Veitinga- og gististaðir

125. fundur
Mánudaginn 13. apríl 1992, kl. 14:18:00 (5488)

    Virðulegur forseti. Hæstv. samgrh. mælir fyrir þriðja frv. sem hann flytur nú um ferðamál, trúr þeirri stefnu sinni að búta málaflokkinn niður sem mest má verða í löggjöf. Í síðustu viku ræddum við frv. hæstv. ráðherra um breytingar á skipulagi ferðamála sem fjallaði um það hugðarefni hæstv. ráðherra að fá aðstöðu til þess að skipta um forustu í Ferðamálaráði og í Ferðamálasjóði. Einnig ræddum við frv. um ferðamiðlun. Hér mælir hæstv. ráðherra fyrir frv. til laga um veitinga- og gististaði, breytingu frá gildandi lögum, sett upp sem nýtt frv. um þetta mál. Hann segir að frv. sé einfalt í sniðum og fjalli nánast um tæknileg atriði svo halda mætti, virðulegur forseti, að ekki væri þörf á að ræða málið mikið miðað við framsöguræðuna sem hér var haldin. En ég get ekki látið hjá líða að gera nokkrar athugasemdir við þetta mál.
    Hæstv. ráðherra er að gera veigamikla breytingu á lögum um veitinga- og gististaði. Það eru ekki bara tæknilegar breytingar heldur mjög veigamiklar breytingar að því er varðar aðstöðu útlendinga til fjárfestinga, kaupa og stofnunar fyrirtækja. Í þessari grein eru ákvæði gildandi laga veikt frá því sem verið hefur þar sem ekki er lengur krafist búsetu á Íslandi til að geta keypt hér hótel og veitinga- og gististaði eða sett slíka staði upp heldur aðeins að aðili sé fjárráða og hafi forræði á búi sínu, þótt í útlöndum búi, og eigi varnarþing á Íslandi. Þetta er auðvitað mikil breyting frá því að krafan um búsetu er inni í gildandi löggjöf og fleiri ákvæði sem snerta kröfur til þeirra sem stofna fyrirtæki í greininni. En það sem mestri breytingu veldur, samkvæmt frv., er það að ekki er lengur skylt að sækja um leyfi fyrir veitinga-og gistihúsarekstri heldur einfaldlega eins og segir í 3. gr.:
    ,,Lögreglustjóri skráir starfsemi samkvæmt lögum þessum, að fullnægðum skilyrðum samkvæmt 2. gr.,`` sem ég hef nefnt hver eru og áfram segir: ,,að fengum nauðsynlegum staðfestingum frá sveitarstjórn, eldvarnaeftirliti og heilbrigðisnefnd og fer um eftirlit samkvæmt lögum og reglugerðum þar að lútandi.``
    Ef litið er á gildandi löggjöf þá segir í 3. gr. laga nr. 67/1985:
    ,,Lögreglustjóri veitir leyfi samkvæmt lögum þessum, að fenginni umsögn sveitarstjórnar, eldvarnaeftirlits, heilbrigðisnefndar og vinnueftirlits.
    Leyfið er veitt til fjögurra ára í senn og skal þá endurnýjað. Leyfið skal vera bundið við stað og nafn og er ekki framseljanlegt.
    Synja má leyfisumsókn geri sérstakar aðstæður starfsemina óæskilega. Umsækjanda skal tilkynnt slík ákvörðun skriflega og ástæður tilgreindar.
    Synjun eða veitingu leyfis má skjóta til ráðuneytis.``
    Síðan eru frekari ákvæði sem snúa að þessari leyfisveitingu eins og þetta:
    ,,Taki nýr aðili við rekstri sem leyfi þarf til samkvæmt lögum þessum skal sótt um nýtt leyfi. Meðan umsókn er til afgreiðslu gildir fyrra leyfi.``

    Þá eru ákvæði sem varða þrotabú og dánarbú og í 7. gr. gildandi laga segir, með leyfi forseta:
    ,,Lögreglustjóra er heimilt að afturkalla leyfi er hann hefur veitt:
    a. ef skilyrðum 2. gr. er ekki lengur fullnægt,
    b. ef leyfishafi hefur verið dæmdur til refsingar fyrir brot gegn lögum þessum eða reglum sem settar eru samkvæmt þeim.
