Ráðning þjóðminjavarðar

126. fundur
Þriðjudaginn 14. apríl 1992, kl. 14:21:00 (5541)


     Árni Johnsen :
    Virðulegi forseti. Það hefur verið faglega að verki staðið hjá hæstv. menntmrh. við afgreiðslu þessa máls og óaðfinnanlegt að því leyti sem hefðir benda á. Hinir hæfustu menn hafa gegnt starfi þjóðminjavarðar á okkar landi og er það vel. Þetta er mikilvægt verkefni og varla verður hægt að dæma Guðmund Magnússon nema af hans eigin verkum þegar þar að kemur.
    Það sem á brennur í Þjóðminjasafni Íslands er ekki mannafli. Gott starfsfólk er í Þjóðminjasafni Íslands. Það sem á brennur er aðstaða Þjóðminjasafnsins sjálfs, húsakostur og aðbúnaður. Það hefur slugsast um langt árabil að halda þar í horfinu eins og eðlilegt er og mannsæmandi er til menningarauka fyrir íslenskt þjóðfélag. Ég held til að mynda að full rök hefðu verið fyrir því þegar ríkissjóður keypti hús Sláturfélags Suðurlands í Laugarnesi að þar hefði Þjóðminjasafn Íslands verið vistað hvort sem það hefði verið flutt þangað allt eða haft gamla húsið að hluta til. Í dag er Þjóðminjasafn Íslands hornreka að því er varðar aðstöðu fyrir gesti og alla aðkomu. Allir vita að þar eru engin bílastæði, engin aðstaða er við Þjóðminjasafnið enda er umferð um Þjóðminjasafnið ekki mikil og ekki er hægt að loka augunum fyrir þessu.
    Í húseign ríkisins, sláturfélagshúsinu sem Þór Magnússon þjóðminjavörður vakti fyrst máls á að fá fyrir Þjóðminjasafn Íslands, hefði verið margfalt rýmra um alla starfsemi Þjóðminjasafnsins, betri aðstaða væri fyrir gesti og það væri miðsvæðis í mikilli umferð höfuðborgarsvæðisins.
    Kannski er hægt að skoða það mál enn þá því að ekki er farið vinna úr nýtingu þess húss, en ég vil leggja áherslu á að það er aðbúnaður Þjóðminjasafnsins sem á brennur en ekki mannafli.