Sóttvarnalög

124. fundur
Föstudaginn 10. apríl 1992, kl. 14:05:00 (5436)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er auðvitað alveg nákvæmlega rétt sem hv. þm. segir að það er nauðsynlegt að uppfræða almenning um þessi mál. Þetta frv. er sérstaklega miðað við þær þarfir vegna þess að það er gert ráð fyrir því að stofnað verði embætti sérstaks sóttvarnalæknis sem hafi það hlutverk að fræða almenning. Ég vil einnig lýsa því yfir, virðulegi forseti, að a.m.k. um suma þá sjúkdóma sem hér um ræðir, t.d. þann sem talinn er oft einna alvarlegastur, alnæmi, hefur mikið fræðsla átt sér stað af hálfu landlæknisembættisins og heilbrigðisyfirvalda, þannig að ég held að það sé ekki hægt að kvarta yfir því t.d. hvað þann sjúkdóm varðar að fræðsluhlutverkinu hafi ekki verið mjög vel sinnt. Og ég ítreka að það er alveg nýlega, það var í gær, sem hv. þm. fékk upplýsingar um það frá mér hvernig fræðslu um þennan sjúkdóm hefði verið háttað í skólum og hvaða árangur sú fræðsla hefði borið.
    Ég er alveg sammála hv. þm. um það að þetta er lykilatriði í málinu en það er verið að vinna að þessu og það er verið að styrkja þetta fræðsluhlutverk í þessu frv.