Efling íþróttaiðkunar kvenna

126. fundur
Þriðjudaginn 14. apríl 1992, kl. 15:35:00 (5553)


     Flm. (Kristín Einarsdóttir) :
    Virðulegur forseti. Ég vil þakka undirtektir við till. okkar kvennanna á Alþingi. Margt áhugavert kom fram og ætla ég ekki að fara að minnast á það allt hér þó að það hefði verið mjög skemmtilegt. Það kom fram hjá hv. 3. þm. Reykn., Árna Mathiesen, að í hans félagi væri jafnmikil áhersla lögð á karla- og kvennaíþróttir og er það auðvitað mjög gott. Ég reikna með því að þetta sé eitthvað misjafnt eftir félögum, en samt kvarta konurnar innan íþróttahreyfingarnar mest um að allt of lítil áhersla sé lögð á íþróttir þeirra.
    Líka var talað um það hér og reyndar af fleiri en einum, bæði hv. 3. þm. Reykn. og eins 5. þm. Reykv. og reyndar einnig hv. þm. Ingibjörgu Pálmadóttur, 2. þm. Vesturl., að frá karlaíþróttunum kæmi fjármagnið. Það er að hluta til alveg rétt. Mest er auglýst þegar karlaflokkarnir keppa og er sjálfsagt meiri hluti fjármagnsins þar. Þó verðum við að muna eftir því að fólk kaupir bæði lottómiða og getraunaseðla og annað þess háttar án þess að það telji sig vera eingöngu að styrkja karlaíþróttir. Ég tel mig alveg eins vera að styrkja kvennaíþróttir þegar ég kaupi slíkt og það hugsa ég að gildi um flesta. Ég vil benda í því sambandi á að Norðmenn létu meira fé renna til kvennaíþróttanna og komu þá fleiri áhorfendur. Stelpurnar fóru að standa sig miklu betur, fleiri höfðu áhuga á að horfa á og þá hvatti það þær enn þá meira þannig að þetta var keðjuverkun. Um leið komu inn meiri tekjur þar sem áhorfendum fjölgaði og auglýsingatekjur urðu meiri. Þetta skipti mjög miklu máli.
    Hv. þm. Ingi Björn Albertsson taldi sig geta tekið undir allt í till. nema síðustu setninguna þar sem talað var um að gera kvenna- og karlaíþróttum jafnhátt undir höfði. Það skiptir e.t.v. máli hvernig maður skilur það orð. Þegar ég segi að gera karla- og kvennaíþróttum jafnhátt undir höfði, þá er ekki endilega þar með sagt að taka eigi peningapottinn og skipta honum í tvennt og láta fara á tvo staði þó að það væri sem sagt allt í lagi ef ákveðið væri að gera það. Ég skildi það nú samt ekki þannig þegar ég lagði þetta fram. Ég vil benda á að konur í íþróttahreyfingunni eru aðeins 1 / 3 eða um 30% þannig að ætli maður að skipta til jafns, þá væri verið að setja miklu meira í kvennaíþróttirnar innan hreyfingarinnar. Auðvitað vildi ég að það væru jafnmargir karlar og konur sem stunduðu

