Lánasjóður íslenskra námsmanna

127. fundur
Mánudaginn 27. apríl 1992, kl. 15:50:38 (5620)


     Valgerður Sverrisdóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð vegna ræðu hæstv. menntmrh. hér áðan. Greinilegt er að hann talar ekki sama tungumál og við í minni hlutanum í sambandi við námsmenn yfirleitt og Lánasjóð ísl. námsmanna. Mér dettur ekki í hug að neita því að brtt. sem lagðar eru fram af meiri hluta menntmn. eru mjög til bóta og þær ganga í sumum tilfellum það langt að þær eru ásættanlegar, en það sem er alvarlegast og gerir það að verkum að við getum ekki talað um jafnrétti til náms, verði þetta frv. að lögum, eru eftirágreiðslur lánanna. Það er ekki hægt að tala um þessi lán eins og hver önnur fjárfestingarlán. Mér finnst alltaf brydda á því í máli hæstv. ráðherra að þetta séu bestu lán sem þekkjast á markaðnum. Að sjálfsögðu. Þetta eru ekki fjárfestingarlán heldur lán til þess að námsmenn geti framfleytt sér á meðan þeir stunda nám. Með því að útborgun lánanna er eftir á geta þeir það ekki því að þeir verða á lánum úr bankakerfinu og nota síðan lánin þegar þau loksins berast þeim í hendur til þess að greiða bankalánin. Það ákvæði í frv. að lánin séu vaxtalaus á námstímanum er ekki rétt. Staðreyndin er sú að námsmenn verða að greiða vexti allan sinn námstíma með því fyrirkomulagi sem hér er lagt til. Ég skora á hæstv. ráðherra að skoða málið nánar og átta sig á því hvað þetta er alvarlegt því að þetta er alvarlegasta atriðið í frv. eins og það liggur nú fyrir með brtt.