Starfsmenntun í atvinnulífinu

125. fundur
Mánudaginn 13. apríl 1992, kl. 13:58:00 (5483)

     Karl Steinar Guðnason :
    Herra forseti. Það kom fram í umræðum um málið og er vafalaust öllum ljóst að hér er um að ræða samkomulagsmál aðila vinnumarkaðarins og verkalýðshreyfingin hefur lagt á það þunga áherslu að þessi mál verði vistuð hjá félmrn. sem er vinnumálaráðuneyti. Menntmrn. hefur alla burði til þess að tengjast atvinnulífinu á allan þann hátt sem því er reyndar ætlað og ég hygg að þessi breytni verði ekki á neinn hátt til að hindra það.
    Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að þessum málum sé betur komið í þeim farvegi sem það hefur verið og þar muni starfsfræðslu, starfsmenntun, verða ýtt áfram af enn meiri þrótti heldur en verið hefur. Ég segi því nei við brtt.