Barnalög

125. fundur
Mánudaginn 13. apríl 1992, kl. 22:07:00 (5511)


     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Hv. 9. þm. Reykv., Svavar Gestsson, eyddi töluverðum tíma í að ræða um frv. það sem hv. þm. Guðrún Helgadóttir hefur lagt fram að ég hygg fjórum sinnum frekar en þrisvar sinnum, þ.e. um umboðsmann barna. Hann lét það koma skýrt fram að það væri forgangsmál af hálfu Alþb. að það mál næði fram að ganga á þessu þingi. Jafnframt að það yrði, ef ég skildi hann rétt, samferða því frv. sem nú er til umræðu.
    Ég verð að lýsa furðu minni á þeim mikla þunga sem Alþb. leggur á þetta mál núna í ljósi sögunnar þar sem m.a. þetta frv. var lagt fram á síðasta þingi þegar Alþb. sat í stjórn. Þá sat ég einnig í virðulegri allshn. sem fékk málið til umsagnar og ég verð að segja eins og er að ég varð ekki var við þennan gífurlega þunga og þá gífurlegu pressu sem nú er. Sú pressa að fá málið út úr nefnd var ekki til staðar á síðasta þingi. Enn furðulegra er það fyrir þær sakir að formaður nefndarinnar þá, hv. þm. Jón Kristjánsson, var einn af flm. þess frv. og hafði væntanlega í hendi sér að ýta málinu eitthvað áfram. En við urðum ekki varir við þennan mikla þunga á síðasta þingi. Þess vegna undrar mig hvers lags pressa er lögð á málið núna. Maður veltir því fyrir sér hvað í rauninni býr að baki.
    En ég get fullvissað hv. þm. um að frv. hefur verið sent út til umsagnar. Það má kannski deila um það hvort það hafi verið sent nógu snemma út, ég skal ekkert segja um það. En það kemur. Umsagnarfrestur rennur út, ef ég man rétt, 24. apríl. Alla vega er hann liðinn áður en þing kemur úr páskafríi þannig

að þá er hægt að taka málið til frekari vinnslu. Ég held því að ekki sé hægt að gagnrýna núv. allshn. fyrir vinnubrögð í þessu máli, sérstaklega í ljósi sögunnar.
    Fróðlegt væri, af því að ég sá nú hv. fyrrv. formann allshn., Jón Kristjánsson, niðri á göngunum fyrr í kvöld, að heyra afstöðu hans til þess hvers vegna ekki var meiri áhersla lögð á þetta mál á síðasta þingi en raun bar vitni.
    Hæstv. forseti. Það er ekki ætlun mín að halda hér langt mál. Ég þakka formanni allshn. fyrir mjög ítarlega framsögu þar sem nánast engu var sleppt. Ég vil einnig þakka fyrir mjög vönduð vinnubrögð í nefndinni og get sagt það að þann tíma sem ég hef verið á Alþingi hef ég ekki kynnst betri vinnubrögðum en viðhöfð hafa verið í þessu máli.
    Nefndin fékk til sín, eins og fram kemur í nál., fjöldann allan af fólki til skrafs og ráðagerða og einnig fjölda umsagna til að styðjast við. Það vekur mann til umhugsunar þegar slík vinnubrögð eru viðhöfð, sem eru til mikillar fyrirmyndar, hvort stigið hafi verið rétt skref með því að færa þingið í eina málstofu. Það er alveg deginum ljósara að þegar vönduð vinnubrögð eru viðhöfð að þá stíflast allt í þinginu. Menn verða auðvitað að gera sér grein fyrir því að við störfum núna í einni málstofu sem þrjár deildir sáu um áður, efri deild, neðri deild og sameinað þing. Ég hef áhyggjur af því, um leið og ég vona að vönduð vinnubrögð verði viðhöfð í öðrum málum, að við komumst hreinlega ekki nokkurn skapaðan hlut áfram. Þess vegna held ég að menn verði að fara að íhuga það hvort ekki þurfi annað hvort að fjölga fundum í nefndum, hafa þá a.m.k. tvisvar í viku og jafnvel lengri en þeir eru nú til þess að nefndirnar geti afkastað meiru eða þá að menn íhugi hvort ekki eigi að hafa sérstaka daga, eins og hér var áður, fyrir þáltill. og einnig sérnefndir sem fjalla um þáltill. (Gripið fram í.) Ég væri vel til viðræðu um það enda hafði ég fyrirvara við þá skipan sem nú er orðin. En það er alveg ljóst að mál hlaðast upp og ef virkilega á að vanda til vinnu mun ekki mikið koma út úr nefndunum, ekki þeim sem fá mikið af málum alla vega.