    Úrskurði lögreglustjóra um afturköllun leyfis má skjóta til ráðuneytis innan 14 daga frá uppkvaðningu og heldur leyfishafi rétti sínum óskertum þar til úrskurður ráðuneytis er fenginn. Kærufrestur telst frá þeim degi er leyfissvipting var tilkynnt leyfishafa skriflega.``
    Þá er í lögunum lögboðin flokkun gististaða og veitingastaða en samkvæmt frv. er gert ráð fyrir að um það gildi reglugerð og við það geri ég ekki athugasemd enda staðið að tillögum um annað eða undirbúið tillögur sem eru hliðstæðar því sem segir í frv., að það skuli fært til reglugerðar hvernig veitinga- og gististaðir eru flokkaðir.
    En það er þetta efni varðandi leyfisveitinguna. Nú á að taka upp skráningu. Lögreglustjóra er nú gert að skrá starfsemi samkvæmt lögum þessum að fullnægðum skilyrðum o.s.frv. Þetta mál snertir ýmsa þætti sem rétt er að nefna og nauðsynlegt er að fá skýringar á. Af því tilefni, virðulegur forseti, óska ég eftir því að hæstv. dómsmrh., ef hann er í húsinu, verði viðstaddur umræðuna því ég tel nauðsynlegt að víkja máli mínu að þáttum sem lúta að lögbundinni starfsemi dómsmrn.
    Það er nefnilega svo, virðulegi forseti, að á grundvelli leyfisveitinga varðandi veitinga- og gististaði eru byggð meginákvæði áfengislaganna varðandi sölu og veitingu áfengis. Leyfi þar að lútandi falla undir dómsmrh. sem setur reglur þar að lútandi. Samkvæmt 12. gr. laga nr. 82/1969 og samanber lög nr. 84 frá 17. des. 1971, lög nr. 52 frá 11. maí 1978 og lög nr. 7 frá 2. apríl 1985, sem ég hef hér fyrir framan mig, eru ákvæði um heimildir til að veita veitingahúsum leyfi til vínveitinga samkvæmt skilyrðum.
    Ég hef litið svo á að þessar leyfisveitingar séu bundnar við það að búið sé að taka afstöðu til og veitt sé leyfi samkvæmt lögum um veitinga- og gististaði en ekki aðeins að það sé skráning á slíku enda sé ég ekki hvernig lögreglustjóra er ætlað að koma því við að tryggja að um slíka skráningu sé að ræða. Í 12. gr. þessara laga eru sett ákveðin skilyrði. Þriggja manna nefnd á að dæma um hvaða veitingahús fullnægja ákvæðunum og áður en vínveitingaleyfi er veitt skal leita umsagnar bæjarstjórnar eða sýslunefndar og fleira er þar tilgreint og fleiri skilyrði eru sett.
    Ég held að hér sé afskaplega ótryggilega um hnútana búið varðandi frágang og tillögur samkvæmt þessum lögum vegna tengslanna m.a. við áfengislögin. Ég spyr hæstv. samgrh. að því hvort hann hafi við undirbúning þessara laga haft samráð við dómsmrn. um þessi efni, svo og við lögreglustjóraembætti, sem samkvæmt gildandi lögum er ætlað að veita leyfi, og hvort búið sé að fara yfir það hvaða afleiðingar sú lagabreyting hefði, ef samþykkt verður, sem hæstv. ráðherra er að bera fram með frv. Ég held það geti orðið mjög snúið fyrir lögreglustjóra, ef það á að vera marktækt og tryggt, að honum sé einungis ætlað að skrá umrædda starfsemi samkvæmt frv. og ganga úr skugga um að tilskilin leyfi séu fengin. Það er alveg greinilegt að mun ótryggilegar er frá því gengið en er í gildandi löggjöf með þeim tengslum sem eru við áfengislögin þar að lútandi.
