Barnalög

125. fundur
Mánudaginn 13. apríl 1992, kl. 22:57:00 (5517)

     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég skal viðurkenna að hv. allshn. hefur haft mjög mörg mál til meðferðar á þessu þingi og auðvitað verður það þannig að vinnuálag í nefndum er afar misjafnt. Aðrar nefndir hafa svo til ekkert haft að gera. Það skal vissulega virt hv. 6. þm. Reykv. til vorkunnar að hún hefur ekki átt sjö dagana sæla varðandi þann málafjölda sem hefur hrúgast í þessa hv. nefnd. En ég vil jafnframt benda hv. þm. á að fyrir þessu máli var mælt ég held í nóvember, þetta er 123. mál þingsins og með allri virðingu fyrir mismerkilegum málum hæstv. ríkisstjórnar þá verður auðvitað hv. forsætisnefnd að gæta þess að það sé ekki alveg augljóst að mismunur sé gerður á stjórnarfrv. og þingmannafrv. Vissulega hefur það alltaf viðgengist að ríkisstjórn hverju sinni hafi nokkurn forgang en fyrr má nú vera að öllu sé ýtt til hliðar eins og dæmin sanna. Hér hefur aðeins ein þál. verið afgreidd frá hinu háa Alþingi á þessum vetri frá stjórnarandstöðuþingmanni. Þannig að hér eru auðvitað ný vinnubrögð sem ekki hafa viðgengist áður og það eina sem við stjórnarandstöðuþingmenn hljótum að fara fram á er að vinnu okkar sé sýnd sú virðing að um hana sé fjallað eins og önnur mál. Ég held að þetta mál sé þegar það mikið rætt og hinir nýju þingmenn hljóti að afreka það að geta sett sig inn í þetta mál þar sem umsagnir liggja fyrir í þskj., sem er ekki venjulegt, að það ætti að vera möguleiki að hv. nefnd gæti brotist í gegnum þetta. Þegar þingnefnd --- það þekkjum við sem höfum stjórnað þingnefndum --- ræður ekki við verkefni sín á venjulegum reglubundnum þingnefndafundum, þá er einfaldlega skotið á aukafundum. Það hefur ævinlega verið gert og reynt að finna nefndunum meiri tíma.