Lánskjör og ávöxtun sparifjár

124. fundur
Föstudaginn 10. apríl 1992, kl. 18:00:00 (5477)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. 3. þm. Suðurl. flytur nú í fimmta sinn frv. til laga um lánskjör og ávöxtun sparifjár eða um afnám lánskjaravísitölu eins og hann hefur oftast kosið að lýsa því í sínum framsöguræðum. Ég ber á vissan hátt hlýjan hug til frv. eins og annarra vorboða því í þau fjögur skipti sem það hefur áður komið til umræðu á þinginu hefur það verið upp úr áramótunum þegar dag er tekið að lengja.
    Ef maður hyggur að framsöguræðu hv. flm. þá mátti af henni ráða að hann hefur í huga afnám verðtryggingar sem miðast við vísitölur á öllum fjárskuldbindingum á innlendum fjármagnsmarkaði að spariskírteinum ríkissjóðs þó undanskildum. Í frv. er hins vegar aðeins fjallað um afnám lánsfjárvísitölunnar en þar bendi ég á að aðrar vísitölur tíðkast einnig við verðtryggingu fjárskuldbindinga, t.d. framfærsluvísitala og byggingarvísitala. Mér virðist því að hv. flm. telji verðtryggingu miðað við lánskjaravísitölu sérstaklega slæman kost og því ástæða til að banna hana frekar en verðtryggingu með öðrum hætti. Ég verð að játa að ég átta mig ekki alveg á þessu. Ég vil líka vekja athygli á því að samkvæmt 2. gr. frv. yrði ríkissjóði áfram heimilt að verðtryggja sín spariskírteini enda ríkissjóður sjálfsagt svo staddur að mati hv. flm. þótt hann talaði réttilega um þá ábyrgð sem ríkið ber á jafnvæginu á lánamarkaðinum með því að halda aftur af sínum útgjöldum. Honum virtist þá samkvæmt þessari tillögu að hann gæti staðið undir verðtryggðum skuldbindingum þótt atvinnuvegirnir gætu það ekki, svo að ég vísi aftur til röksemda í greinargerðinni með frv.
    Það er hverju orði sannara að málefni vaxta og verðtryggingar hafa komið hér mjög reglulega til umræðu á þessum vettvagi. Ég tel ekki ástæðu til þess að við endurtökum enn einu sinni allt sem um það mál hefur verið sagt en mig langar þó til að benda á að verðbólgu- og vaxtaþróun síðustu mánuðina sýnir okkur að mínu áliti svo ekki verður um villst að verðtryggingin er alls ekki sú meinsemd á innlendum fjármagnsmarkaði sem iðulega hefur verið haldið fram. Þannig lækkaði lánskjaravísitalan og þar með höfuðstóll margra skulda milli nóvember og desember á síðasta ári sem svaraði til 2,6% á heilu ári. Milli desembermánaðar í fyrra og janúar á þessu ári var líka lækkun á lánskjaravísitölunni, þessum bölvaldi, ef marka má tillögur frv. sem hér er til umræðu um sem svarar 0,7% á ári. Vísitalan hækkaði lítillega milli janúar og febrúar en svo er hún aftur óbreytt milli febrúar og mars á þessu ári. Ef við lítum yfir síðustu þrjá mánuði hefur hún ekkert hækkað. Gildi hennar í mars er nákvæmlega það sama og var í desember. Höfuðstóll verðtryggðra skulda hefur því alls ekki hækkað á síðustu þremur mánuðum. Á meðan svo stendur er erfitt að halda því fram að þessi vísitala sé erkióvinur lántakenda. Þetta sýnir líka ljóslega það sem ég og margir aðrir hafa ávallt haldið fram að um leið og við náum tökum á verðbólgunni verður verðtrygging skuldanna aukaatriði sem hverfur smátt og smátt eins og margir góðir og gegnir hlutir sem ganga sér til húðar og verða þannig óþarfir.
    Mig langar líka að benda á að í 22 af 24 aðildarríkjum Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, sem við berum okkur oft saman við, eru engin lagaákvæði um verðtryggingu fjárskuldbindinga heldur ráða þar venjur og frjálsir samningar manna á meðal og fyrirtækja á meðal um það hvort verðtryggingu sé beitt í lánssamningum eða ekki. Aðeins tvö ríki í OECD hafa lagaákvæði sem banna beinlínis verðtryggingu fjárskuldbindinga. Það er í Þýskalandi og Hollandi. Þar er sögulegt baksvið þeirrar lagasetningar skelfileg reynsla af óðaverðbólgu á fyrri hluta þessarar aldar, sérstaklega í kjölfar fyrra stríðs og reyndar aftur í kjölfar seinna stríðs. Þetta er sem betur fer ekki okkar reynsla.