    Þetta tel ég nauðsynlegt að sé upplýst við 1. umr. um málið og bið hæstv. samgrh. að gera okkur grein fyrir því hvernig að þessu hafi verið staðið og hvaða samráð hafi verið haft við Félag veitinga- og gistihúsa, við dómsmrn. og við lögreglustjóraembættið, sem ætlað er að sinna þessum skráningum. Hafi það ekki verið gert með viðhlítandi hætti sýnist mér einboðið að það þurfi að vinna þetta mál frá grunni.
    Greinargerðin, athugasemdir með frv., er afskaplega rýr að mínu mati og hroðvirknislega frá gengið svipað og gilti um frv., sem ég nefndi í upphafi míns máls. Þar var ótrúlega kastað til hendi og ekki rökstutt hvers vegna verið er að leggja til þá breytingu sem hér er nema þá ,,af því bara``.
    Þá segir í athugasemdum. ,,Það nýmæli er í frv. að við setningu reglugerðar um flokkun veitinga- og gististaða skal haft samráð við Ferðamálaráð Íslands og önnur hagsmunasamtök í greininni.`` Ég hef ekki litið svo til að Ferðamálaráð Íslands væri í raun hagsmunasamtök. Ég átta mig ekki á því hvert hlutverk Ferðamálaráðs ætti að vera í þessu efni þótt auðvitað sé sjálfsagt að hafa samráð við það. Og í framhaldi af þessu segir í athugasemdum: ,,Þá er gert ráð fyrir að nánari reglur um skipulag og starfsemi samkvæmt frv. verði settar samkvæmt tillögum stjórnar Ferðamálaráðs Íslands og tryggir það í senn aukinn sveigjanleika reglna um rekstrarumhverfi greinarinnar og áhrif hagsmunaaðila á ákvarðanatöku í þeim efnum.`` Hér er verið að fela stjórn Ferðamálaráðs Íslands tiltekin verkefni. Mér er ekki ljóst hvort það hefur áður verið gert að taka stjórn Ferðamálaráðs sérstaklega út úr í sambandi við lagasetningu. ( Forseti: Ef ég má trufla hv. þm. varðandi beiðni hans um að hæstv. dómsmrh. komi og sé viðstaddur umræðuna þá hef ég verið upplýstur um að hann er staddur í ráðuneyti sínu og er tilbúinn til að koma ef hv. þm. telur það mjög áríðandi að hann sé viðstaddur.) Nei, virðulegur forseti, ég geri ekki kröfur til að dómsmrh. verði kvaddur frá ráðuneyti þótt auðvitað ætlumst við til að ráðherrar séu sem oftast á þingfundum. En með því að koma þessu máli á framfæri við 1. umr., og ég treysti því að hv. samgöngunefndarmenn fylgist með því, verði það tryggt við meðferð málsins í nefnd að farið verði ofan í saumana á þessum atriðum sem ég hef gert að umræðuefni sérstaklega og varðar dómsmrn. og áfengislög.
    Það er vikið að því í athugasemdum enn frekar að með frv. sé ,,leitast við að einfalda löggjöf um starfsemi veitinga- og gistihúsa þannig að ákvæði laganna verði ekki til þess að hindra eða tefja uppbyggingu á þessu sviði ferðaþjónustunnar í landinu, jafnframt því að gætt er neytendaverndar með ákvæðum um þau almennu skilyrði sem uppfylla þarf um hollustuhætti, eldvarnir og staðfestingu sveitarstjórnar.`` Þetta finnst mér illa rökstutt og ég sé ekki hvaða tafir þurfa að hljótast af því sem skilyrt er í núgildandi löggjöf varðandi leyfi að þessu leyti. Ég hefði haldið að betri rök þyrfti fyrir því að gera þá breytingu á sem hér er lögð til. Ég hef vakið athygli á því hvernig haldið er á þessum málum í gildandi lögum varðandi skilyrði fyrir rekstri samkvæmt 2. gr.
