Rekstur dagvistarstofnana fyrir börn á vegum sjúkrahúsa

126. fundur
Þriðjudaginn 14. apríl 1992, kl. 18:35:00 (5592)


     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Það er í sjálfu sér ekki þörf á að orðlengja mjög þessa umræðu umfram það sem hún er nú orðin, en ég vil þó í upphafi láta í ljósi ánægju og þakklæti fyrir þær viðtökur sem þáltill. þessi hefur fengið hjá þeim hv. þm. sem til máls hafa tekið. Ég vænti þess að undirtektir þeirra lýsi í raun og veru sjónarmiði sem flestra þingmanna og undirstriki þann skilning sem ég trúi að þessi þáltill. njóti hjá hv. þingmönnum.
    Ég vil aðeins ítreka nokkur atriði sem mér finnst þörf á að liggi hér alveg krítarklárt fyrir. Það er í fyrsta lagi það að auðvitað er ekki verið að leggja fram tillögur sem stefnt er gegn einu eða neinu. Við erum í sjálfu sér ekki að leggja fram tillögur sem stefnt er gegn til að mynda hagsmunum Reykjavíkur. Við erum ekki að leggja fram tillögur sem stefnt er gegn hagsmunum starfsfólks sjúkrahúsanna sem nýtur þessarar þjónustu. Við erum ekki að leggja fram þáltill. sem stefnt er gegn starfsemi sjúkrahúsanna eða sjúkrahúsunum sjálfum. Við erum eingöngu að benda á það að Alþingi og sveitarfélögin hafa í sátt og samlyndi, hafa með frjálsu samkomulagi, komist að ákveðinni niðurstöðu um verkaskiptingu. Hér er hins vegar vikið frá því samkomulagi þrátt fyrir að fyrir liggi að þetta samkomulag og þessi lög um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga eru býsna ný af nálinni. Við erum einfaldlega að segja það að ef því háttar svo hjá sjúkrahúsunum í landinu að það þurfi að greiða sérstök hlunnindi af einhverju tagi, til að mynda hlunnindi varðandi dagvistunarstofnanir, þá eigi auðvitað að fara að þeim reglum og lögum sem sveitarfélögin og ríkið í landinu hafa komið sér saman um. Nú vill svo til að það eru alveg krítarklárar reglur um þessi mál hvað dagvistunarstofnanirnar áhrærir. Þess vegna er auðvitað augljóst að

ef niðurstaðan er sú að ekki er hægt að ráða fólk til starfa hjá sjúkrahúsunum í landinu nema að beita einhverjum sérstökum hlunnindagreiðslum af einu eða öðru tagi þá ber vitaskuld að virða reglur, samskipti og lög sveitarfélaga og ríkisins í því máli.
    Í þessu sambandi ber auðvitað að virða þá verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga sem tekur til dagvistunarstofnana.
    Ég vil líka enn fremur minna á að fyrir örfáum dögum bárust inn á borð okkar hv. þingmanna athugasemdir fólks varðandi forgangshópa og dagvistunarstofnanir í höfuðborginni. Ég ætla ekki að gerast dómari í þeim efnum en það vekur aftur á móti með manni nokkra spurningu þegar við höfum fyrir framan okkur þá staðreynd að Ríkisspítalarnir eru að reka dagvistunarstofnanir, hvaða reglur eru um forgangshópa á þessar dagvistunarstofnanir. Gilda sambærilegar reglur eins og gilda t.d. í sveitarfélögunum? Njóta allir starfshópar sjúkrahúsanna sömu réttinda til þess að nýta sér þessar dagvistunarstofnanir? Er þetta eingöngu fyrir einhverja tiltekna hópa? Fyrir lækna? Fyrir hjúkrunarfræðinga? Er þetta örugglega líka fyrir ófaglært starfsfólk sjúkrahúsanna eða hvaða reglur eru hér um gildandi? Gilda sömu reglur um forgangsröðun og Reykjavíkurborg eða önnur nálæg sveitarfélög hafa komið sér upp? Þetta þarf auðvitað allt að liggja fyrir.
    Ég vil, áður en ég lýk máli mínu, segja það að vitaskuld var rétt ábending hjá hv. 1. þm. Norðurl. e. að það var eðlilegt að ræða almennt um sjúkrahúsin, ekki bara Ríkisspítalana, enda kemur það glögglega fram bæði í þáltill. og einnig grg. sem henni fylgir. En ég vil ítreka það hróplega ósamræmi sem ég rakti hér áðan og lýtur að því að annars vegar er ríkið að greiða niður dagvistunarþjónustu í tilteknum sveitarfélögum fyrir starfsfólk sjúkrahúsa þrátt fyrir að sveitarfélögunum beri að sinna þessu hlutverki, en hins vegar eru sveitarfélögin að greiða fyrir hlunnindi til þess að ráða til starfa kennara sem ríkið sannarlega á að standa straum af.
    Ég nefndi hér ýmsar tölur í fyrri ræðu minni og fleirum mætti bæta við, t.d. frá Austurlandi, þar sem við blasir að í litlum skólum á Austfjörðum er greidd sérstök húsnæðishlunnindi sem nema allt að 30.000 kr. á mánuði, vel að merkja, virðulegi forseti, á mánuði, til þess að þessi sveitarfélög geti tryggt eðlilega uppfræðslu barna sinna. Þetta sýnir auðvitað svart á hvítu þessa hróplegu mismunun sem viðgengst og verður auðvitað að linna með einum eða öðrum hætti.
    Ég hef hvað eftir annað á fundum Alþingis rætt um þennan mikla vanda sem steðjar að í hinum dreifðu byggðum varðandi kennararáðningarnar. Ég hef lagt fram fyrirspurnir þar að lútandi og tekið þátt í umræðum til þess að undirstrika þetta mikla vandamál. Mér finnst þetta vandamál vera sett inn í afar sérkennilegt en um leið athyglisvert ljós þegar við skoðum þær tölur sem liggja fyrir í grg. þáltill. um þann kostnað sem ríkið er að greiða til þess að halda uppi lögbundinni þjónustu sem sveitarfélögunum er ætlað að inna af hendi. Ég tel, virðulegi forseti, nauðsynlegt þegar við ræðum þessi mál að við gerum það í ljósi þeirra upplýsinga sem fyrir liggja og hafa núna verið staðfestar um þann mikla herkostnað sem sveitarfélögin úti á landi hafa orðið að leggja í til þess að bregðast við hinni miklu neyð sem má segja að stafi af kennaraskortinum á landsbyggðinni. Vissulega hefur þetta orðið nauðvörn af hálfu sveitarfélaganna, alveg eins og það hefur verið nauðvörn af hálfu spítalanna að fara út í þessar hlunnindagreiðslur í formi dagvistunarplássa en það er eðlilegast að í báðum tilvikum gildi hinar umsömdu reglur sveitarfélaganna og ríkisins að rekstur dagvistunarheimila sé greiddur af sveitarfélögunum en kostnaðurinn við skólastarfið eins og um er talað af hálfu ríkisins og gildir þá einu hvaða sveitarfélag á í hlut.