EES-samningur og íslensk stjórnskipun

126. fundur
Þriðjudaginn 14. apríl 1992, kl. 17:11:00 (5570)

     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Ég vil taka undir þakkir til hv. 4. þm. Reykv. fyrir ræðu hans áðan og þá miklu áherslu sem hann leggur á vönduð vinnubrögð í sambandi við þetta mikilvæga mál og það er sannarlega öryggi fyrir okkur að vita það að þannig muni utanrmn. halda á þessum málum. Einnig vil ég þakka fyrir þá eindregnu afstöðu hans sem kom fram í máli hans að standa vörð um dýrmætt sjálfstæði íslensku þjóðarinnar og stuðning hv. þm. við þessa till. sem hér liggur frammi um nefndarskipun í þessu skyni.
    Hæstv. utanrrh. hefur tilkynnt að hann ætli að skipa ráðgjafa sína til þess að athuga þetta mál og er það vissulega góðra gjalda vert. Hins vegar vaknaði ósjálfrátt hjá mér spurning í sambandi við það þegar ég heyrði að þeir ráðgjafar eiga að skila áliti sínu 30. júní, minnir mig hæstv. ráðherra segja, en hins vegar hefur hæstv. utanrrh. gefið í skyn eða sagt að undirritun samningsins sem nú liggur fyrir muni fara fram af hans hálfu í maímánuði. Hæstv. ráðherra sagði áðan að ekki yrði gerð nein þjóðréttarleg skuldbinding þó að samningamenn settu stafi sína undir þennan samning. Slík þjóðréttarleg skuldbinding ætti sér ekki stað fyrr en ráðherra hefði undirritað. Ætlar hæstv. utanrrh. þá að undirrita samninginn og inna þannig af hendi þjóðréttarlega skuldbindingu fyrir íslensku þjóðina áður en þessir ráðgjafar hafa skilað niðurstöðu sinni? Hver er þýðingin að skipa nefnd eða hvaða virðingu ber hann fyrir þeirri nefnd úr því að hann ætlar sér að taka á sig þjóðaréttarlega skuldbindingu fyrir hönd íslensku þjóðarinnar á meðan hann er að láta nefnd sína gera þessa mikilvægu úttekt? Þetta er spurning sem mér finnst að hljóti að vakna hjá okkur þegar við heyrum þetta og spurning um það hvert viðhorf hans er til þessa atriðis.