Starfsmenntun í atvinnulífinu

124. fundur
Föstudaginn 10. apríl 1992, kl. 16:37:00 (5461)


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég sé ástæðu til þess að þakka hv. félmn. fyrir umfjöllun um frv. og fagna því í hvaða farveg það er að fara í hv. Alþingi á nýjan leik. Við erum kannski að sjá fyrir endann á því að fá löggjöf um starfsmenntun í atvinnulífinu, sem ég tel mjög brýnt að fáist. Öll löndin í kringum okkur hafa fyrir löngu sett slíka löggjöf og ég tel að hún muni styrkja allt skipulag og heildaryfirsýn í þessum mikilvæga málaflokki. Það sem kannski er mest um vert er að ég tel að þessi löggjöf muni stuðla að og bæta atvinnuöryggi fólks vegna tæknibreytinga og nýjunga í atvinnulífinu. Ég get tekið undir þær áherslur sem fram hafa komið, bæði frá framsögumanni nefndarinnar og formanni og hv. 10. þm. Reykv., að starfsmenntunin og löggjöfin muni kannski öðru fremur nýtast best þeim sem eru ófaglærðir. Hér er um rammalöggjöf að ræða sem byggir á þeim grunni sem fyrir er

í málinu og hér er lögð áhersla á frumkvæði þeirra sem best þekkja til málanna, aðila vinnumarkaðarins.
    Það er reyndar svo að þetta mál hefur verið nokkuð lengi á ferðinni og í undirbúningi og hér í þinginu alloft án þess að það hafi náð fram að ganga. Það hafa verið skiptar skoðanir um nokkur atriði, m.a. þau sem nefnd hafa verið í þessari umræðu. Ég ætla ekki að fara mikið út í þau sjónarmið sem fram hafa komið um að málið eigi fremur að heyra undir menntmrn. en félmn. Mín skoðun er alveg skýr í því efni, þetta er vinnumarkaðsmál og að mínu viti á það að heyra undir vinnumarkaðsráðuneyti með sama hætti og gerist og gengur í löndunum í kringum okkur. Þar fellur það, að því er ég best veit, alls staðar undir ráðuneyti sem fer með vinnumarkaðsmál.
    Ég get vissulega líka tekið undir það sem fram kom hjá 10. þm. Reykv. og reyndar fleirum að eðlilegra væri að starfsfræðslan í fiskvinnslunni heyrði einnig undir félmrn., sérstaklega með nauðsyn þess í huga að á því máli verði gott skipulag og heildaryfirsýn. Um það náðist ekki samkomulag, eins og hér hefur komið fram, og tel ég því að við verðum að búa við það, a.m.k. að sinni, og vænti þess að þegar lögin, ef þau verða samþykkt, verða endurskoðuð að þetta verði þá sérstaklega tekið til athugunar.
    Ég skal ekki hafa um þetta fleiri orð. Hv. 14. þm. Reykv. spurðist hér fyrir um Atvinnuleysistryggingasjóð og hvort ákvæðum, sem þar er að finna varðandi starfsþjálfun, þyrfti með einhverjum hætti að breyta yrði frv. að lögum. Ég tel að svo sé ekki og að þetta skarist ekki. Þessi ákvæði sem er að finna í lögum um Atvinnuleysistryggingasjóð hafa lítið verið notuð. En í þeim tilvikum sem þau hafa verið notuð eða þeim beitt þá hefur það fyrst og fremst verið til að styrkja námskeið fyrir atvinnulaust fólk. Ég sé því ekki að þetta komi til með að skarast á einn eða annan hátt.
    Ég þakka þá umræðu sem hefur orðið um málið og vona að frv. geti orðið sem fyrst að lögum. Ég finn að það er mikill áhugi fyrir því máli að auka hér alla starfsmenntun. Við höfum haft fjármagn í ráðuneytinu á undanförnum tveimur árum, að vísu lítið, 15 millj. kr., en engu að síður tel ég að það hafi nýst nokkuð en alls ekki þannig að hægt hafi verið að fullnægja öllum umsóknum sem hafa komið fram og óskað hefur verið eftir fjármagni í. Fyrir ráðuneytinu liggur núna töluvert mikið af umsóknum sem ég hef af ásettu ráði frestað að afgreiða sjálf, taldi eðlilegra að starfsmenntaráðið fjallaði um þær umsóknir sem eru í ráðuneytinu um styrki til starfsmenntunar. Á fjárlögum núna var verulega aukið fjármagn til þessara mála og vonandi verður hægt að halda því áfram vegna þess að það er einmitt það sem hefur háð starfsmenntun í atvinnulífinu að ekki hefur verið veitt til þess nægilega miklu fjármagni. Það er einmitt það sem löndin í kringum okkur gera mikið af, það er að veita verulegu fjármagni til starfsmenntunar og raunverulega er starfsmenntun helsta tækið sem löndin í kringum okkur beita gegn atvinnuleysinu.
    En ég ítreka þakklæti mitt fyrir þær umræður sem hér hafa farið fram um málið.