Barnalög

125. fundur
Mánudaginn 13. apríl 1992, kl. 23:17:00 (5520)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hygg að hv. þm. þurfi ekkert að vera undrandi á því þegar ekki er geysilangt til þingloka ef svo fer að það verði starfað eftir starfsáætlun, jafnvel þó það dragist eitthvað, þótt einn þingflokkur leggi verulega áherslu á eitt tiltekið mál á þessu stigi þegar tilefni gefst til, af því að rökin fyrir barnalagafrv. frá sifjalaganefnd eru m.a. þau að lög verði sett um umboðsmann barna. Þess vegna eru málin tengd saman af þeim sérfræðingum sem helst hafa fjallað um þessi mál hér á landi á undanförnum árum, mér liggur við að segja áratugum. Þess vegna er fullkomlega eðlilegt að þessi mál séu tengd saman. Ég vona að ég þurfi ekki að skilja hv. 6. þm. Reykv. þannig að það sé nein ástæða til að ætla að menn dragi það að afgreiða þetta mál um umboðsmann barna. Þvert á móti vona ég að hægt sé að skilja orð hennar og hv. 3. þm. Reykv. fyrr í umræðunum í kvöld þannig að ætlunin sé að afgreiða málið. Enginn ágreiningur er um það að ég best veit, ég kannast ekki við það. Það hefur verið lagað að þeim ábendingum sem fram hafa komið. Kostnaður við embætti umboðsmanns barna er talinn vera 3--5 millj. kr. á ári að mati fjmrn. þannig að ekki er um óyfirstíganlegan vanda að ræða og ég segi það í fullri alvöru fyrir hönd þingflokks Alþb. að við leggjum mikla áherslu á þetta mál og að menn athugi það málefnalega og afgreiði þannig að þingið geti á þessu vori tekið á öllum þessum þáttum í senn og þar með afgreitt þau mál sem snerta löggjöf um málefni barna með myndarlegum og sómasamlegum hætti.