Sóttvarnalög

124. fundur
Föstudaginn 10. apríl 1992, kl. 14:09:00 (5439)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Hæstv. heilbr.- og trmrh. var lítillátur, ljúfur og kátur í svarræðu sinni hér áðan eins og hans er von og vísa. Það geislar yfirleitt glaðværðin af ráðherrum þegar þeir eiga orðastað við þingmenn um mál. Hann sagði að það væri eðlilegt að eingöngu læknar hafi komið að því að semja sóttvarnalög og gefa umsögn um það frv. sem samið var. Þeir væru ábyrgir fyrir þessum málum og færu með stjórnsýsluna. Þeir væru stefnumótandi um stjórnkerfið og það segði sig sjálft að þeir ættu að sinna þessari lagasmíð. Ég er ekkert viss um að það segi sig neitt sjálft. Það kann að vera orðið svo nú að læknar séu stefnumótandi alls staðar í stjórnkerfinu, í heilbrigðiskerfinu, en mér finnst það ekkert segja sig sjálft að þannig skuli það vera. Ég er alveg sannfærð um það að hjúkrunarfræðingar og annað heilbrigðisstarfsfólk hefur unnið mikið starf í sóttvörnum og ég er líka alveg sannfærð um að það er til sérhæft starfsfólk í sóttvörnum á öðrum sviðum en læknisfræðinni. Ég er alveg sannfærð um að það eru til hjúkrunarfræðingar sem eru sérhæfðir í sóttvörnum og hefðu kannski ýmislegt að leggja inn í þetta mál og inn í þessa umræðu, þó þeir virðist ekki hafa verið spurðir eða þeirra fulltrúar settir inn í nefndir á vegum heilbr.- og trmrn. Mér finnst það satt að segja dálítið sérkennilegt hvað það er í rauninni lítið um það þegar almenn heilbrigðismál eru til umfjöllunar. Ég hef svo sem engar tölur handbærar um það akkúrat núna, en þetta er eitt af því sem m.a. hjúkrunarfræðingar hafa kvartað undan á fundum hjá heilbr.- og trn., að þeirra fulltrúar rati yfirleitt aldrei inn í nefndir á vegum ráðuneytisins vegna þess að það sé ekki eftir þeim leitað.
    Ég gerði einnig athugasemd við 14. og 15. gr. þessa frv. þar sem verið er að tala um innlagnir eða einangrun fólks gegn vilja þess, þ.e. nauðungarinnlagnir og sagði að ég teldi mjög óeðlilegt að það væri vísað til lögræðislaganna í þessu frv. Í lögræðislögunum er kveðið á um það hverjir geti átt aðild að því að leggja einstaklinginn inn nauðungarinnlögn, það eru ættingjar og það er félagsmálastofnun sem kannski kemur alls ekkert að þessum málum, þ.e. að smitsjúkdómum.
    Hæstv. ráðherra sagði að hann liti svo á að í 14. og 15. gr. væri átt við sóttvarnalækni, það væri hann sem ætti að sinna þessari nauðungarinnlögn, en það er ekkert hægt að líta svo á, frv. segir ekkert um það og menn geta ekki túlkað það að vild hver eigi að standa að þessum málum þó að þeim finnist það sjálfum eðlilegt að það væri sóttvarnalæknir. Ef yfirvöld telja nauðsynlegt að hafa einhverja lagaheimild til að einangra einstakling eða leggja inn nauðungarinnlögn vegna smithættu þá verða lagaákvæðin að verða skýr og tvímælalaus til að tryggja réttarstöðu einstaklinganna. Það er ekki hægt annað og ég held að þetta þyrfti að vera inni í lögræðislögunum, þannig að það sé alveg klárt í hvaða tilvikum megi meðhöndla einstakling með þessum hætti, svipta hann ákveðnum mannréttindum, getum við sagt, en það sé ekki hægt að hafa ákvæði hér og þar í öðrum lögum sem kveði á um hvernig túlka beri lögræðislögin. Mér finnst það ekki vera sæmandi íslensku réttarkerfi að halda þannig á málum.
    Þetta eru leikmannsþankar um þessi atriði en mér finnst að þetta sé hlutur sem verði að skoða vandlega. Við getum ekkert leyft okkur að fara með þessi mál af einhverri léttúð þó að vissulega sé það alvarlegt ef einstaklingur sem er með alvarlegan smitsjúkdóm hegðar sér þannig að af honum stafi hætta. Það er vissulega alvarlegt, en við getum ekki leyft okkur að koma fram við þann einstakling með hverjum þeim hætti sem heilbrigðisyfirvöldum þóknast og telja nauðsynlegt.