Sóttvarnalög

124. fundur
Föstudaginn 10. apríl 1992, kl. 14:03:00 (5435)

     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :

    Virðulegi forseti. Ég fer ekkert ofan af því að ég geri þá kröfu til ráðherra að þeir kynni rækilega þau mál sem þeir eru með og minni á það sem ég sagði áðan að það er upphaf nýs kjörtímabils. Ég hef það ekki nákvæmlega í huganum hvenær þessu frv. var dreift hér en það eru ekki margir dagar síðan, þannig að með öllum þeim málum sem hér eru til umræðu get ég bara ekki með nokkru móti séð hvernig þingmenn eiga að geta kynnt sér þessi mál til hlítar sem auðvitað væri þörf á að gera. Ég vildi svo sannarlega hafa haft meiri tíma til þess að fara ofan í þetta mál.
    Ég beindi þeirri spurningu til hæstv. ráðherra varðandi 14. gr. hvernig þessir hlutir ættu að ganga fyrir sig og í rauninni er þá spurningin kannski frekar hvernig hefur þetta gengið fyrir sig. Hér er náttúrlega verið að tala um hin ýtrustu tilfelli þegar jafnvel þarf að leita aðstoðar lögregluyfirvalda og það hefði verið fróðlegt að fá meira að vita um þetta. Mér finnst það vera góð vinnubrögð eins og tíðkast í sumum ráðuneytum að gefa nokkuð gott yfirlit yfir stöðu mála.
    En aðalatriðið, virðulegi forseti, er auðvitað það að heilbrigðisyfirvöld og þeir læknar, sem fyrst og fremst vinna við þessi mál, sinni sínum skyldum en það sem gildir til þess að ná árangri er auðvitað að almenningur hafi ákveðna þekkingu og að heilbrigðisyfirvöld og almenningur haldi vöku sinni. Það er það sem þarf til þess að ná árangri í þessum málum.