Veitinga- og gististaðir

125. fundur
Mánudaginn 13. apríl 1992, kl. 15:26:00 (5492)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Í stórum dráttum höfum við heyrt sömu ræðuna haldna af fjórum hv. alþm. þó ekki væru öll efnisatriði tekin fram í hverri ræðu en andinn var svipaður og gekk í stórum dráttum út á að það frv. sem hér liggur fyrir sé ekki nógu langt.
    Hv. 4. þm. Austurl. hóf mál sitt og vék m.a. að því að óheppilegt væri að hæstv. dómsmrh. væri ekki viðstaddur og taldi ótryggilega um hnútana búið vegna tengsla við áfengislögin. Nú er af þessu tilefni nauðsynlegt, herra forseti, að heyra um það hvað áfengislög segja um þetta efni og taka þar nokkuð af því sem þar er sagt en þó ekki allt til að gæta að því hvað hv. þm. á við með orðunum: ,,að ógætilega sé um hnútana búið`` sem hlýtur þá að merkja að þetta frv., er að lögum verður, muni mjög torvelda allt eftirlit og alla framkvæmd við löggæslu á vínveitingastöðum en svo segir um þau efni m.a. í 12. gr. laga nr. 82 2. júlí 1969, um áfengislög:
    ,,Heimilt er lögreglustjóra að veita veitingastað, sem telst fyrsta flokks að því er snertir húsakynni, veitingar og þjónustu, almennt leyfi til áfengisveitinga. Áður en slíkt leyfi er veitt skal leita umsagnar hlutaðeigandi sveitarstjórnar og er óheimilt að veita leyfi ef sveitarstjórn er leyfisveitingu mótfallin. Áður en sveitarstjórn lætur uppi umsögn skal hún leita álits ávengisvarnanefndar, sbr. 1. mgr. 30. gr.
    Þriggja manna nefnd, sem dómsmrh. skipar, skal dæma um það hvort veitingastaður telst fyrsta flokks. Ráðherra skipar formann nefndarinnar án tilnefningar en áfengisvarnaráð og Samband veitinga- og gistihúsa tilnefna hvort einn mann. Skipunartími nefndarinnar er fjögur ár.
    Leyfi til áfengisveitinga skal ekki veitt til lengri tíma en fjögurra ára í senn. Nú er sótt um endurnýjun leyfis og skal þá framlengja fyrra leyfi til bráðabirgða meðan sú umsókn er til meðferðar. Leyfi skal bundið við nafn veitingamanns og veitir leyfishafa aðeins rétt til veitinga í því húsnæði er hann hefur þegar leyfi er veitt. Taki nýr veitingamaður við rekstri skal hann sækja um nýtt leyfi. Meðan sú umsókn er til meðferðar skal gefa út leyfi til bráðabirgða með sömu skilmálum og fyrra leyfi. Öll leyfi skulu gefin út með fyrirvara um að stytta megi leyfistímann án skaðabótaskyldu fyrir ríkissjóð ef sérstakar ástæður mæla með því að mati dómsmrh.
    Leyfi til áfengisveitinga skal bundið því skilyrði að veitingastaður hafi á boðstólum mat og fjölbreytta óáfenga drykki við hóflegu verði. Leyfi má binda frekari skilyrðum sem lögreglustjóri eða sveitarstjórn telja nauðsynleg. Dómsmrh. getur sett almennar reglur um skilyrði fyrir leyfisveitingu. Ef veitingamaður brýtur gegn settum skilyrðum eða uppfyllir þau ekki lengur skal lögreglustjóri þegar fella leyfi úr gildi.
    Skylt er lögreglumönnum að gefa sérstakar gætur að starfsemi þeirra veitingastaða sem hafa leyfi til áfengisveitinga. Ráðherra getur ákveðið nánar hvernig eftirliti með veitingastöðum þessum skuli háttað. Skulu leyfishafar endurgreiða ríkissjóði kostnað af eftirliti eftir reglum sem ráðherra setur.
    Nánari fyrirmæli um áfengisveitingar, þar á meðal um veitingatíma, álagningu og eftirlit með veitingastöðum, skulu sett í reglugerð. Áður en slík reglugerð er sett skal leita umsagnar áfengisvarnaráðs og Sambands veitinga- og gistihúsa.`` ( Forseti: Forseti vill ónáða hæstv. samgrh. En vegna umræðu utan dagskrár sem tilkynnt var fyrr á fundinum vildi ég biðja hæstv. ráðherra um að fresta ræðu sinni ef hann gæti komið því við í þeim kafla sem hann er núna.) Mér þætti vænt um að fá að segja nokkur orð um einmitt það efni sem ég var að fara með, til þess las ég þennan kafla upp. ( Forseti: Þá lýkur ráðherrann þeirri tilvitnun og síðan tökum við til við utandagskrárumræðuna.)
    Herra forseti, ég vildi vekja athygli þingmanna á þessum ítarlegu ákvæðum áfengislaga um sölu áfengis á veitingastöðum og spyrja þingheim kannski um hvað honum þætti helst vanta inn í þá upptalningu og þá nákvæmu leiðbeiningu sem fólst í umræddri lagagrein. Ef hægt er að komast svo að orði að þarna sé ekki vel um hnútana búið, ef hægt er að halda því fram að það beri vott um hroðvirkni að láta lagabókstaf eins og þennan duga, hæstv. forseti, þá er ég byrjaður að misskilja orðið hroðvirkni. --- En ég skal gera hlé á ræðu minni.