Útboð

124. fundur
Föstudaginn 10. apríl 1992, kl. 17:48:00 (5474)

     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég gat þess kannski ekki eða það var ekki nógu skýrt hjá mér að þetta var ekki ræða sem haldin var á EB-þinginu heldur var hún útskýring eins af aðalsamningamönnum EB um samninginn um Evrópskt efnahagssvæði. Hann var er að útskýra fyrir utanríkismálanefnd EB-þingsins í hverju samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði felst. Þetta var ekki bara einhver ræða. Þetta vildi ég taka fram því að það var kannski ekki nógu skýrt hjá mér áðan. Ég er ekki að segja endilega að samningsmenn Íslands hafi viljað taka yfir þessi lög heldur er þarna aðeins um að ræða hans útskýringu. Það getur vel verið að þetta sé mjög góður lagabálkur og því eðlilegt fyrir okkur að taka

hann yfir. Ég hef ekkert um það að segja hér og nú en auðvitað verður Alþingi að fara ofan í þetta þegar þar að kemur.
    Varðandi það sem kom hér fram og ég gleymdi að geta um, þ.e. hvert þetta mál ætti að fara, þá tel ég mjög eðlilegt að það fari til iðnn. Ég minntist á það áðan að í iðnn. hefði verið til umfjöllunar um nokkurt skeið frv. um staðla og staðlaráð. Það fjallar auðvitað um fleira en iðnað. Ég tel því mjög eðlilegt að iðnn. fái þessa tillögu til umfjöllunar. Þó að e.t.v. séu einhver rök til þess að hún geti farið eitthvað annað tel ég að rökin séu sterkust fyrir því að hún fari til þessarar nefndar auk þess sem efh.- og viðskn. hefur mjög mikið af málum og mikið að gera. Ég tel að þetta sé mjög mikilvægt mál og iðnn. hefur ekki svo mikið að gera þessar vikurnar. Fyrst og fremst er hún að fjalla um staðla og þess vegna styð ég það sem kom fram í máli hv. frummælanda, hv. þm. Stefáns Guðmundssonar í upphafi, að leggja til að tillagan fari til iðnn. og tel að það sé mjög eðlilegt og vil taka undir þá tillögu.