    Við það mál sem hér er til umræðu hef ég fyrirvara sem m.a. lýtur að því sama og hv. þm. Björn Bjarnason gerði grein fyrir í sínu máli áðan. Ég tel ekki þörf á að fjalla mikið meira um það. Ég er honum sammála um að úrlausn forsjármála á að fara alfarið í hendur dómstóla og að það hljóti að vera sú stefna sem framtíðin muni móta. Það þarf hins vegar að stýra því þannig að dómstólar vinni hratt og örugglega að þeim málum. Það þarf auðvitað að koma skýrt fram að þeim, sem velja þá leið að fara inn í ráðuneytið, sé fullkomlega ljóst að niðurstöðu ráðuneytisins verður ekki áfrýjað. Aðeins er hægt að áfrýja málsmeðferðinni eða taka málið upp ef miklar breytingar verða á aðstæðum.
    Í brtt. meiri hluta allshn., sem ég skrifaði upp á, verð ég að viðurkenna að mér yfirsást örlítið því ég hafði gert athugasemdir við 4. brtt. sem er við 33. gr. um að nýr málsliður bætist við 1. mgr. sem orðast svo, með leyfi forseta: ,,Í samningi um sameiginlega forsjá skal greina hjá hvoru foreldra barn skuli eiga lögheimili og þar með að jafnaði hafa búsetu.`` Fyrri hluta þessa málsliðar var ég sammála en síðari hlutanum ekki. Það er sá hluti sem segir ,,að jafnaði hafa búsetu``. Ég tel að það geri foreldrum erfiðara fyrir um að ná samkomulagi um sameiginlegu forsjána, að það muni frekar koma í veg fyrir að niðurstaða fáist. Í stuttu máli finnst mér þetta nánast eyðilegging á þeim möguleika sem þarna er verið að opna, þ.e. sameiginlegu forsjánni.
    Ég hafði unnið upp brtt. við frv. og kynnti þær í hv. allshn. Nefndin tók til greina sumt af því sem ég gerði athugasemdir við og annað kom formaðurinn einnig með þannig að þetta féll saman. En eftir standa þrjár athugasemdir sem ég hef og er ekki séð hvort þær leiða til brtt. eða ekki.
    Mig langar að gera í örstuttu máli grein fyrir hugmyndum mínum að breytingum. Það er í fyrsta lagi við 13. gr. þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Framfærsluskyldu lýkur, er barn verður 18 ára. Skyldu til greiðslu meðlags lýkur fyrir þann tíma, ef barn giftist, nema sýslumaður ákveði annað.`` Þarna var ég búinn að vinna upp brtt. þar sem orðin ,,nema sýslumaður ákveði annað`` féllu út, þannig að meðlagsskyldu lyki ef barn giftist. Ég tel nánast að verið sé að gera grín að hjónabandi ef það á að fara að greiða meðlag með giftu fólki og fyrir utan það að ég sé ekki almennilega tilefni til þess að unglingar undir 18 ára aldri séu yfir höfuð að giftast. En ef þeir fá hins vegar til þess heimild hljóta þeir að vera fólk til að reka sitt heimili eins og annað gift fólk í landinu. Mér finnst það algerlega út í hött að gift fólk sé að fá meðlagsgreiðslur. Rökin sem komu fram í nefndinni voru þau að hér gæti verið um trúarástæður að ræða en þó aðallega þau að oftast nær væri um það að ræða að stúlkan væri ófrísk. Það tel ég einfaldlega ekki nógu góð rök og vil því að það sé íhugað betur milli 2. og 3. umr. hvort þessi orð eigi ekki að falla út.
    Önnur brtt. sem ég hef hugleitt er við 15. gr. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Heimilt er að úrskurða framfærsluskyldan (meðlagsskyldan) aðila að inna af hendi sérstök framlög vegna útgjalda við skírn barns, fermingu, vegna sjúkdóms eða greftrunar eða af öðru sérstöku tilefni.`` Þarna vildi ég bæta aftan við: ,,allt að helmingi útgjalda``. Það væri því alveg skýrt að framfærsluskyldum aðila bæri ekki að greiða meira en helming af þessum sérstaka kostnaði. Það komu fram í nefndinni athugasemdir varðandi þetta atriði og ég hafði óskað eftir því að það kæmi fram annaðhvort í nál. eða í framsögu formanns nefndarinnar að skilningur löggjafans er að hér sé yfirleitt átt við helming. Ef svo er þætti mér vænt um að fá það staðfest af ráðherra hvort svo sé rétt. Auðvitað væri það mjög mikilvægt að sá skilningur kæmi fram.
