Efling íþróttaiðkunar kvenna

126. fundur
Þriðjudaginn 14. apríl 1992, kl. 15:29:00 (5552)

     Rannveig Guðmundsdóttir :
    Virðulegur forseti. Mér finnst það einstaklega ánægjulegt að konurnar á Alþingi skuli saman standa að flutningi þeirrar tillögu sem er til umræðu. Mér finnst mjög mikilvægt að gert verði átak til að efla íþróttaiðkun kvenna. Kom það vel fram í framsögu 1. flm. hvers vegna ástæða er til að snúa sér sérstaklega að stúlkunum varðandi íþróttaiðkun. Við höfum á Alþingi tekið til umræðu fjölmörg mál varðandi börn og unglinga þar sem vandamál steðja að. Nægir þar t.d. að nefna börn sem flosna úr skóla og varnir gegn vímuefnum. Því nefni ég þessi mál að í slíkri umræðu komum við gjarnan inn á mikilvægi hvers kyns forvarnastarfa og þá ekki síst mikilvægi þess að börn og unglingar aðhyllist heilbrigð áhugamál, taki þátt í æskulýðs- og/eða íþróttastarfi, stundi heilbrigða tómstundaiðju. Hins vegar tek ég skýrt fram að það væri einföldun að halda því fram að holl og góð tómstundaiðja sé einhlít eða allsherjarlausn á öllum vanda eða afstýri alltaf að illa fari. En það er alveg víst að sterkar líkur eru á að ástundun íþrótta afstýri því að félagslega halli undan fæti og unglingar verði t.d. vímuefnum að bráð. Bara þess vegna er full ástæða til að styðja tillögur sem beinast að aukinni ástundun íþrótta. Því hef ég m.a. staðið að öðrum tillögum í þessa átt og ég nefni þar þáltill. sem hefur reyndar verið nefnd í umræðunni sem flutt var fyrr á þessum vetri og snýr að stuðningi við efnilega íþróttamenn. Það geri ég ekki síst vegna framangreindra viðhorfa og þrátt fyrir að í gegnum árin hafi ég haldið á lofti áherslum á almenningsíþróttir og á mikilvægi þess að hvetja alla til að vera með, að þátttaka sé mikilvægust óháð því hvort sú þátttaka leiðir viðkomandi í fremstu línu afreksfólks.
    Sú till. sem er til umræðu er af enn öðrum meiði þó þær áherslur sem ég hef nefnt eigi jafnt við. Að þessu sinni höfum við konurnar sem sitjum á Alþingi sameinast um till. til þál. um eflingu íþróttaiðkunar kvenna sérstaklega. Í tillgr. er lögð áhersla á mikilvægi íþrótta í líkamlegu og félagslegu uppeldi og sem fyrirbyggjandi aðgerðir til að bæta heilsu og vinnuþrek, að fjárframlög ríkisins til íþrótta skuli veitt með það að markmiði að gera íþróttum kvenna og karla jafnhátt undir höfði. Þetta er jafnréttismál eins og fram hefur komið í umræðunni.
    Frsm. tillögunnar hefur eins og ég sagði áðan fært gild rök fyrir því að þessi till. er flutt og fyrir því að hún á rétt á sér. Ég ætla ekki að fara í slíka efnislega umfjöllun en kem fyrst og fremst inn í umræðuna til að lýsa stuðningi við málið. Þótt margt hafi margt breyst sem betur fer í íþróttaþátttöku kvenna á síðustu árum og stúlkur hafi haslað sér völl á nýjum sviðum, svo sem knattspyrnu til viðbótar þeim sviðum sem hefðbundin

eru, og þá nefni ég t.d. fimleika og hér hefur sundið verið nefnt, þá tel ég það óumdeilt að umfjöllun um karlaíþróttir eru mun fyrirferðarmeiri en umfjöllun um kvennaíþróttir.
    3. þm. Reykn. færði fyrir því rök hvers vegna þær vega þyngra og eru betur sóttar. En sú staðreynd sem hann dró fram og tekið var undir hér jafnframt af hv. 5. þm. Reykv. og sem ég dreg ekki í efa segja mikla sögu um hefðirnar og yfir hvaða múra þarf að sækja, að það eru karlakeppnisíþróttir sem afla fjár, kalla áhorfendur til, er varla af því að það eru karlar sem keppa. Ástæðan er fremur sú að þeir eiga dýpri hefðir og hafa náð lengra og þessu ætlum við að reyna að breyta.
    E.t.v. ættum við konurnar, sem eigum sæti á Alþingi, flm. þessarar till., að fara að fordæmi íþróttaþingmannanna á Alþingi, sem skreppa í íþróttatíma sinn einu sinni í viku og sem ég hef ítrekað boðað komu mína í við litlar undidrtektir. E.t.v. ættum við að hefja okkar sameiginlegu íþróttaiðkun og etja síðan kappi við íþróttaþingmennina til stuðnings kvennaíþróttum. Mér finnst gott að heyra að þingmenn úr karlahópi hefðu viljað vera meðflm. að till. en ég lít svo á að það að konurnar einar sameinast um þetta mál sé einn þáttur þess að vekja athygli á stöðu þessara mála. Við erum með þessu að feta í fótspor frænda okkar, Norðmanna. Komið hefur fram að Norðmenn gerðu gangskör að þessum málum hjá sér og þeir uppskáru eins og þeir sáðu.
    Virðulegi forseti. Varðandi þátttöku og jafnræði skulum við ekki gleyma hve mikilvæg hvatningin er og að oft eru börn og unglingar löðuð inn í félagsstarf og íþróttastarf og þess vegna á þessi umfjöllun erindi til allra þeirra sem eru umsjónarmenn eða hvatamenn innan íþróttahreyfingar þó svo að ég taki undir að ekki er eingöngu við það fólk að sakast. Málið er flóknara en svo. Þær góðu undirtektir sem tillagan fær hér í þinginu eru vonandi vísbending um að hún nái fram að ganga og verði til góðs og við náum þeim árangri sem til er stofnað með flutningi tillögunnar.