Barnalög

125. fundur
Mánudaginn 13. apríl 1992, kl. 21:16:00 (5506)

    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir brtt. við frv. til barnalaga, þskj. 770, og nál. um sama frv., þskj. 771, frá minni hluta allshn.
    Með leyfi forseta ætla ég að lesa upp nál.:
    ,,Minni hluti allsherjarnefndar styður barnalagafrumvarpið í meginatriðum. Þar er í flestum atriðum gengið út frá hagsmunum barnsins sem er vitanlega tilgangur frumvarpsins.
    Minni hluti nefndarinnar telur ekki tímabært að taka upp sameiginlega forsjá eins og heimild er veitt til í 3. mgr. 32. gr.`` --- með leyfi forseta, sem hljóðar svo: ,,Foreldrar geta samið svo um að forsjá barns þeirra verði hjá þeim báðum (sameiginleg forsjá) eftir skilnað eða sambúðarslit, eða í höndum annars hvors.`` --- ,,og 1. mgr. 33. gr. frumvarpsins`` --- með leyfi forseta: ,,Foreldrar, sem ekki fara með sameiginlega forsjá barns síns, geta samið um að forsjáin verði sameiginleg.`` --- ,,á meðan ekki er boðið upp á fullnægjandi fjölskylduráðgjöf hér á landi. Því flytur minni hluti allsherjarnefndar breytingartillögur á sérstöku þingskjali. Samkvæmt breytingartillögunum taka þau ákvæði laganna, er varða sameiginlega forsjá, ekki gildi fyrr en að þremur árum liðnum. Þá verði öflug fjölskylduráðgjöf komin á laggirnar sem allir landsmenn eiga aðgang að. Með frestun á gildistöku ákvæðanna um sameiginlega forsjá er þannig gefið ráðrúm til þess að efla fjölskylduráðgjöf áður en ákvæðin taka gildi. Telur minni hluti nefndarinnar það verða til þess að ýta frekar á að fjölskylduráðgjöf verði efld og aukin en ef ákvæðin tækju umsvifalaust gildi.
    Engin teikn virðast vera á lofti um að efla eigi fjölskylduráðgjöf í kjölfar þessa frumvarps en þörf á slíkri ráðgjöf er afar brýn. Sameiginleg forsjá foreldra krefst náins samstarfs þeirra og því er mikilvægt fyrir foreldra og börn að kostur sé á vandaðri ráðgjöf áður en slík ákvörðun er tekin. Því miður er slík ráðgjöf ekki í boði enn þá hér á landi nema í mjög takmörkuðum mæli. Helst hefur verið bent á félagsmálastofnanir og fjölskylduráðgjöf kirkjunnar í því sambandi, svo og presta um land allt. Fjölskylduþjónusta kirkjunnar er nýstofnuð og annar ekki eftirspurn. Ekki er víst að allir prestar séu reiðubúnir til að taka við því vandasama hlutverki sem slík ráðgjöf er. Og ekki má gleyma því að hér á landi ríkir trúfrelsi þannig að margir munu ekki kæra sig um að nýta þá þjónustu. Félagsmálastofnanir eru aðeins starfræktar í stærstu sveitarfélögunum. Þær þarf að efla mjög ef þær eiga að geta sinnt því viðbótarhlutverki sem lagt er á þær með þessu frumvarpi. Þá er þeirri spurningu ósvarað hvert vísa á fólki í smærri sveitarfélögum sem ekki kærir sig um að leita til presta um ráðgjöf vegna forsjármála.
    Flestir umsagnaraðilar frumvarpsins mæla með sameiginlegri forsjá. Nánast allir benda þó á að nauðsynlegt er að koma á fjölskylduráðgjöf samhliða því að þessi nýbreytni verði tekin upp. Ætla má því að ýmsir þeirra sem styðja sameiginlega forsjá séu því sammála að ótímabært sé að stíga þetta skref nú.
