Lánasjóður íslenskra námsmanna

127. fundur
Mánudaginn 27. apríl 1992, kl. 15:55:07 (5622)


     Valgerður Sverrisdóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra gerði að umtalsefni orð formanns Framsfl. við 1. umr. og að hann hafi þá opnað fyrir vaxtatöku af þessum lánum. Það má vel vera, það gæti hafa farið fram hjá mér, að hann hafi gert það. Lántökugjald er í sjálfu sér ekkert annað en vextir miðað við það kerfi sem er í dag. Með þessu fyrirkomulagi, eins og það er lagt til af meiri hlutanum, er ekki bara verið að tala um 1% vexti heldur lántökugjöld að auki. Ég get alveg sagt, eins og ég tók fram áðan, að mér finnst brtt. meiri hlutans séu mjög til bóta, ég get endurtekið það. Það er allt annað að tala um 3% vexti en 1% vexti. Ég gerði aðallega að umræðuefni það sem mér finnst allra alvarlegast við frv., eins og það liggur nú fyrir, en það er eftirágreiðsla lánanna. Það eru ákveðnir hópar sem fá ekki lán í hendur fyrr en að vori og hæstv. ráðherra

hlýtur að sjá að þeir eru á lánum úr bankakerfinu allan heila veturinn. Eins er það með ýmsa sem stunda nám erlendis. Þeir verða að taka lán í bankakerfinu og þegar þeim berst lánið í hendur nota þeir það til þess að greiða lánið í bankanum. Talað hefur verið um að þá séu allt að 10% afföll af lánunum þegar þau berast námsmönnum í hendur. En ég veit ekki hvaða tölur hæstv. ráðherra fer með þegar hann talar um 1 / 4 af því.
    Ég vil endurtaka að eftirágreiðslan er ósanngjörn og hún skilar sjóðnum engu eða alla vega mjög litlu en hún fleytir ríkissjóði fram á næsta ár með eitthvað betri stöðu. Það er kannski aðalatriðið.