Sóttvarnalög

124. fundur
Föstudaginn 10. apríl 1992, kl. 14:13:00 (5440)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. --- Er hæstv. ráðherra ekki einhvers staðar í nágrenninu, hæstv. forseti? Jú, þarna er hann. --- Ég ætla að fá að segja okkur orð í sambandi við þetta frv. og þá vil ég fyrst taka undir með hv. 18. þm. Reykv. að það er auðvitað fullkomlega ástæðulaust að ekki skuli fylgja með því þskj. sem nú er fram lagt þær upplýsingar sem hafa verið í fyrri svo til samhljóða frv., einkum og sér í lagi þar sem eins og hér hefur komið fram sitja nú 25 nýir þingmenn Alþingi Íslendinga, eða ættu a.m.k. að gera það þó að það komi sjaldan fyrir. En það er auðvitað ekki hægt að vísa til þingskjala fyrri ára meðan allt annað fólk sat hér á hinu háa Alþingi.
    Fyrst ætla ég að minnast aðeins á að það kemur mér dálítið á óvart að heyra nú hæstv. heilbrrh. lofa nýjum embættum og göngudeildum og ég veit ekki hverju. Sjálfur gekk hann fram í því að semja frv. til laga um greiðslur úr ríkissjóði sem núv. hv. fjárln. hefur lagt fram svo til óbreytt eða mikið til óbreytt frá því að hæstv. ráðherra var formaður fjárveitinganefndar og höfundur þessa frv. þar með, sat í undirnefnd um samningu þess. En þar segir í 2. gr.: ,,Óheimilt er að auka launa- og rekstrarkostnað ríkisins umfram það sem ákveðið er í fjárlögum nema að fenginni heimild í fjárlögum.``
    Þar sem þetta frv. til sóttvarnalaga á nú að taka gildi 1. jan. 1992 skal bent á að það hafa þegar verið samin og samþykkt fjárlög fyrir 1992 og ég held að ástæða sé fyrir nefndina til að breyta þessu, ég held að þetta hljóti að eiga að vera 1. jan. 1993 og vil leyfa mér að skoða þetta sem prentvillu. En ég vil aðeins heyra frá hæstv. heilbrrh. hvort hann telji að ástæða sé til þess að auka launa- og rekstrarkostnað án þess að leitað sé heimilda fjárln.
    Síðan eru nokkur atriði sem ég vil taka undir og m.a. það að auðvitað er það algjör grundvallarmisskilningur að einungis læknar eigi að fást við sóttvarnir og bera ábyrgð á þeim. Það leiðir af sjálfu að þegar sjúklingur er kominn í einangrun er honum fyrst og fremst hjúkrað af hjúkrunarfólki og sérfræðingum á því sviði og bæði andleg hlið málsins og félagsleg og umönnunarleg er fyrst og fremst unnin af því fólki, auk þess sem fræðsla og fyrirbyggjandi aðgerðir eru oft á höndum þeirrar stéttar, þ.e. hjúkrunarfræðinganna. Ég held því að það sé alveg sjálfsagt að kalla það fólk til ráðslags þegar frv. að slíkum lögum er samið, en það er sennilega of seint nú en sjálfsagt er þá að styðjast við kunnáttu og þekkingu þess fólks þegar reglugerðir verða samdar.
    En svo rétt að lokum, hæstv. forseti, langar mig að spyrja hér um tvö atriði. Samkvæmt þessu frv. falla úr gildi lög um berklavarnir eða berklavarnalögin svokölluðu. Ef ég man rétt, ég hef ekki haft tíma til þess að fletta þeim upp eða fara ofan í saumana á þeim, þá eru í þeim lögum, og ég man það áreiðanlega rétt, mjög ströng ákvæði um að hverjum manni sé skylt að hlíta rannsókn ef óskað er, almennri rannsókn, þó að enginn grunur leiki um að berklar séu á ferðinni og sú var tíðin að landsmenn voru beinlínis teknir með valdi ef þeir urðu ekki við því. Þetta er nokkuð langur bálkur, ef ég man rétt, og því langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra. Þó að svo farsællega hafi til tekist að berklaveikinni hafi næstum verið útrýmt, þá kemur það nú fyrir að henni skýtur upp og ekkert okkar óskar sjálfsagt eftir því að hún gæti náð sér á strik, en óþarft er að rifja upp þegar hundruð manna hrundu niður úr berklaveiki og heilu heimilin lögðust í rúst og höfðu víst á tímabili flest íslensk heimili orðið fyrir barðinu á þeirri veiki. Mig langar þess vegna að spyrja af hreinni vanþekkingu, ég skal játa það: Er ekki enn þá berklaprófað í grunnskólum og aðgerðir í frammi hafðar til þess að hindra að berklaveiki geti náð fótfestu? Nú spyr ég hæstv. ráðherra, ég hreinlega hef ekki fylgst með því hvort svo er enn þá.
    Annað rak ég augun í sem ég vil spyrja hæstv. ráðherra um. Á þeim lista sem fylgir um flokkun smitsjúkdóma sakna ég eins smitsjúkdóms sem gat hér á árum áður orðið harla skæður þó að nú séu komin lyf við honum sem lækna hann fljótlega, sé hann uppgötvaður, en hann er dálítið erfitt að greina, og það er skarlatssótt. Ég er dálítið hissa að sjá ekki skarlatssótt á þessum lista. Mér hefur þá yfirsést en ég sé hana ekki hér.
    Í þriðja lagi og að lokum: Ég vil taka það fram að það er afar erfitt að fylgjast með þessum frv. síðustu daga, maður hefur ekki undan að kynna sér mál og sumum liggur svo mikið á að þau eru lögð fram órædd, svo að enginn botnar neitt í neinu eins og kom hér fyrir í gær. En varðandi almennar ónæmisaðgerðir á smábörnum. Ég fór allt í einu að hugsa, hvar er ákvæði um þær að finna í lögum? Og ef þær eru einungis reglugerðaratriði eða einhvern veginn öðruvísi ákvarðaðar, sem ég hreinlega veit ekki, þá vildi ég spyrja ráðherra hvort ekki væri ástæða til að hafa ákvæði um skyldubólusetningar sem allir foreldrar ættu að bera ábyrgð á varðandi ungbörn sín og raunar e.t.v. endurteknar bólusetningar ef þurfa þykir.
    Ég vildi gjarnan að hæstv. ráðherra upplýsti mig um þetta áður en við ljúkum þessari umræðu. Að öðru leyti tel ég ágætt að fá ný sóttvarnalög og ástæða er til að færa þau til nútímans. En þessi atriði eru ofurlítið óljós fyrir mér.