Starfsmenntun í atvinnulífinu

124. fundur
Föstudaginn 10. apríl 1992, kl. 16:49:00 (5465)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér er ljóst að kveðið er á um það í fskj. með frv. um starfsmenntun í atvinnulífinu að skipa eigi fullorðinsfræðsluráð og í því ráði sé eðlilegt að sitji fulltrúi frá félmrn. þannig að ákveðin samræming sé þar á milli. Nú er ég með fyrir framan mig frv. til laga um almenna fullorðinsfræðslu þar sem kveðið er á um yfirstjórn fullorðinsfræðslunnar. Þar segir í 3. gr.: ,,Menntmrh. skipi fullorðinsfræðsluráð til fjögurra ára í senn til að vera stjórnvöldum til ráðuneytis um meginstefnu og áhersluþætti fullorðinsfræðslu. Kveða skal á um skipan ráðsins í reglugerð.``
    Það er með öðrum orðum ekkert kveðið á um það í þessum lögum hvernig samtengingunni skuli vera háttað. Mér finnst að engin vissa sé fyrir því að þessi gagnkvæma upplýsingamiðlun fari fram. Ég sé ekki betur en að það gæti verið til ákveðinnar málamiðlunar í þessu máli, vegna þess að það er ágreiningur um hvar beri að vista þetta, að tryggja fulltrúa frá menntmrn. í starfsmenntunarráðinu þótt ekki væri til annars en að eyða tortryggni sem upp kynni að koma.