Sjávarútvegsmiðstöð á Akureyri

125. fundur
Mánudaginn 13. apríl 1992, kl. 23:41:00 (5526)


     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér er bæði ljúft og skylt að lýsa þeirri skoðun minni að ég hef alla tíð mælt með því að Byggðastofnun yrði flutt út á land. Ég mun ekki breyta þeirri skoðun minni á nokkurn hátt. Ég mun hins vegar ganga ríkt eftir því að hæstv. forsrh. sýni fram á að hann hafi meiri hluta síns flokks og Alþfl. við þeim gjörningi. ( ÖS: Af hverju?) Það er einfalt mál vegna þess að þetta er prófsteinn á það hvort einhver vilji er þarna að baki. Við munum líka gera kröfu á að því verði fylgt eftir með málum sem vigta eitthvað í slíku. Ég lít á flutning Byggðastofnunar út á land fyrst og fremst sem táknræna aðgerð til þess að leggja áherslu á annað og meira. Það eru 20 störf við Byggðastofnun í Reykjavík. Ef við ætlum að tala af alvöru um flutning á stofnunum út á land verðum við að taka fyrir stofnanir sem vigta eitthvað í mannahaldi. Þetta er ekki nema prósentubrot af því sem þarf ef eitthvað á að verða úr málinu.
    Ég bið því hv. 17. þm. Reykv. að spara sér aðeins léttúðina þegar talað er um svo alvarlegt mál sem hér er því tekið er eftir málflutningi hans og ég hef enga trú á að hv. 17. þm. Reykv. sé endanlega búinn að gefa það upp á bátinn að Alþfl. kunni að eiga kjósendur utan höfuðborgarsvæðisins í framtíðinni.