    Í umsögn Barnaheilla segir m.a. að samtökin leggi ,, . . . þunga áherslu á að samhliða nýjum lögum verði gerðar ráðstafanir til að efla fjölskylduráðgjöf hér á landi.``
    Í umsögn fulltrúaráðs Foreldrasamtakanna segir m.a.: ,,Skortur á fjölskylduráðgjöf er alvarleg brotalöm í kerfinu sem þarfnast úrlausnar hið fyrsta.``
    Í umsögn Félagsmálastofnunar Reykjavíkur segir m.a. svo um sameiginlega forsjá: ,,Ýmislegt í rökum með þessum breytingum höfðar frekar til hagsmuna foreldra en barna. Samræming við norræna löggjöf telst tæpast haldbær rök þar sem ekki er um hliðstæða þjónustu að ræða hér og á það fyrst og fremst

við um sára vöntun á fjölskylduráðgjöf hér á landi.``
    Í umsögn Dómarafélags Íslands segir m.a. um 33. gr. frumvarpsins: ,,Stjórnin vill ekki mæla gegn nýskipan um sameiginlega forsjá foreldra við skilnað og sambúðarslit. Hún óttast hins vegar að sú skipan sé aðeins frestun á erfiðri ákvörðun og muni skapa fleiri vandamál síðar en hún leysir.``
    Fleiri umsagnaraðilar lýsa efasemdum um framkvæmd sameiginlegrar forsjár þótt þeir styðji þá meginhugsun sem í henni felst.
    Það er enn fremur veikleiki á sameiginlegri forsjá samkvæmt þessu frumvarpi að sífellt er hægt að endurskoða ákvörðun um sameiginlega forsjá. Þótt þetta ákvæði sé nauðsynlegur varnagli getur það haft í för með sér umtalsvert rask á högum barns/barna foreldra sem hafa ákveðið sameiginlega forsjá. Þau geta hvenær sem er samið um breytingu á forsjá og hlýtur það að skapa mikið óöryggi í lífi barnsins. Í umsögn Fóstrufélags Íslands segir: ,,Stjórn Fóstrufélags Íslands hefur efasemdir um að sameiginleg forsjá sé alltaf í þágu barna og telur að sameiginleg forsjá geti veikt þann stöðugleika sem börnum er nauðsynlegur.``
    Margt er varðar sameiginlega forsjá hefur færst til betri vegar með þessu frumvarpi frá þeim hugmyndum sem fyrst voru uppi í þeim efnum. Þar vegur þyngst að nú er kveðið skýrt á um að barn skuli eiga lögheimili hjá öðru foreldrinu þótt um sameiginlega forsjá sé að ræða og það foreldri, sem barnið býr hjá, njóti réttarstöðu einstæðs foreldris. Ekki hefur verið girt fyrir að hægt sé að fella niður meðlag með samkomulagi milli foreldra og er það ámælisvert.
    Varðandi dagsektir í 38. gr. frumvarpsins telur minni hluti nefndarinnar þau ákvæði geta verið varhugaverð. Umgengni barns við foreldri sem er þvinguð fram með dagsektum getur aldrei verið til góðs fyrir barn. Er því lagt til að greinin verði felld brott.``
    Eins og segir í nál. styður minni hlutinn frv. í meginatriðum þar sem í því er reynt að gæta hagsmuna barns eins og kostur er, en það er auðvitað tilgangur frv. Hvað varðar sameiginlega forsjá teljum við það atriði mjög þýðingarmikið en vandmeðfarið og að hagsmunir barnsins í svo þýðingarmiklu máli varðandi líf þess, verði að vera foreldrum að leiðarljósi. Þess vegna álítum við að fjölskylduráðgjöf sem raunverulegur valkostur og aðgengileg öllum foreldrum, hvar sem þeir búa á landinu, verði að vera til boða áður en 3. mgr. 32. gr. og 1. mgr. 33. gr. öðlast gildi og viljum við því fresta gildistöku laga um sameiginlega forsjá til 1. júlí 1995 til þess að tími gefist til að koma á laggirnar öflugri fjölskylduráðgjöf sem auðvitað er grunnurinn að því að sameiginleg forsjá takist vel til.
    Eins og segir í nál. er það þannig að í dag geta foreldrar fengið foreldrafræðslu og fjölskylduráðgjöf hjá fjölskylduþjónustu kirkjunnar sem hefur aðsetur í Reykjavík og hjá félagsmálastofnunum úti um land þar sem þær eru starfræktar. Síðan geta foreldrar fengið ráðgjöf hjá einkaaðilum sem starfrækja slíka þjónustu.
    Hjá fjölskylduþjónustu kirkjunnar er mánaðar biðlisti nú þegar auk þess sem sú þjónusta nýtist auðvitað ekki fólki sem ekki vill snúa sér til kirkjunnar né heldur nýtist sú þjónusta jafnt því fólki sem býr úti á landi og því sem býr á Reykjavíkursvæðinu. Félagsmálastofnanir sem veita eiga þessa þjónustu eru ekki starfræktar alls staðar um landið og nýtast því ekki öllum.
