Efling íþróttaiðkunar kvenna

126. fundur
Þriðjudaginn 14. apríl 1992, kl. 14:47:00 (5547)


     Árni M. Mathiesen :
    Herra forseti. Sú tillaga, sem við erum að ræða, er tillaga kvennaliðs Alþingis til þingsályktunar um eflingu íþróttaiðkunar kvenna. Ég tel fulla ástæðu til að fagna þessari tillögu og vil lýsa yfir stuðningi við hana þó að mér sé ekki alveg fullkomlega ljóst hvernig ríkisstjórnin á að beita sér fyrir því að gert verði átak til að efla íþróttaiðkun kvenna.
    Eins og fram kom voru það einungis þeir þingmenn sem kvenkyns eru sem fengu að vera með á þessari tillögu. Og þó við karlkynsþingmenn hefðum gjarnan viljað vera með í svona tillöguflutningi til að hafa þannig einhver áhrif á efni tillögunnar þá höfðum við ekki það tækifæri. Því vil ég nota tækifærið nú til að greina aðeins frá mínum skoðunum og hvernig ég tel að hið opinbera og ríkið sértaklega geti aðstoðað í þessu viðamikla og mikilvæga máli.
    Greinargerð tillögunnar fjallar að talsverðu leyti um starf hinna almennu íþróttafélaga, hinna svokölluðu íþróttadeilda. Og þar sem ég hef nokkra reynslu af þeim störfum þá vil ég fara um það nokkrum orðum.
    Þess er getið í greinargerð og það jafnvel gagnrýnt að mest áherslan sé lögð á þjálfun meistaraflokka karla og landsliða í boltaíþróttum og til þessara þátta fari mest fjármagn. Það er óumdeilanlega rétt. Fyrir þessu er mjög einföld ástæða. Ástæðan er sú að keppnisflokkar, ef svo má að orði komast, draga vagninn í íþróttastarfinu. Fjármögnun íþróttahreyfingarinnar byggist að mestu leyti á því hvernig þessir flokkar standa sig. Fjármögnun íþróttahreyfingarinnar byggist á aðgangseyri sem þeir greiða sem koma til að horfa á kappleikina og hún byggist á auglýsingatekjum sem er aflað hjá fyrirtækjum sem fá út á það athygli á marga og mismunandi vegu með auglýsingum á búningum, í leikskrám og í kynningarbæklingum og með auglýsingum í kringum og á þeim leikvöngum sem keppnin fer fram á. Hlutur ríkisins og hins opinbera er tiltölulega lítill í heildarfjármögnun en fjármögnunin kemur frá framangreindum tekjustofnum sem ég nefndi.
    Þá má koma að kjarna málsins í mínum huga, en það er sá sess sem annars vegar íþróttir karla og hins vegar íþróttir kvenna skipa. Þá kemur að því sem segir í greinargerðinni að kvennaíþróttir eru ekki nægilega virtar hér á landi og það held ég að sé hárrétt. Þar kemur líka fram að of fáar konur eru í forustu íþróttahreyfingarinnar. Ég held að ég geti líka fullyrt að of fáar konur taka þátt í íþróttum, í keppnisflokkum, og í starfi íþróttafélaganna. Eftir því sem þeir eru færri sem taka þátt þá er úrvalið minna og færri afreksmenn sem koma fram á sjónarsviðið til þess að mynda keppnisflokkana, minni samkeppni verður og minni árangur. Af því leiðir að íþróttin verður minna áhugavekjandi fyrir áhorfendur, það koma færri áhorfendur og íþróttirnar vekja minni áhuga í íþróttaþáttum fjölmiðlanna. Þar af leiðandi koma inn minni tekjur.
    Það var nefnt hér að kvennaflokkar væru afskiptir í starfi íþróttafélaganna. Þar sem ég þekki til á þetta ekki við og þjálfarar eru valdir af sömu kostgæfni fyrir kvennaflokkana og karlaflokkana. Það er hins vegar rétt að erfiðara verður að útvega flokkum kvenna jafnmarga tíma í íþróttasölunum og flokkum karla vegna þess að nánast undantekingarlaust eru færri þátttakendur í flokkum kvenna en karla. Þetta er mjög miður því að, eins og ég sagði, er það þátttakendafjöldinn sem byggir upp úrval keppnisflokkanna þegar ofar dregur í aldurshópum.
    Sú leið, sem ég tel að sé vænlegust til úrbóta, er að hér verði almenn kynning á íþróttum kvenna, að hið opinbera og við öll gerum þeim jafnhátt undir höfði og við höfum gert í íþróttum karla og hvetjum stúlkur til að taka þátt í íþróttum og fylla þessa tiltölulega fámennu flokka stúlkna og kvenna sem mæta á æfingar hjá félögunum. Þetta er í mínum huga miklu frekar hugarfarsbreyting en að til þessa verkefnis þurfi mikið fjármagn frá hinu opinbera eða að fjármagn frá hinu opinbera muni nýtast sérstaklega vel í þessu efni. Ég vil vekja athygli á því sem frsm. sagði að það var handknattleikssambandið norska sem ákvað að leggja jafnmikla áherslu á landslið karla og kvenna og koma þeim upp úr því að vera C-þjóð í það að vera á toppnum. Það hefur borið árangur, bæði í karla- og kvennaflokki. En það verður þó að hafa það í huga að staða Noregs sem C-þjóðar á

þessum tíma endurspeglar ekki stöðu félagsliða Noregs í handknattleik á sama tíma.
    Ég vil taka undir með frsm. að íþróttir kvenna eru ekki síður skemmtilegar en íþróttir karla. Heimsmeistarakeppni kvenna í Kína, sem nefnd var, var afar skemmtileg og ánægjuleg á að horfa. Ég vil ljúka máli mínu með því að lýsa yfir stuðningi við tillöguna og vona að bæði frsm. og flm. hafi haft eitthvert gagn af því sem ég hef hér sagt.