eru spurningar sem eru til fullgild svör við sem er sjálfsagt að veita ef hv. þm. gefa þá ráðherra tíma til þess að afla þeirra. Þetta er allt saman í ársskýrslu landlæknis og þar að auki í ársskýrslum héraðslæknanna í hinum einstöku læknishéruðum þannig að það eru til sérstakar upplýsingar um öll þessi tilvik, bæði í skýrslu héraðslæknisins í Reykjavík fyrir Reykjavíkurlæknishérað og eins í skýrslu landlæknis fyrir landið í heild. En ég vona að mér fyrirgefist þó ég sé ekki hér mættur með upplýsingar um öll þessi atriði sem um var spurt.