    Þá er eftir að nefna ráðgjöf einkaaðila en slík þjónusta er heldur ekki starfrækt út um allt land auk þess sem hún er alls ekki við hæfi allra þar sem fyrir hana þarf að borga og langt er frá því að allir foreldrar hafi efni á því.
    Í dag er mikið fjallað um vandamál barna og unglinga. Það leiðir hugann að því hvernig búið er að barnafjölskyldum hér á landi, hvort þar sé e.t.v. að finna orsökina að vandamálum barna og unglinga, a.m.k. að einhverju leyti. Því er því miður þannig varið að fjölskyldunni gefst allt of lítill tími til samvista sem leiðir til þess að samband foreldra og barna verður oft ekki sem skyldi og foreldrar hafa þess vegna ekki þau áhrif á uppeldi barna sinna sem æskilegt er.
    Annað og ekki veigaminna atriði er líka hvernig foreldrar nýta þann tíma sem þeir hafa með börnum sínum því vissulega eru foreldrar misjafnlega í stakk búnir til að sinna börnum sínum og hafa oft á tíðum ekki notið neinnar foreldrafræðslu að heitið getur. Foreldraábyrgð er mikil og til að sinna henni þurfa foreldrar stuðning og fræðslu.
    Í fyrrahaust, á 113. löggjafarþingi, lagði Kvennalistinn fram till. til þál. um foreldrafræðslu sem hafði að markmiði að gefa foreldrum kost á að fræðast um ýmis atriði er snerta foreldrahlutverkið og mikilvægi þess. Þar er mælst til þess að vinnuhópur komi með tillögur um foreldrafræðslu í skólum landsins, á heilsugæslustöðvum og í fjölmiðlum. Við kvennalistakonur teljum foreldra- og fjölskyldufræðslu afar mikilvæga og nauðsynlegan grundvöll fyrir að sameiginleg forsjá geti orðið barninu til góðs og teljum það þess vegna ábyrgðarhlut að ætla að lögfesta lög um sameiginlega forsjá á meðan ekki fer fram markviss foreldrafræðsla eða foreldrar hafa ekki greiðan aðgang að foreldrafræðslu, fjölskyldufræðslu áður en þeir taka svo ábyrgðarmikla ákvörðun.
    Ég ætla að fá að lesa 38. gr., þar sem fjallað er um dagsektir, með leyfi forseta:
    ,,Nú tálmar foreldri, sem hefur forsjá barns, hinu foreldrinu að njóta umgengnisréttar við barnið, er úrskurðaður hefur verið, og getur sýslumaður þá að kröfu þess skyldað þann, sem með forsjá barnsins fer, til að láta af tálmunum, að viðlögðum dagsektum að fjárhæð allt að 5.000 kr. Dagsektir verða eigi lagðar á fyrr en að liðnum málskotsfresti þeim er greinir í 74. gr. eða fyrr en úrskurður ráðuneytisins um umgengni er genginn, ef máli hefur verið skotið þangað. Dagsektir skal ákveða með úrskurði, en gefa skal þeim sem með forsjá barnsins fer kost á að tala máli sínu áður en hann er kveðinn upp. Dagsektir skulu ákveðnar til allt að þriggja mánaða í senn fyrir hvern dag sem líður frá uppkvaðningu úrskurðar, þar til látið er af tálmunum. Dagsektir falla niður þegar sýslumaður telur að látið hafi verið af tálmunum. Dagsektir má innheimta með fjárnámi samkvæmt kröfu þess, sem tálmað er að njóta umgengnisréttar og renna þær í ríkissjóð. Hámarksfjárhæð dagsekta samkvæmt framansögðu skal taka breytingum í samræmi við lánskjaravísitölu, sem í gildi verður 1. júlí 1992. Öðrum lagaúrræðum verður ekki beitt til framdráttar umgengnisrétti.``
    Þetta teljum við kvennalistakonur ákaflega hæpið. Við teljum það vægast sagt hæpið að umgengni með þessum hætti geti nýst barninu og vísum aftur til nauðsynjar þess að foreldraráðgjöf verði komið á sem fyrst og ætti þá ekki að koma til að foreldri sem hefur forsjá barns tálmi hinu foreldrinu að njóta umgengnisréttar við barnið.