    Í 5. gr. frv. er að finna ákvæði sem varða menntun starfsfólks og um búnað og flokkun gisti- og veitingastaða. Það varð niðurstaða þeirra, sem fóru yfir ferðamálalöggjöfina í tíð fyrri ríkisstjórnar, að ekki væri sérstök þörf á að kveða á með þessum hætti í sérlögum um menntun starfsfólks. En ekki er það meiri háttar mál að mínu mati hvort gert er. En síðan segir í síðustu málsgrein 5. gr.: ,,Samgrh. getur samkvæmt tillögu stjórnar Ferðamálaráðs Íslands sett nánari ákvæði um skipulag og starfsemi samkvæmt lögum þessum í reglugerð.`` Hér er að finna mjög opna ótilgreinda heimild til samgrh. um að setja reglugerð að tillögu stjórnar Ferðamálaráðs Íslands, ekki Ferðamálaráðs í heild, heldur aðeins stjórnarinnar. Mér finnst að það sé mjög óljóst hvaða þættir það ættu að vera og mjög hæpið að opna fyrir almenna reglugerðarheimild sem svo lítt er skilgreind eins og þarna kemur fram. Hins vegar segir í athugasemdum við 5. gr.:
    ,,Hér eru settar ákveðnar skorður á heimildir ráðherra til að setja reglugerðir um starfsemi samkvæmt lögum þessum.`` Þetta finnst mér ekki ríma alveg saman við það ákvæði greinarinnar að verið sé að setja þar ákveðnar skorður. Í skýringum er ekki talað lengur um stjórn Ferðamálaráðs heldur að það sé Ferðamálaráð sem geti fyrir hönd atvinnugreinarinnar óskað eftir að sett skuli reglugerð um ákveðna þætti starfseminnar. Það er erfitt að sjá samhengið í þessu, jafnhroðvirknislega og staðið er að samningu þessa annars stutta frv. sem hér er til umræðu.
    Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að lengja þetta mál við 1. umr. nema tilefni gefist til að ræða það frekar. En ég harma það að hæstv. samgrh. skuli hafa valið þann kost að kasta jafnilla unnum málum inn í þingið eins og þessi frv., það sem hann mælti fyrir í lok síðustu viku og nú þetta frv., bera vott um. Það er ekki svo að reynt hafi verið að taka upp nýmæli sem góð samstaða var um í tíð fyrri ríkisstjórnar og á Alþingi raunar lengst af þangað til hæstv. ráðherra brá fæti fyrir framgang mála á liðnum vetri. T.d. er hér ekki tekið undir tillögu sem var að finna í frv. um ferðaþjónustu, 5. kafla, um veitinga- og gististaði, að skrá það sem kallað þar er afþreyingarþjónusta sem rekin er í atvinnuskyni fyrir ferðamenn. Það var tillaga sem var gerð til að reyna að fá sem gleggst yfirlit yfir ýmsa þjónustu sem tengist ferðamönnum. Það var tilgreint í 38. gr. og tilgangurinn með því væri m.a. að skapa möguleika til að setja öryggis- og gæðakröfur, tryggingar og eftirlit og annað sem lýtur að neytendavernd um þá margháttuðu afþreyingarþjónustu sem þar var upp talin. Það voru m.a. hesta-, hjóla- og vélsleðaleigur og skemmtigarðar sem ætlast var til að sæktu um skráningu til ráðuneytis. Þetta er ekki að finna í frv. þessu og ég vek athygli á því.
    Ég vil hvetja hv. nefndarmenn í samgn. þingsins að fara vandlega ofan í saumana á þessum málum því að eins og að þessu er staðið af hálfu hæstv. ráðherra sýnist mér mikil þörf á að þessi mál séu athuguð nánast frá grunni í nefnd.