Lánskjör og ávöxtun sparifjár

124. fundur
Föstudaginn 10. apríl 1992, kl. 17:52:00 (5476)

     Flm. (Eggert Haukdal) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um lánskjör og ávöxtun sparifjár sem nú er flutt í fimmta sinn á hv. Alþingi. Megintilgangur frv. er eins og segir í 1. gr. þess: ,,Frá og með 1. júlí 1992 er óheimilt að verðtryggja fjárskuldbindingar með lánskjaravísitölu, þar með talin inn- og útlán í bankakerfinu, skuldabréf, verðbréf o.s.frv.``
    Í 2. gr. segir: ,,Heimilt skal þó vera að verðatryggja spariskírteini ríkissjóðs, enda sé þá miðað við vísitölu vöru og þjónustu.``
    Í 3. gr. segir: ,,Við gildistöku laga þessara falla úr gildi ákvæði VII. kafla, 34.--37. gr., laga nr. 13/1979, um stjórn efnahagsmála o.fl., svo og önnur ákvæði er kunna að stríða gegn lögum þessum.``
    Spyrja má hver nauðsyn þess sé nú að afnema lánskjaravísitölu þegar hækkun hennar hefur verið með minnsta móti undanfarna mánuði en þörfin er meiri en nokkru sinni fyrr. Það stafar einfaldlega af því að hún hefur fullkomnað skemmdarverk sitt í íslensku efnahagslífi. Hún hefur valdið allsherjarkreppu, hrinu gjaldþrota og hrikalegu atvinnuleysi. Uppsöfnun skulda af völdum vísitölunnar nálega allan níunda áratuginn hefur verið af slíkri stærðargráðu. Vísitalan hækkaði á ári um 40% og allt upp í 75%. Eini ávinningurinn við þessi ósköp er sá að menn hafa loks gert sér grein fyrir skaðvaldinum, þó ekki allir því miður.
    Fulltrúar bæði atvinnurekenda og launþega krefjast vaxtalækkana. Útvegsmenn keppast við að lýsa því yfir að skuldabréfin, ekki aflasamdrátturinn, baki rekstrinum mesta örðugleika og svarta skýrslan um skuldir sjávarútvegsins, sem nýlega hefur verið sagt frá, staðfestir það ástand sem leitt hefur af upptöku lánskjaravísitölunnar.
    Við skulum byrja á byrjuninni og líta á Ólafslög, lög nr. 13/1979. Þau gerðu ráð fyrir tvíhliða verðtryggingarákvæðum, þ.e. eftir VII. kafla, á sparifé, og á eftir VIII. kafla, um vinnulaun. Að brjóta þetta grundvallaratriði laganna er afskræming á hugmyndinni sem að baki lá. Spyrja má hvort það hafi veri í anda Ólafs heitins Jóhannessonar, sem svokölluð Ólafslög eru kennd við, þegar annar formaður Framsfl. afnam verðtryggingu á laun.
    Svo sem kunnugt er var það Seðlabankinn sem hafði frumkvæði að lögunum og mættu því lögin eins kallast Nordalslög og Ólafslög.
    Hvað gera aðrar þjóðir í þessum efnum? Finnar afnámu lánskjaravísitölu um leið og þeir afnámu kaupgjaldsvísitölu. Annað töldu þeir siðleysi. Aðrir mælikvarðar virðast gilda hér. Okkur er boðið það sem aðrir láta ekki bjóða sér. Verðtrygging fjárskuldbindinga var af formælendum hennar talin boða þrjár breytingar til batnaðar:
    1. Hún átti að draga úr eftirspurn lána.
    2. Hún átti að auka sparnað.
    3. Hún átti að minnka erlenda skuldasöfnun.
    Ekkert af þessu stóðst. Lánaþenslan jókst stöðugt og náði áður óþekktu hámarki. Bundin spariinnlán jukust minna en að viðbættum vöxtum. Erlend skuldasöfnun hélt áfram og gerir enn. En áhrifin á verðlag létu ekki á sér standa. Vaxtaskrúfan olli stanslausum hækkunum vöruverðs og þjónustu eins og framfærslvísitalan gegnum árin ber með sér. Atvinnuvegirnir fundu illilega fyrir þessu, einkanlega útflutningurinn sem keppir á erlendum mörkuðum. Það var ekki fyrr en launþegasamtökin tóku á sig byrðina með svonefndri þjóðarsátt að verðlagið fór að kyrrast.
    Eitt hið óhugnanlegasta við verðtryggðu lánin er það að sá sem tekur slík án veit ekki og getur ekki vitað hvaða fjárhæð hann gengst undir að greiða. Verðbólgan er ekki séð fyrir enda hefur reynslan sýnt að lánin margfaldast á fáum árum þó að staðið sé í skilum með allar afborganir, vexti og verðbætur. Ræður skuldarinn þá ekki við neitt og er óafvitandi orðinn vanskilamaður. Þetta er fjárplógsstarfsemi sem er mannskemmandi bæði fyrir þann sem iðkar hana og hinn sem er þolandinn.
    Enginn skyldi ætla að verðbólga geti ekki enn skollið á í þessu landi þótt við vonum að svo verði ekki. Ekki má til þess koma að lánskjaravísitalan nái öðru sinni að koma af stað vaxtaskrúfu sem elur verðlags- og kaupgjaldshækkanir. Þá er úti um möguleika á auknum og opnari milliríkjaviðskiptum sem stefnt er að. Það nægir ekki að gera valið frjálst milli verðtryggðra lána og óverðtryggðra eins og talað er um. Sá sem peninga á, lánveitandinn, ræður kjörunum. Lántakandinn hefur þar ekkert um að segja, óbreytt kerfi mundi þá í reynd haldast.
    Í Morgunblaðinu 28. febr. sl. mátti lesa: ,,,,Vaxtastigið er í samræmi við hagsmuni Landsbankans,`` segir Kjartan Gunnarsson varaformaður bankaráðs Landsbankans.`` Þetta er óvenjulega hreinskilið orðalag. Þarna er handaflið margumtalaða. Markaðslögmálin virka ekki í þjóðfélaginu þegar ríkið eyðir umfram tekjur. Þegar erlend lán eru tekin og seðlar prentaðir eftir þörfum eins og verið hefur undangengin ár. Hvorki Seðlabankinn né stjórnvöld ráða í reynd neinu um vaxtastigið. Til slíks þarf róttækar lagabreytingar.
    Þá skal enn vakin athygli á því að verðbótaþáttur vaxta er hluti vaxta alveg á sama hátt og verðbótaþáttur kaupgjalds er hluti launa. Áróðursmeistarar hávaxtamanna reyna sífellt að villa um fyrir fólki og vilja aðeins telja raunvextina vexti. Hver borgar verðbótaþáttinn annar en látakandinn?
    Óyggjandi heimildir eru fyrir því að Ólafur Thors, ástsælasti formaður Sjálfstfl., var andvígur verðtryggingu fjárskuldbindinga. Hann taldi að hún mundi leiða til vaxtahækkana sem atvinnuvegirnir og heimilin þyldu ekki. Þetta kom fram á viðreisnartímanum. Glöggskyggni hans studdist við reynslu. Sýnum þau hyggindi og þann manndóm að fara að ráðum hans. Með því heiðrum við minningu hans þegar 100 ár eru liðin frá fæðingu hans. Burt með lánskjaravísitöluna.
    Virðulegi forseti. Ég ætlaði að flytja þetta mál fyrr á þessu þingi en af heilsufarsástæðum hefur það dregist til þessa. Ég vil svo leggja til að frv. verði að lokinni þessari

umræðu vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.