Samningur um Evrópskt efnahagssvæði og þingleg meðferð hans

128. fundur
Þriðjudaginn 28. apríl 1992, kl. 15:09:59 (5634)


     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Trúi ég mínum eigin eyrum? Er það virkilega rétt sem hæstv. utanrrh. var að segja í sínum lokaorðum að ef þeir fjórir einstaklingar, sem hann hefur sjálfur valið til þess að meta áhrif samningsins gagnvart stjórnarskránni, komast að þeirri niðurstöðu að þetta sé í lagi, þá eigi þjóðin ekki að fá að dæma um samninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu? Hæstv. utanrrh. sagði hér ef fjórir menn, Gunnar G. Schram, Þór Vilhjálmsson, Stefán Már Stefánsson og skrifstofustjórinn í dómsmrn., komast að raun um það að þessi samningur sé í lagi þá hefur ríkisstjórnin ákveðið að þjóðin fái ekki að greiða um hann atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hvers konar ríki er það eiginlega sem við búum í? --- Hæstv. utanrrh. getur hlegið, það var þetta sem hann sagði. Hann tilkynnti það hér í lokaorðum sínum að ríkisstjórnin hefði komist að niðurstöðu um þetta. Ef hann er reiðubúinn að draga þau orð til baka þá mundi ég fagna því. En því miður er hæstv. forsrh. ekki í salnum, það er ekki hægt að spyrja hann og ekki heldur hæstv. sjútvrh. og

ekki heldur fjmrh., varaformaður Sjálfstfl., eins og öll forusta Sjálfstfl. hefur kosið að vera fjarverandi í umræðunni. En ég mótmæli því algjörlega að þessir fjórir einstaklingar, tveir þeirra eru mjög hlynntir Evrópusamrunanum, Gunnar G. Schram og Þór Vilhjálmsson, það vita allir, einn er embættismaður í dómsmrn. og sá þriðji er virtur fræðimaður á þessu sviði, eigi einir að fá að ráða því hvort íslenska þjóðin fær að greiða atkvæði um þennan samning eða ekki. Ef það er rétt þá fordæmi ég þá afstöðu ríkisstjórnarinnar sem ólýðræðislega í grundvallaratriðum.
    Hitt atriðið varðandi sjávarútvegssamninginn var auðvitað hinn hefðbundni útúrsnúningur hæstv. utanrrh. í umræðunum. Hann getur ekki skotið sér fram hjá þeirri staðreynd að sjávarútvegssamningurinn liggur ekki fyrir, menn geta haft á honum ýmsar skoðanir, menn geta haft á EES-samningnum ýmsar skoðanir, en því hefðu fáir trúað á undanförnum árum, jafnvel fyrir fáeinum mánuðum að utanrrh. íslenska lýðveldisins ætlaði að undirrita EES-samninginn án þess að hafa í hendi sjávarútvegssamning milli Íslands og EB. Slíkan samning hefur hann ekki í hendi. Hann hefur bara minnisblað sem eftir á að gera að fullgildum samningi.