Almannatryggingar

124. fundur
Föstudaginn 10. apríl 1992, kl. 15:02:00 (5448)


     Bryndís Friðgeirsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég vil leyfa mér að fagna því að þetta frv. lítur dagsins ljós á Alþingi. Það er hið mesta þarfaþing að ræða þetta og sorglegt að það skuli ekki vera fleiri þingmenn hér inni, sérstaklega karlmenn sem mundu kannski vilja taka til máls um þetta mál, því auðvitað varðar þetta þá líka. Karlmenn eru líka foreldrar og oft eru þeir líka einstæðir foreldrar þó það séu konur í meiri hluta sem sjá um framfærslu barnanna að mestu leyti.
    Það var talað hérna um það áðan að börn einstæðra foreldra og einstæðir foreldrar væru stundum flokkaðir sem önnur stétt í landinu og auðvitað getur svo farið að þetta verði bara sérstétt út af fyrir sig ef tekjurnar hrökkva alltaf svona skammt. En mig langar til að minnast á það hvað einstæðar mæður og einstæðir foreldrar á Íslandi hafa það stundum betra í umfjöllun almennings miðað við nágrannalönd. Það þykir t.d. ekkert tiltölumál hér á Íslandi að vera einstæð móðir, ekki eins skammarlegt og er oft í öðrum löndum. Ég átti t.d. tal við finnskan sveitarstjórnarmann sl. sumar og hann spurði mig sérstaklega eftir því hvort það væri satt að það væri ekkert mál hér á Íslandi að kona eignast barn bara ein og sér og byggi ekki með neinum manni og sagðist vera alveg yfir sig hissa á þessu að heyra þetta því að heima hjá honum væri þetta frekar skammarlegt og reynt að halda því leyndu og fjölskylda konunnar færi öll á skjön bara við það að hún eignaðist barn og sæi um það ein og sér.
    Hvað varðar meðlagsgreiðslur og aumingja mennina sem eru liggjandi í forstofunum, eins og hv. 10. þm. Reykv. talaði um áðan, hvar liggja þá þessar einstæðu mæður og börnin þeirra ef feðurnir eru liggjandi í forstofunum bara af því að þeir þurfa að borga með þeim? Vissulega getur það verið erfitt fyrir feðurna að stofna til hjónabands og eignast fleiri börn og borga svo með þessum sem þeir áttu áður --- og ég segi börnum sem þeir áttu áður því sorglega oft líta þessir feður á þessi börn sem eitthvað sem er liðið og þeir

geti bara byrjað upp á nýtt. En auðvitað á þetta ekki við um alla feður og kannski getur einhver karlmaður staðið hér upp og verið málsvari fyrir þá.
    Það má kannski líka segja svo að þá ætti þjóðfélagið að koma til og hjálpa þessum karlmönnum með því að veita mæðrunum skattívilnanir. Það er ekki bara hjálp við móðurina, það er hjálp við börnin og föðurinn sem þarf að borga meðlagið með þeim.
    Ég ætla bara að endurtaka að ég þakka fyrir að fá að fjalla um þetta mál og vona að það fái skjótan framgang, virðulegur forseti, hér í þinginu.