Sjávarútvegsmiðstöð á Akureyri

125. fundur
Mánudaginn 13. apríl 1992, kl. 23:44:00 (5529)

     Tómas Ingi Olrich :
    Virðulegi forseti. Umræðan sem hér hefur orðið, nú síðast um vegalausa þingmenn, snertir ekki beinlínis sjávarútvegsmiðstöðina á Akureyri, ekki síst með tilliti til þess að hugtakið vegalaus þingmaður hefur verið ranglega notað þar sem hv. 6. þm. Norðurl. e. var ekki vegalaus heldur afvegaleiddur þingmaður og leiddur af braut af hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni.
    Hin rétta braut er að ræða um sjávarútvegsmiðstöð á Akureyri. Það hefur að vísu verið gert í þingsölum áður í tengslum við till. til þál. um eflingu Akureyrar og Eyjafjarðarsvæðisins sem flutt var af þingmönnum allra flokka nema Sjálfstfl., því svo vildi til að þegar sú þáltill. var í undirbúningi var sú þáltill. sem er til umræðu í kvöld einnig í undirbúningi og niðurstaðan varð sú að báðar tillögurnar voru fluttar.
    Ég ætla ekki hér og nú að endurtaka það sem ég sagði við umræðuna um málið sem er mjög skylt því sem er til umræðu í kvöld, þó þar sé nokkur áherslumunur. Ég ætla aðeins að segja nokkur orð sem varpa ljósi á það hvers eðlis hugmyndin er sem er til umræðu. Það er að sjálfsögðu verið að ræða um að tengja saman rannsóknastofnanir annars vegar og atvinnulíf hins vegar. Þörf er á þessum tengslum á hvoru tveggja sviðinu. Því er ekki að neita að rannsóknastarf hefur ekki verið í nógu miklum tengslum við atvinnulífið, menntastofnanir og fræðistofnanir hafa ekki þróast nægilega vel í tengslum við atvinnulífið og atvinnulífið hefur á hinn bóginn ekki varið nógu miklu fé til rannsókna- og þróunarstarfsemi.
    Íslendingar standa frammi fyrir harðnandi samkeppni í alþjóðlegum viðskiptum. Það skiptir ekki einungis máli að þeir tryggi sér sem besta viðskiptahagsmuni með alþjóðlegum samningum um aukið viðskiptafrelsi, eins og er verið að vinna að, heldur er jafnframt mikilsvert fyrir þá að móta skýra stefnu um með hvaða hætti þeir geta styrkt samkeppnisstöðu sína heima fyrir, hvernig þeir geti best búið í haginn fyrir atvinnulífið og hvar möguleikar þeirra eru mestir.
    Í alþjóðlegri samkeppni skiptir sérstaða þjóða meginmáli. Sú sérstaða getur verið tengd auðlindum, landfræðilegri legu eða menntun þjóðarinnar. Það sem sker úr um samkeppnishæfni Íslendinga í síharðnandi alþjóðlegum viðskiptaheimi er hvernig þeim tekst að virkja sérstöðu sína sér í hag. Sérstaða Íslendinga er í raun og veru ekki aðeins fólgin í fiskimiðunum og mikilli framleiðni fiskveiðiflotans og mannaflans sem við sjávarútveginn starfar. Sérstaða okkar er ekki síður fólgin í því að við eigum vel menntaðan mannafla, mannauð, sem er opinn fyrir nýjungum og talsvert alþjóðlega sinnaður þótt þjóðin sé enn landfræðilega örlítið úr alfaraleið. Hins vegar skortir mikið á að við nýtum þekkingu okkar til að auka hagvöxt og styrkja stöðu okkar í samkeppninni við aðrar þjóðir. Það má því með sanni segja að bókvitið hafi ekki hafnað í askinum sem skyldi.
    Sú þáltill. sem hér um ræðir miðar að þessu, hún miðar að því að koma á fót stofnun á Akureyri sem tengir saman atvinnulífið og fræðistofnanir. Ég get þess hér að tilraunir af þessu tagi hafa verið framkvæmdar víða um heim. Ég átti þess kost að skoða það sem Finnar hafa verið að gera í Oulu í norðanverðu Finnlandi. Þar búa um 100.000 manns. Þeir hafa fyrir alllöngu komið sér upp tæknigarði þar sem tæknideild og verkfræðideild háskólans í Oulu starfar í tengslum við rannsóknastofnanir og fyrirtæki og þar hefur verið komið upp sjálfseignarstofnun sem heitir ,,teknopoliskpark`` eða tæknigarður og hún er fyrst og fremst umgjörð utan um samstarf af þessu tagi. Þessi tegund af umgjörð utan um samstarf fræðistofnunar, vísindastofnunar annars vegar og fyrirtækja hins vegar, hefur gengið mjög vel. Hefðbundnar atvinnugreinar þeirra eru fyrst og fremst skógarhögg og iðnaður sem byggist á skógarafurðum. Á sl. 10 árum hefur þeim tekist að fjölga um ein 5.000 störf ef ég man rétt, og þau eru öll tengd hátækni. Þessi reynsla hefur gefið þeim vísbendingu um að ástæða sé til þess að halda áfram á þessari braut. Þeir eru nú með svipaðan samstarfsvettvang í byggingu sem byggt er yfir og þeir nefna ,,medipolis``, þ.e. samstarfsvettvangur sem tengir saman háskólasjúkrahúsið í Oulu sem er tiltölulega stórt sjúkrahús, rannsóknastofnanir á sviði meinafræði og síðan fyrirtæki sem framleiða ýmiss konar efni og tækni sem tengist heilbrigðismálum. Þarna ætla þeir að leiða saman þá þekkingu sem best er á þessu sviði og þau fyrirtæki sem starfa að framleiðslunni til þess að skapa frjóan jarðveg fyrir framfarir á þessu sviði.
    Ég hygg að ef Íslendingar eiga möguleika á að byggja upp stofnun af þessu tagi á héraðsgrundvelli, sé það fyrst og fremst í sambandi við sjávarútveginn. Aðstæðurnar sem eru í Eyjafirði eru mjög hagstæðar fyrir þróun af þessu tagi og ég geri ráð fyrir að Alþingi muni taka mjög vel í þessar hugmyndir. Ég varð var við það þegar sú þáltill. sem ég minntist á áðan var til umfjöllunar í þinginu fékk hún góðar undirtektir og ég geri ráð fyrir að þetta mál muni fá skjóta afgreiðslu út úr þinginu.