Lánasjóður íslenskra námsmanna

127. fundur
Mánudaginn 27. apríl 1992, kl. 15:11:38 (5614)

     Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vek athygli á því að í nál. minni hluta menntmn. er ekki greint skýrt á milli frv. eins og það liggur fyrir og brtt. meiri hluta menntmn.
    Látið er að því liggja á ýmsan hátt að greinar sem meiri hlutinn hefur ekki hreyft við séu til komnar við brtt. hans. Ég nefni sem dæmi á bls. 2: ,,Tillögur meiri hluta menntmn. gera m.a. ráð fyrir allt að 3% vöxtum á lán sjóðsins auk verðtryggingar, lántökugjöldum samkvæmt ákvörðun sjóðstjórnar til að standa undir rekstri sjóðsins . . .  `` Þetta atriði um lántökugjöld hefur meiri hluti menntmn. ekki hreyft neitt við. ,,Endurgreiðslur verða stórlega hertar og eiga að hefjast tveimur árum eftir námslok í stað þriggja ára samkvæmt gildandi lögum.`` Við gerum þær breytingar við frv. að endurgreiðslufresturinn verði tvö ár í stað eins sem frv. gerir ráð fyrir. Ég vildi vekja athygli á þessu því að mér finnst gæta þarna ákveðinnar ónákvæmni.