Ráðning þjóðminjavarðar

126. fundur
Þriðjudaginn 14. apríl 1992, kl. 14:15:00 (5538)


     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég átti sæti í þeirri nefnd sem undirbjó setningu laga nr. 88/1989 og gekk sú lagasetning ekki þrautalaust en sú var von okkar allra sem að þeim lögum stóðu að þau yrðu til þess að efla og styrkja Þjóðminjasafn Íslands.
    Í 2. gr. laganna segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Þjóðminjavörður hefur umsjón með þjóðminjavörslu í landinu öllu í umboði þjóðminjaráðs. Hann er framkvæmdastjóri þjóðminjaráðs og situr fundi þess ásamt safnstjóra Þjóðminjasafns Íslands. Safnstjóri Þjóðminjasafns Íslands er staðgengill þjóðminjavarðar.``
    Svo einfalt er það. Lilja Árnadóttir, safnstjóri Þjóðminjasafns Íslands, er staðgengil þjóðminjavarðar samkvæmt lögum. Lilja Árnadóttir vann með okkur allan tímann meðan þessi lög voru í undirbúningi og það segir mér enginn, hæstv. forseti, að henni hafi ekki verið gerkunnugt um þegar hún tók að sér að vera safnstjóri Þjóðminjasafns að þar með væri hún staðgengill þjóðminjavarðar. Það er því með ólíkindum að hæstv. menntmrh. lýsi því hér yfir að hann hafi heyrt utan að sér að hún vildi ekki gegna því starfi. Hún gegnir því starfi lögum samkvæmt og þess vegna er alveg fráleitt að ráða í starfið þó að þjóðminjavörður fari frá í tvö ár. Safnstjóri safnsins er staðgengill og henni ber að sinna því starfi og það vissi hún þegar hún tók þetta starf að sér.
    Ég ætla ekkert að segja hér um Guðmund Magnússon. Því verður auðvitað ekki neitað að hann hefur óvenjulitla menntun til að ráðast til þessa starfs því að yfirleitt eru gerðar meiri kröfur til svo ábyrgðarmikilla starfa. Vel má vera að hann geti leyst þetta vel af hendi en því verður ekki á móti mælt að safnstjóri Þjóðminjasafns er lögum samkvæmt staðgengill þjóðminjavarðar.