Sóttvarnalög

124. fundur
Föstudaginn 10. apríl 1992, kl. 14:31:00 (5444)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar) :
    Herra forseti. Ég ætla ekki að fara út í miklar lögskýringar enda sagði hæstv. forsrh. og þáv. borgarstjóri Reykjavíkur að ég væri aðeins komin á annað ár í lögfræði þegar ég var í borgarstjórn þannig að ég ætla ekki að hætta mér mjög langt í þessu máli. En það sem ég var að reyna að gera athugasemd við hér áðan var að samkvæmt 14. gr. lögræðislaga segir, með leyfi forseta:
    ,,Beiðni um sjúkrahúsvistun manns gegn samþykki hans [það er 14. gr.] geta þeir aðilar lagt fram sem taldir eru í a-, b- og e-liðum 1. mgr. 5. gr. hér að framan.``
    Og í 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga segir að sóknaraðili í lögræðissviptingarmáli geti

verið: a) maki varnaraðila, ættingi hans í beinan legg og systkin; b) lögráðamaður aðila; og síðan er þessi e-liður sem vitnað er til: félagsmálastofnun eða samsvarandi fulltrúi sveitarstjórnar á dvalarstað varnaraðila.
    Með öðrum orðum: Lögræðislögin kveða á um það hverjir geta staðið að lögræðissviptingarmáli, hverjir geta staðið að nauðarinnlögn. Mér finnst að þau lög hljóti að geta staðið þannig að einstaklingur, sem þannig háttar til um að er lagður inn gegn vilja sínum, geti litið í lögræðislögin og séð þar hvernig háttar til um hans rétt. En ekki að menn geti síðan komið og sagt: Aha, það er svona ákvæði inni í sóttvarnalögunum og svo er svona ákvæði inni í einhverjum öðrum lögum sem veita okkur heimild til þess að gera hitt og þetta. Þetta finnst mér ekki vera sæmandi og mér finnst ekki að sóttvarnalögin geti einhliða falið sóttvarnalækni slíkan rétt þó að það sé kveðið á um það í 15. gr. þegar lögræðislögin kveða á um eitthvað allt annað. Það er þetta sem ég er að reyna að gera athugasemd við.