Samningur um Evrópskt efnahagssvæði og þingleg meðferð hans

128. fundur
Þriðjudaginn 28. apríl 1992, kl. 15:02:23 (5631)


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. 8. þm. Reykn. mótmælti því í ræðu sinni að utanrrh. undirritaði samninginn í byrjun maí með fyrirvara um samþykki Alþingis og bar við að þar með hefði utanrrh. snúið við blaðinu frá því að hann boðaði sína frægu samningatækni í fyrri ríkisstjórn. Með öðrum orðum átti utanrrh. að hafa sagt að við geymdum sjávarútvegsmálið þangað til síðast og að tvíhliða samningurinn yrði að vera undirritaður áður en við skrifuðum undir. Þarna hefur hinum góðviljaða og greinda hv. þm. skotist. Það er að sönnu rétt að út frá samningnum sjálfum lögðum við Íslendingar á það áherslu að til þess að ná fram sjávarútvegsmálinu, markaðsaðgenginu og að ná fram kröfum okkar um að hafna veiðiheimildakröfum EB og fjárfestingarkröfum, þá var það mál seinast á samningsferlinum. Hitt er annað mál að við höfum ævinlega sagt það mjög skýrt að við vildum hafa þennan samning í höfn og undirritaðan áður en gengið yrði frá tvíhliða samningi svo þarna er um að ræða misskilning. Það er verið að blanda saman annars vegar samningsniðurstöðunni í sjávarútvegsmálinu og hins vegar þessum tvíhliða samningi sem á sér stoð í fríverslunarsamningnum frá 1972. Það er á misskilningi byggt.
    Að því er varðar spurninguna um það hvort samningurinn samrýmist stjórnarskrá eða ekki þá er þess að geta að tillaga stjórnarandstöðunnar var um að að hafa á því aðra málsmeðferð, að fela félögum

dómara og lögmanna ásamt með fulltrúum lagadeildar að kanna það mál. Nefndin sem ég hef skipað áætlar að skila niðurstöðum sínum á sama tíma og tillaga stjórnarandstöðunnar gerði ráð fyrir. Menn átta sig á því að í þessu er engin þversögn fólgin. Það er hægt að undirrita þennan samning með fyrirvara um samþykki Alþingis. Hann er ekki til endanlegrar staðfestingar fyrr en í fyrsta lagi undir lok þessa árs. Það er því engu stofnað í tvísýnu eða engin áhætta tekin af þeim sökum. Ég vildi bara nota tækifærið og leiðrétta þennan misskilning.