Ráðning þjóðminjavarðar

126. fundur
Þriðjudaginn 14. apríl 1992, kl. 14:17:00 (5539)

     Tómas Ingi Olrich :
    Virðulegi forseti. Málshefjandi, hv. 9. þm. Reykv., hefur gefið stórar yfirlýsingar um það að settur þjóðminjavörður sé ekki hæfur maður í embættið og hann hefur einnig gert athugasemd við það að starfið hafi ekki verið auglýst. Þegar embættismaðurinn fer í samningsbundið orlof, þá hygg ég að þess séu fá dæmi að stöður séu auglýstar. Ég vil taka það fram að ég hef undir höndum upplýsingar um það að í þann tiltölulega stutta tíma sem hv. 9. þm. Reykv. var menntmrh. réð hann í 13 stöður og þar af voru tvær auglýstar. Auk þess réð hann sex sérfræðinga en ég hygg að engin þeirra staða hafi verið auglýst.
    Ég vil taka fram í sambandi við hæfni Guðmundar Magnússonar að í þjóðminjalögunum er það tekið sérstaklega fram að að öðru jöfnu skal ráðinn maður með sérfræðilega menntun í menningarsögu. Samkvæmt mínum skilningi á því hugtaki kemur til greina fornleifafræðingur í þessa stöðu, þjóðháttafræðingur eða sagnfræðingur. Sá sem ráðherra hefur ráðið tímabundið í þessa stöðu er með BA-próf frá Háskóla Íslands í sögu og heimspeki. Hann er með MS-próf í rökfræði og aðferðafræði vísinda frá London School of Economics og hann hefur kennt sem stundakennari við Háskóla Íslands aðferðafræði sagnfræðinnar og heimildafræði. En hann hefur einnig reynslu af stjórnunarstörfum og það skiptir miklu máli í þessu sambandi. Hann hefur m.a. verið aðstoðarmaður menntmrh. og enginn gerir sér betur grein fyrir því en 9. þm. Reykv. hversu margvísleg reynsla er fólgin í því. Ég held því að það sé nánast hneyksli að halda því fram að þessi maður sé óhæfur til starfans.