EES-samningur og íslensk stjórnskipun

126. fundur
Þriðjudaginn 14. apríl 1992, kl. 17:16:00 (5571)


     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Hér upplýsir hæstv. utanrrh. í þessari umræðu að hann hafi væntanlega sem viðbrögð við framlagningu þessarar till., ákveðið í dag að skipa nefnd á sínum vegum til að gera úttekt á því hvort samningur um Evrópskt efnahagssvæði stangist á við stjórnarskrána. Hann hefur margoft sagt okkur að hann sé sannfærður um að svo sé ekki og hann hafi fengið sérfræðinga, þó við höfum reyndar ekki fengið að vita hverjir það hafa verið, til þess að gera þessa úttekt nú þegar.
    Hann er andvígur þessari till. sem við erum að fjalla um vegna þess að honum finnst betra að gera þetta með þeim hætti sem hann er nú þegar búinn að ákveða að gera, þ.e. að skipa að vísu ágæta menn í nefnd og ég hef ekkert á móti þeim einstaklingum sem þarna er verið að tala um, langt í frá. Þetta eru mjög færir einstaklingar á sínu sviði. Hann segir að betra sé að skipa þessa menn að bestu manna yfirsýn til þess að gera þetta. Hann telur sig sem sagt einan eiga að hafa þá yfirsýn og aðrir eigi ekki að koma þar nálægt. Ég get ekki fallist á þetta.
    Auðvitað gerir Alþingi athuganir sínar þó að framkvæmdarvaldið geri sínar athuganir. Ég vil þakka formanni utanrmn. fyrir að taka undir þessa till. Mér þótti það mjög ánægjulegt að heyra að hann lætur ekki það sem framkvæmdarvaldið er að gera trufla sig í því hvað Alþingi gerir.
    Mig langar líka til að þakka hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni fyrir þá ræðu sem er sú merkilegasta ræða sem hefur verið haldin í þessari umræðu og þó að við tökum miklu lengri tíma en bara þennan dag í dag. Hún kom mér ekki svo á óvart vegna þess að ég hef oft heyrt hann í einkasamtölum segja eitthvað svipað því sem hann hefur sagt núna. Þess vegna var ég kannski enn ánægðari með að heyra hann koma hér fram og segja það sem hann sagði, þ.e. að hann ætli ekki að láta nokkurn mann taka af okkur sjálfstæðið með þessum EES-samningi sem hann taldi miklar líkur á að verið væri að gera.
    Eitt þurfum við að gera hér á Alþingi. Það er að samþykkja þessa till. og setja á fót þá nefnd sem till. gerir ráð fyrir. Vel má vera að þessi nefnd sem þarna er talað um

komist að því að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði stríði ekki gegn íslensku stjórnarskránni. Það er eitt atriði. En ég er ekki búin að sjá að Alþingi samþykki það mikla valdaafsal sem felst í samningnum, þó svo að vel geti verið að hann stangist ekki á við stjórnarskrána. Ég er alveg sannfærð um það að þegar menn fara ofan í þessi mál þá eru þeir ekki tilbúnir til að fórna öllu því sem samningurinn gerir ráð fyrir. Mér þykir fullveldið og sjálfstæðið skipta mjög miklu máli. Það eru ekki bara orð sem maður skreytir sig með og þau skipta nokkru máli fyrir mig og okkur öll. Þau skipta máli fyrir flesta Íslendinga. Þess vegna finnst mér mjög miklu máli skipta að við förum vandlega ofan í þetta mál. Ef samningurinn stríðir gegn stjórnarskránni þá er ekki um það að ræða og þó að hann stríði ekki gegn stjórnarskránni þá tel ég mjög miklar líkur á því að Alþingi muni ekki fallast á þennan samning þegar þingmenn eiga eftir að fara ofan í hann og sjá hvað í honum felst. Menn hafa væntanlega ekki haft tíma til þess að lesa í gegnum alla þá pappíra sem okkur hafa borist. Ekki er víst að allir hafi gefið sér tíma til að lesa bláu bækurnar tvær sem lagðar hafa verið á borð þingmanna sem er þessi samningur sem er þó einungis bara hluti af því sem við eigum að gleypa. Við verðum að muna að við eigum að taka í einu lagi við öllum lagagrunni Evrópubandalagsins og ekki bara það heldur eigum við einnig að samþykkja það sem Evrópubandalagið ákveður á þessu sviði ef við ætlum okkur að vera á Evrópska efnahagssvæðinu. Auðvitað getum við hafnað einhverjum lögum á Alþingi en þar með erum við búin að segja okkur frá samningnum. Vel má vera að hæstv. utanrrh. telji það nægjanlegt en ég tel það ekki nægjanlegt. Ég tel ekki nægjanlegt fyrir Alþingi Íslendinga að geta staðið hér og sagt: Við segjum annaðhvort já eða nei við þeim lögum sem Evrópubandalagið réttir okkur, ef við segjum ekki já, þá getum við bara átt okkur og farið. Þetta nægir mér ekki.