íþróttir og hægt væri að verja um það bil jafnmiklum peningum á báða staði. En það var nú kannski ekki meiningin með þessu orðavali.
    Hann hélt því einnig fram að ég hefði sett fram staðhæfingar í greinargerð sem væru órökstuddar en gat því miður ekki farið nánar ofan í það tímans vegna. Vel má vera að svo sé en ég tók nú fram að þær upplýsingar sem þar eru eru mestmegnis komnar frá konum innan íþróttahreyfingarinnar, reyndar körlum líka og það eru e.t.v. einhverjar staðhæfingar sem ég get því miður ekki rakið en ég hef hins vegar farið ofan í og beðið um skýringar á þeim en af því að ég veit ekki um hvað hann var að tala get ég því miður ekki skýrt það nánar út. En konur innan íþróttahreyfingarinnar og þeir karlar sem hafa rætt við mig um þessi mál hafa verið mjög svekkt, ef ég má orða það svo, út í það hversu litla fjármuni þeir fá í kvennaíþróttir. Þær sögðu jafnvel að þótt þær fengju ekki nema helminginn af því litla framlagi sem kemur frá ríkinu þá væru þær betur settar en þær eru í dag. Þetta voru þeirra fullyrðingar. Ég lagði ekkert mat á það en þetta sögðu þær samt sem áður við mig. En þá voru þær ekki að tala um að það ætti að skipta til helmninga öllu sem kæmi inn en t.d. handboltakonurnar, sem voru á Hótel Íslandi að reyna að afla tekna fyrir landsliðið, sögðu: Við fáum ekki krónu. Svona orðuðu þær það. Þetta fannst mér mjög hastarlegt og þessu viljum við breyta. Ég legg enn og aftur áherslu á það að það sem skiptir auðvitað mestu máli er að efla íþróttirnar almennt. Mér þykir það slæmt ef hv. 5. þm. Reykv. hefur skilið það svo að kvennalistakonur og þar með ég værum á móti íþróttum því að það er alls ekki rétt. Við höfum hins vegar lagt höfuðáherslu á að efla þurfi almenningsíþróttir, það þurfi ekki að leggja höfuðáherslu á boltakeppnisíþróttir karla og þá meistaraflokk heldur á alla og skilja hina ekki út undan.
    Ég vil að lokum segja það af því að ég sé að tími mitt er á þrotum, að t.d. í því hverfi sem ég bý eru alveg ótrúlega fá tækifæri fyrir stelpur til að stunda íþróttir miðað við t.d. það sem strákarnir hafa þar þó að mínu mati sé það auðvitað allt of lítið. Vegna þess að sem dæmi í því hverfi Reykjavíkur er nánast útilokað ef ekki algerlega útilokað að stunda frjálsar íþróttir sem henta mjög mörgum strákum og jafnframt mjög mörgum stelpum. --- Nú sé ég skyndilega að tími minn hefur aukist þannig að líklega hef ég fengið vitlausa tímatalningu og get þá svarað fleiru af því sem beint var til mín og langar mig þá til að tala örlítið um það sem kom fram í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Það var alveg rétt að hann óskaði eftir því við mig að hann fengi að vera með á till. Ég sagði að það hefði verið kannski svolítið í lagt ef allur þingheimur hefðu verið skrifaður á till. Mér fannst alveg nóg að ég fékk allar konurnar til þess að skrifa upp á tillöguna. Þó að ég vilji ekki segja að það sé mikið íþróttaafrek þá getur vel verið að það sé mesta íþróttaafrek sem ég hef innt af hendi en þau eru nú frekar fá þó að einhvern tíma hafi ég reynt að stunda einhverjar íþróttir. En í máli hv. þm. komu einnig fram gleðilegar undantekningar og nefndi sundið og frjálsar íþróttir og það er alveg rétt. Það er einmitt helst í einstaklingsíþróttunum sem konurnar standa nokkurn veginn jafnfætis körlunum og það er líka alveg rétt sem kom fram í máli hans að auðvitað er ekki eingöngu við íþróttahreyfinguna að sakast. Þetta er miklu, miklu víðtækara. Það erum við sem ölum upp okkar börn. Vel má vera að meira sé ýtt undir stráka en stelpur, ég hef ekki reynslu á því sjálf en það getur vel verið og mér þykir mjög trúlegt að svo sé, en tækifærin eru því miður miklu færri fyrir stelpur og foreldrar kvarta yfir því. Þeir sem eiga stelpur og stráka segja að það sé mjög mikill munur þar á og þeir kvarta mjög undan því að það séu miklu færri möguleikar fyrir stelpur. Þegar stelpur vilja fara í frjálsar íþróttir þarf oft að keyra þær lengra. Það sem strákarnir geta stundað er yfirleitt nær en þetta er auðvitað mjög misjafnt bæði eftir bæjarfélögum og eftir hverfum væntanlega því að auðvitað talar hver og einn út frá sinni eigin reynslu.
    Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon minntist einnig á að það þyrfti að breikka till. og gera úttekt á þátttöku og fjármálalega úttekt. Ég minntist aðeins á könnun sem gerð hefur verið á vegum ÍSÍ. Þar er ekki bara fjölmiðlaúttekt, heldur er líka þátttakendafjöldi og ýmislegt fleira. Hjá ÍSÍ hefur verið gerð könnun á þátttöku í íþróttum þannig að mjög mikið efni er til á þessu sviði en ekki hef ég á móti því að tillagan verði breikkuð og ákveðin úttekt gerð en þó má ekki drepa málinu á dreif. Ég held að til séu mjög miklar upplýsingar um þetta mál hjá íþróttasambandinu og þeir hafa lýst sig reiðubúna til þess að gefa allar upplýsingar sem óskað er eftir. Ef ég veit rétt hafa þeir skrifað okkur öllum þingkonum bréf, sent okkur þessa könnun og upplýsingar og boðist til þess að veita allar þær upplýsingar sem að gagni mættu koma og m.a. á þessu sviði.
    Hv. þm. Ingi Björn Albertsson sagði áðan að það væri ekki tengt sérstaklega við kvennaíþróttirnar að afla sér tekna. Það er auðvitað alveg rétt en það er miklu erfiðara fyrir konurnar að ná sér í peninga vegna þess að þær hafa ekki þessar auglýsingatekjur, þær hafa ekki þessa miklu athygli og þess vegna hafa þær fengið minni peninga. Það þarf að gefa þeim ákveðið ,,startkapítal`` til þess að geta síðan fengið meira í aðra hönd. Ég er alveg sannfærð um það að ef meiri áhersla er lögð á kvennaíþróttirnar skilar það sér ekki bara í auknum tekjum til þeirra, heldur skilar það sér til allrar íþróttahreyfingarinnar og út í almenningsíþróttirnar líka sem er auðvitað aðalatriðið. Sem betur fer hefur áhugi almennings breyst mjög mikið og maður sér það bara þegar maður fer út að ganga eða hlaupa að úti um allt er fólk að hreyfa sig, nánast sama hvort það er gott eða vont veður. Fjöldi fólks hefur farið að stunda íþróttir í seinni tíð og ég held að það sé alveg augljóst að það skilar sér bæði í sparnaði í heilbrigðiskerfinu sem og miklu minni félagslegum vandamálum en ella.