Sóttvarnalög

124. fundur
Föstudaginn 10. apríl 1992, kl. 14:21:00 (5441)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég ætla fyrst að taka það fram til þess að fyrirbyggja misskilning að frv. er ekkert um það að banna hjúkrunarfræðingum eða öðru starfsfólki í heilbrigðiskerfinu en læknum að sinna smitsjúkdómum, nema síður væri. ( GHelg: Það sagði ég ekki.) Það mátti skilja það á ræðu hv. síðasta ræðumanns að þessi lög ættu eiginlega að banna hjúkrunarfræðingum að umgangast fólk sem sýkt væri af smitsjúkdómum, en það er aldeilis ekki. Frv. er fyrst og fremst um skipun stjórnsýslu í sambandi við smitsjúkdómavarnir. Ef við förum yfir það saman, hv. þm., þá er I. kaflinn um skilgreiningar. II. kaflinn um yfirstjórn sóttvarna. III. kaflinn er um almennar sóttvarnaráðstafanir og þar eru m.a. ákvæði sem taka til allra heilbrigðisstéttanna. Vegna þess að það er auðvitað alveg rétt hjá hv. þm. að það eru fleiri en læknar sem koma að smitsjúkdómavörnum og sinna því fólki sem orðið hefur fyrir smitsjúkdómum. Það eru allar heilbrigðisstéttir sem það gera. Og III. kaflinn fjallar ekki bara um starfsskyldur lækna, ekki bara skyldur þeirra einstaklinga sem orðið hafa fyrir smitsjúkdómum heldur skyldur allra heilbrigðisstétta sem slíkum sjúkdómum og slíkum sjúklingum sinna. Það er því mikill misskilningur ef menn halda að með þessum lögum sé verið að einskorða smitsjúkdómavarnir við lækna. Það er síður en svo. Það er gert ráð fyrir því að þessi starfsemi fari m.a. fram á öllum heilsugæslustöðvum landsins og öllum sjúkrahúsum landsins meira og minna, jafnvel þó svo að við vegna smæðar þjóðarinnar verðum að láta okkur nægja að hafa smitsjúkdómagöngudeild kannski aðeins á einu sjúkrahúsi eða svo. En það er alveg ljóst að þetta mál varðar meira og minna allar heilbrigðisstéttir. Það hefur hins vegar verið mjög einfalt, það eru fyrst og fremst læknar sem fjalla um stjórnsýslumálin í þessu sambandi og um almennar sóttvarnaráðstafanir, um skilgreiningar og um samsetningu á þeim lista sem fylgir með í fskj. um flokkun smitsjúkdóma eftir meginsmitleiðum.
    Mér er hins vegar vel kunnugt um það eins og hv. þm. Ingibjörg Sólrún sagði hér áðan að hjúkrunarfræðingar hafa óskað eftir því að fá í meira mæli aðild að nefndum á vegum heilbrrn. sem vinna að ýmissi lagagerð á þess vegum. Ég vil aðeins upplýsa það í því sambandi að ég hef reynt að gera mér far um það í þeim nefndum sem ég hef skipað, að þar séu hjúkrunarfræðingar með. Ég skipaði hins vegar ekki þær nefndir sem sömdu þetta frv. eins og glögglega kemur fram, því það var samið í tíð fyrrv. ráðherra. Mér finnst ekkert óeðlilegt við það þó að sá fámenni hópur sem að þeirri frumvarpssmíð kom sé fyrst og fremst skipaður læknum eða eingöngu læknum að einum lögfræðingi undanskildum.
    Ég get því miður ekki sagt af hverju skarlatssótt er ekki í þessari upptalningu. Hún er ekki samin af mér og ég tók ekki þá ákvörðun að hafa skarlatssótt ekki með. Það getur líka vel verið að eitthvað af þessum latnesku nöfnum sem hér eru talin upp eigi við skarlatssótt, ég hef bara ekki minnstu hugmynd um það en ég tel að það sé þá rétt að menn skoði það í þeirri nefnd sem fær þetta frv., hvernig á því standi að þeir smitsjúkdómalæknar sem um hafa vélað hafa fellt skarlatssóttina út. (Gripið fram í.) Hvort þeir hafa gert það óvart eða hvort þeir hafa gert það meðvitað og hvers skarlatssóttin á að gjalda að fá ekki að vera inni á þessum lista eins og margar sjálfsagt miklu ómerkilegri sýkingar en þær sem skarlatssóttinni valda, um það veit ég bara hreinlega ekki.
    Ég hef eitthvað misskilið hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í sambandi við ákvæði 14. og 15. gr. en ég tel að þessi ákvæði séu þess eðlis að auk þess sem kveðið er á í lögræðislögunum, þ.e. í 13. og 5. gr. þeirra laga, þá sé verið að gera ráð fyrir því að sóttvarnalæknir geti, eins og segir í athugasemd með þessari grein, 15. gr.: ,,Talið er eðlilegt að þessum heimildum til frelsisskerðingar megi einnig beita í þeim tilvikum þegar maður sem haldinn er smitsjúkdómi fellst ekki á að fylgja reglum um meðferð`` o.s.frv. Í

einkamálaréttinum eru talin upp þau tilvik þar sem má beita frelsisheftun og að vista sjálfráða mann á sjúkrahúsi gegn vilja sínum. Þar er aðeins miðað við geðsjúkdóma, ofnautn áfengis eða ávana- og fíkniefna. Ég stóð í þeirri trú að með þessu væri verið að bæta við þá skilgreiningu því að unnt væri að einangra einnig gegn vilja viðkomandi á sjúkrahúsi smitbera sem stafaði hætta af fyrir annað fólk og að það væri sóttvarnalæknir sem gæti farið fram á slíka vistun.
    Ég bendi mönnum á í þessu sambandi að það er áskilið í 3. mgr. 13. gr. í III. kafla lögræðislaganna að það skuli leita samþykkis dómsmrh. við slíkri beiðni og ég tel að skírskotunin í greininni, þ.e. þar sem skírskotað er til ákvæðis 3. mgr. 13. gr. lögræðislaganna, sé skírskotun til þess að sóttvarnalæknir yrði að afla sér samþykkis dómsmrn. áður en slík vistun færi fram, áður en nauðungarvistun færi fram.
    Ef það orkar tvímælis þá tel ég nauðsynlegt að þau tvímæli verði af tekin í nefndinni sem fær þetta frv. því að tilgangur þeirra sem sömdu frv. er að sjálfsögðu sá að sóttvarnalæknir geti einnig komið við vistun manns gegn vilja sínum á sjúkrastofnun ef um er að ræða smitbera sem með framferði sínu stefnir öðrum í hættu.
    Hins vegar má vel vera, eins og hv. þm. sagði, að það sé rétt að koma þessari breytingu frekar inn í lögræðislögin en inn í sóttvarnalögin en tilgangurinn og meiningin er þessi.