Útboð

124. fundur
Föstudaginn 10. apríl 1992, kl. 17:37:00 (5471)

    Virðulegi forseti. Eins og fram kom í máli flm., hv. 4. þm. Norðurl. v., er þetta mál ekki bundið við iðnaðinn einan. Ég tel því eðlilegra að beina slíku máli til viðskrh., af því að þetta varðar almennar reglur í viðskiptum um fleira en iðnaðarverk eða iðnaðarvörur, eins og réttilega kom fram hjá hv. flm. Ég vil taka fram að ég tel að með þessari þáltill. sé hreyft þörfu máli, máli sem hefur verið í athugun í iðnrn. Eins og fram kom reyndar í umræðum fyrirspurnartíma í þinginu 2. apríl sl., þegar til umræðu var fsp. hv. þm. Guðjóns Guðmundssonar, 5. þm. Vesturl., þar sem hann spurðist fyrir um það hvort áform væru uppi um að semja frv. til laga um útboð, tel ég reglur um útboð vera hluta af kaupareglum, jafnvel gætu þær verið hluti af kaupalögum. Ég segi það skýrt að ég tel þetta mál allrar athygli vert en hygg að réttara væri að beina því til hv. efh.- og viðskn. vegna þess að það hlýtur að taka til fleiri þátta í viðskiptum en eingöngu þess sem fer fram milli iðnaðarins og þeirra sem við hann skipta.
    Það er rétt að endurtekið hefur komið fram á undanförnum árum óánægja þeirra sem vinna að tilboðsgerð og það er líka rétt að í nálægum löndum sumum, sérstaklega er það kunnugt frá Danmörku, eru í gildi útboðslög. Það er líka staðreynd að í þessu máli er þróun í okkar nágrannalöndum sem ég tel að ástæða sé til að fylgjast með. Vel má vera að heppilegt sé að skipa til nefnd til að kanna það algerlega fordómalaust hvort setning útboðslaga getur stuðlað að heilbrigðari viðskiptaháttum, sanngjarnari samkeppni en nú er á okkar markaði og þá er ég að sjálfsögðu stuðningsmaður þess máls.
    Að endingu, virðulegur forseti, ég vildi eingöngu nefna þessi formsatriði því ég tel að málið ætti fremur að beinast til viðskrh. og vistast hjá efh.- og viðskn. þingsins.