Fæðingarheimili Reykjavíkur

125. fundur
Mánudaginn 13. apríl 1992, kl. 15:48:00 (5499)

     Árni Johnsen :
    Hæstv. forseti. Það umhverfi sem hefur verið skapað með starfsemi Fæðingarheimilisins í Reykjavík hefur á margan hátt þótt vera til fyrirmyndar fyrir sængurkonur á Íslandi. Menn eru að sækjast eftir því þegar þeir vilja taka upp vörn fyrir þá starfsemi sem þar hefur farið fram.
    Nú er það svo að starfsfólk í íslenska heilbrigðiskerfinu er hvarvetna rómað fyrir nærgætni og óeigingjarnt starf, oft við erfiðar aðstæður. Það fer ekki á milli mála að það er sama hvort þar er um að ræða Fæðingarheimilið eða fæðingardeild Landspítalans. Nú er það svo að málið snýst um hagkvæmni og þá er rétt að ræða það á þeim nótum. Á Fæðingarheimilinu fæddust á árinu 1991 um 400 börn. Reksturinn kostaði 72 millj. kr. Á fæðingardeild Landspítalans fæddust 2.558 börn. Ef maður ber saman þessar tvær stofnanir er kostnaðurinn u.þ.b. 85--90 þús. kr. á barn á fæðingardeildinni en 120--130 þús. kr. á fætt barn á Fæðingarheimilinu. Það er þetta sem menn eru að skoða. Nú hefur ríkiskerfið tekið við Fæðingarheimilinu og sparnaðurinn er eins og fram kom hjá hæstv. heilbrrh. um eða yfir 20 millj. kr.
    Hugmyndir eru uppi um það að koma til móts við það merkilega starf sem átt hefur sér stað á Fæðingarheimilinu. Í fyrsta lagi hugmynd um að gera fæðingardeildina að hluta til með því fyrirkomulagi sem hefur tíðkast á Fæðingarheimilinu og að öðru leyti (Forseti hringir.) --- hæstv. forseti, ég er að ljúka máli mínu --- að sængurkonur fari nokkrum klukkustundum eftir fæðingu til þjónustu á Fæðingarheimilinu. Um þetta snýst málið. Ég hvet til þess að stuðlað sé að því að halda áfram þeirri heimilislegu starfsemi sem hefur verið á Fæðingarheimilinu en það er í sjálfu sér ekki atriði hvort sú starfsemi á sér stað í einu húsi fremur en öðru, svo fremi að hún eigi sér stað.