Rekstur dagvistarstofnana fyrir börn á vegum sjúkrahúsa

126. fundur
Þriðjudaginn 14. apríl 1992, kl. 19:07:00 (5599)


     Flm. (Gunnlaugur Stefánsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni Kristni Gunnarssyni fyrir stuðning við þetta mál. Ég skildi mál hans svo að hann væri efnislega sammála tillögunni og mundi sameinast í þeirri hreyfingu sem hefur myndast á þinginu í dag um að koma þessu máli fram. Um hitt atriðið sem hann fjallaði, hver staða okkar væri með þessu máli andspænis ríkisstjórn eður ei, þá þótti mér mjög sérstakt að heyra þennan skilning hans á því hvernig ætti að koma málum fram.
    Í máli sem var á dagskrá þingsins í dag á undan þessu var verið að fjalla um málsmeðferð á EES. Þá barðist Alþb. fyrir því með hverjum ræðumanni á fætur öðrum að þetta EES-mál ætti að fá þinglega meðferð. Þinglega meðferð, en skyldi ekki afgreitt innan veggja ríkisstjórnarinnar á sviði framkvæmdarvaldsins. En nú bregður svo við að hv. fulltrúi Alþb. í umræðunni kemur hér og kvartar yfir því að þingmenn skuli beita sér fyrir því að jafnbrýnt og stórt mál og þetta hér, sem hér hefur verið til umræðu, fái þinglega meðferð. Nú þarf ég að fá það upplýst frá formanni Alþb. hvor stefnan gildi eða hvort stefnurnar séu tvær og þrjár, einvörðungu eftir því hvaða mál eigi í hlut, hvaða dagur er, mánuður eða ár. Það er von að spurt sé og kominn tími til að fá svör.