    Mig langar líka að benda á að um áramótin 1990 og 1991 mótaði ríkisstjórnin, sem þá sat, þá áætlun sem núv. ríkisstjórn hefur staðfest að smátt og smátt verði hlutur óverðtryggðra fjárskuldbindinga aukinn og sérstök lagaákvæði um beitingu verðtryggingar hverfi í lok þessa árs um leið og síðustu hömlurnar á langtímahreyfingar fjármagns til og frá landinu verða líka numdar brott. Í þessu felst ekki bann við fjárskuldbindingarverðtryggingu heldur eingöngu að það verði ekki lagaþvinganir í málinu. Ég sannfærist um það betur og betur að þetta er rétta leiðin. Mín trú er sú að lögbann gegn verðtryggingu mundi valda óróa á lánamarkaðinum og því miður án efa verða til þess að sparnaður minnkaði tímabundið. Það er mín skoðun að þjóðin megi ekki við slíkum uppákomum þegar við búum við tæpt jafnvægi í okkar efnahag. Þróunin á fjármagnsmarkaðinum síðustu mánuðina sýnir líka mjög glöggt að verðtrygging fjárskuldbindinga er ekki helsta vandamál skuldugra manna og fyrirtækja heldur er það nafnvaxtastefna bankanna sem hv. flm. vill gera að aðalatriðinu í framkvæmd vaxtastefnu.
    Ég vek athygli á því að á undanförnum allmörgum mánuðum hafa einmitt raunvextirnir af óverðtryggðum skuldum verið mun hærri en raunvextir af verðtryggðum skuldum og allt of háir. Þarna er ákveðin hætta fólgin sem ég hygg að hv. flm. muni kannast við. Það er líka rétt að nafnvextirnir hjá okkur hafa um skeið falið í sér mun hærri raunvexti en gerist og gengur í okkar helstu viðskiptalöndum. Auðvitað er farsælasta leiðin til að ráða bót á þessu, eins og margoft hefur komið fram af minni hálfu, að auka samkeppni á fjármagnsmarkaðnum. Þetta má gera með tvennum hætti. Í fyrsta lagi með því að afnema gjaldeyrishöft og auka þannig möguleika innlendra aðila til að skipta beint við erlenda aðila og ákveðin skref í þessa átt voru einmitt stigin árið 1990 þegar í gildi gengu nýjar og frjálslegri gjaldeyrisreglur. Reyndar liggur nú fyrir þinginu lagafrv. um gjaldeyrislög sem fela í sér staðfestingu á þessu frelsi og gera það að meginreglu.
    Hin aðferðin er að auka samkeppnina á markaðinum hér heima fyrir. Þar á ég ekki aðeins við samkeppni milli einstakra lánastofnana á markaðinum heldur líka samkeppnina á milli stóru kaupendanna á skuldabréfum, stóru fjárfestingaraðilanna. Ég er t.d. sannfærður um það að samráð lífeyrissjóða sín á milli um verðbréfakaupin hafa á margan hátt staðið þróun fjármagnsmarkaðarins fyrir þrifum og sé eitt af því sem Alþingi ætti að hugleiða fremur en færa í lög boð og bönn af því tagi sem þetta frv. felur í sér.
    Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem ég hef áður sagt að heppilegast virðist að notkun verðtryggingar í fjárskuldbindingum og fjársamningum mótist af hefðum og frjálsum samningum milli manna. Ég tel farsælast að við reynum að treysta í sessi þann árangur sem við höfum náð í baráttunni við verðbólguna og sköpum okkur þannig þær aðstæður að notkun verðtryggingarinnar víki sjálfkrafa eftir frjálsu vali manna. Ég held að við eigum að forðast þarna lögbundna þvingun. Þess vegna er ég ekki sammála tillögunum sem frv. felur í sér frekar en ég var í hin fjögur fyrri skiptin. En ég vil enn á ný ítreka það sem ég hef sagt að ég veit að flm. flytur þetta í góðu skyni því að við reynum í sameiningu að festa stöðugleika í efnahagsmálum í sessi.