    Í þriðja lagi er ég með athugasemdir við 4. mgr. 34. gr. sem er þannig, með leyfi forseta:

    ,,Veita skal barni, sem náð hefur 12 ára aldri, kost á að tjá sig um forsjármál, nema telja megi að slíkt geti haft skaðvænleg áhrif á barnið eða sé þýðingarlaust fyrir úrslit málsins. Rétt er einnig að ræða við yngra barn, eftir því sem á stendur, miðað við aldur þess og þroska. Dómstóll eða dómsmrn. getur falið sérfróðum manni eða mönnum að kynna sér viðhorf barnsins og gefa skýrslu um það.``
    Ég hefði hug á að breyta greininni á þann hátt að 4. mgr. orðaðist svo:
    ,,Veita skal barni kost á að tjá sig um forsjármál nema telja megi að slíkt geti haft skaðvænleg áhrif á barnið eða sé þýðingarlaust fyrir úrslit máls. Dómstóll eða dómsmrn. getur falið sérfróðum manni eða mönnum að kynna sér viðhorf barnsins og gefa um það skýrslu.``
    Breytingin sem ég legg þarna til er að í fyrsta lagi falli niður orðin ,,sem náð hefur 12 ára aldri``. Í öðru lagi falli setningin út sem hljóðar svo: ,,Rétt er einnig að ræða við yngra barn, eftir því sem á stendur, miðað við aldur þess og þroska.`` Það sem þarna er verið að leggja til er einfaldlega það að ávallt verði rætt við barn en það sé ekki bundið við einhvern tiltekinn aldur eins og gert er í frv. Það á fortakslaust og alltaf að ræða við barn um þessi mál. Ég tel að mjög erfitt sé að draga einhver mörk við 12 ára aldur. Þroski barna er auðvitað misjafn eins og annarra og 10 ára barn getur þess vegna verið búið að ná þroska 12 ára barns og 12 ára barn getur þess vegna haft þroska 10 ára barns. Ég tel mjög vafasamt að draga svona stífa línu þarna. Einnig má segja að barn sem fætt er í desember hafi ekki sömu kosti á að verja sig eins og barn sem fætt er í janúar og þannig mætti teygja þetta fram og til baka. Ég tel sem sagt að alltaf eigi að ræða við barn. Ef það er of ungt þá kemur það í ljós og þá er það þýðingarlaust, eins og kemur fram í textanum sem ég hef lagt til. Eins og þetta er núna er það bundið við 12 ára aldur og síðan sagt að rétt sé að ræða við yngri börn. Það er ekki skylt heldur matsatriði einhverra aðila hvort þeir ræða við barnið eða ekki. Mér finnst þetta mikilvægt mál. Ég tel að þeir sérfræðingar sem yfir höfuð ræða við börnin séu menn til að meta það hvort á þeim sé takandi mark, hvort þau hafi þroska til þess án tillits til þess hvaða ár þau eru fædd. Þetta eru þær brtt. sem enn standa út af borðinu og ég hef ekki tekið afstöðu til enn þá hvort ég legg fram, virðulegur forseti. Auðvitað má hafa um þær mörg orð sem ég tel óþörf. Mér finnst þetta að sjálfsögðu mjög eðlilegar breytingar en eins og ljóst er þykir það ekki öllum því nefndin féllst ekki á að taka undir þær þótt menn væru hallir undir sumar þeirra.
    Virðulegur forseti. Brtt. minni hlutans get ég því miður ekki tekið undir. Ég sé engan hag í að fresta sameiginlegu forsjánni sem er kannski stærsta málið í frv. og sú nýjung sem menn binda einhverjar vonir við. Auðvitað er ég einn af þeim sem hafði verulegar efasemdir um þetta mál. Ég treysti hins vegar foreldrum til að ráða fram úr því. Ef bæði eru sammála um að fara þessa leið sé ég ekkert athugavert við að fólk eigi kost á því. Ég tek engan veginn undir orð hv. síðasta ræðumanns, Svavars Gestssonar, sem hann viðhafði um þennan þátt mála, en hann taldi að þetta yrði frekar notað til að fólk, sem ekki næði saman, mundi velja sér þessa leið. Á því held ég að sé ekki nokkur hætta. Það atriði að barnið þurfi að eiga lögheimili hjá öðru foreldrinu veldur því að í slíkum málum mundu þeir foreldrar sem þannig deila aldrei geta náð samkomulagi.
    Virðulegi forseti. Ég hef í örstuttu máli farið yfir þær hugmyndir og þær athugasemdir sem ég hef við frv. og hugsanlega gætu leitt til brtt. af minni hálfu en það mun tíminn einn leiða í ljós.