Samningur um Evrópskt efnahagssvæði og þingleg meðferð hans

128. fundur
Þriðjudaginn 28. apríl 1992, kl. 15:29:40 (5636)


     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Eins og komið hefur fram í máli annarra sem hér hafa talað þá stendur undirritun EES-samningsins fyrir dyrum um næstu helgi. Með öðrum orðum mun utanrrh. setja stafi sína undir þennan samning. Þetta er vissulega örlagaríkt skref þó svo það sé stigið með fyrirvara um að Alþingi samþykki það sem þá verður gert. Með undirrituninni lít ég svo á að ríkisstjórnin hafi lagt sjálfa sig að veði. Hún mun væntanlega standa eða falla með samþykkt eða synjun samningsins á Alþingi. Í því sambandi er kannski rétt að vekja athygli á því að ekkert liggur fyrir um það hvort meiri hluti er fyrir samningnum, þ.e. þeim texta sem fyrir liggur, hér á Alþingi. Margir þingmenn eru enn óráðnir í afstöðu sinni og ég hygg að afstaða þeirra ráðist m.a. af því hvernig á málum er haldið á Alþingi. Hvaða skoðun sem menn hafa nú annars á samningnum, þá skiptir máli hvernig Alþingi tekur á málinu.
    Eins og komið hefur fram er þetta flóknasti milliríkjasamningur sem gerður hefur verið á þingi og þjóðin á kröfu á að Alþingi vandi vinnubrögð sín en kasti ekki höndunum til verksins og afgreiði það í fljótræði. Það er því fráleit krafa, og nú sakna ég þingflokksformanns Alþfl., sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson gerði til stjórnarandstöðunnar í fjölmiðlum í gær. Þar lýsti hann því yfir að stjórnarandstaðan yrði að tryggja það, ef ekki yrði sumarþing, að hægt yrði að ganga frá samningnum á fjögurra vikna þingi í september. Ég verð að segja að maðurinn er úr hófi fram léttúðugur sem kemur kannski ekki að sök svona prívat, en það kemur svo sannarlega að sök í pólitík. Annaðhvort er það að hann er úr hófi léttúðugur eða hann veit ekkert um hvað hann er að tala, ef hann gerir ráð fyrir að hægt verði að afgreiða málið á fjórum vikum í september og stjórnarandstaðan geti tryggt það og gefið einhver loforð um það. Ég held að þingflokksformaðurinn geri sér enga grein fyrir umfangi og alvöru þessa máls.
    Ef menn vilja eftir megni sýna ábyrgðarfull vinnubrögð á Alþingi en hafa líka fremur hraðar hendur, því það skilst mér að menn vilji, skil ég ekki alveg hugmyndina um að taka samninginn úr höndum utanrmn. Við skulum hafa það í huga að samningurinn er meginmál samningsins, það eru bókanir og það eru viðaukar. Allt þetta er samningur samkvæmt skilgreiningu samningsins sjálfs. Í utanrmn. er mest þekking saman söfnuð á þessum samningi. Ég sé því ekki hagræði við þetta. Í því sambandi finnst mér einmitt ástæða til að vísa til upptalningar formanns utanrmn. áðan sem sýnir hversu lengi samningurinn hefur verið í umfjöllun í nefndinni og hversu oft er búið að fjalla um hann þar. Það gefur því auga leið að þar er þekkingin á honum. Við þingmenn erum bara 63, 53 ef ráðherrar eru frátaldir. Við verðum ekkert fleiri því það eru engir verklausir menn á þingi sem geta tekið það að sér sem aukagetu að fjalla um samninginn, eða ég vona að svo sé ekki. Ég verð því að játa að ég sé ekki hagræði við að taka málið úr höndum utanrmn. og setja það í aðra nefnd. Kannski er hægt að sannfæra mig um annað og ég er vissulega fús til að skoða það þá.
    Mér hefur skilist að einhverjir þingmenn kippi sér ekki mjög mikið upp við vinnubrögðin í sambandi við þetta mál og að þeir hafi mótað sér ákveðna afstöðu til þess. Ég verð að segja að þessi afstaða þingmanna stendur á mjög misstyrkum stoðum að mínu mati. Þannig virðist mér sem ýmsir stjórnarþingmenn trúi því eins og nýju neti að EES tryggi hagsmuni Íslands til frambúðar og að með samningnum haldi íslensk þjóð fullveldi sínu óskertu að fullu og öllu. Auðvitað má deila um hvað í fullveldishugtakinu felst, hvort það hafi sömu merkingu nú og árið 1918 þegar Íslendingar fengu fullveldi. En ef við miðum við fullveldisskilgreininguna 1918 er alveg ljóst að í samningnum um EES felst framsal á fullveldi. Í raun er bæði um framsal á löggjafarvaldi og dómsvaldi að ræða í samningnum og mér finnst að ekki ætti að þurfa að deila um þetta framsal, heldur hitt hvort slíkt framsal sé óhjákvæmilegt og réttlætanlegt við núverandi aðstæður. Um það ætti deilan kannski fremur að snúast.
    Til þess að gera aðeins grein fyrir fullveldisframsalinu er nauðsynlegt að gaumgæfa stofnanaþátt samningsins og hvernig fara á með deilumál á Evrópska efnahagssvæðinu.
    Öllum er væntanlega ljóst að það eru lög EB á samningssviði EES sem munu gilda á svæðinu. Þau verða þar með hluti af íslenskum rétti. Aðeins EB getur átt frumkvæði að nýjum lögum á svæðinu en hvorki EFTA né aðildarríki þess. Þetta er að mínu mati eðlilegt, séð frá sjónarhóli EB, því ef aðrir ætluðu að fara að hafa frumkvæði að því hvernig lög Evrópubandalagsins litu út væri það í raun íhlutun í innanríkismál EB. Einstök EFTA-ríki hafa að vísu neitunarvald um þessi nýju lög en ef þau beita því, þá tekur það til allra EFTA-ríkjanna sjö og af pólitískum og praktískum ástæðum verður svo erfitt að beita þessu valdi að það er nær eingöngu í orði en ekki á borði.
    Þá eru í samningnum skýr ákvæði þess efnis að lög frá Alþingi megi ekki stangast á við lög Evrópubandalagsins sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu. Komi sú staða upp, þá hafi lög EB forgang og

við þurfum ekki annað en lesa bókun 35 í samningnum þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Vegna tilvika þar sem getur komið til árekstra á milli EES-reglna sem komnar eru til framkvæmdar og annarra settra laga, skuldbinda EFTA-ríkin sig til að setja, ef þörf krefur, lagaákvæði þess efnis að EES-reglur gildi í þeim tilvikum.``
    Mér finnst ekki þurfa frekari vitna við. Og ég fæ ekki betur séð en þó að forminu til hafi Alþingi síðasta orðið verði það ekki þannig í reynd. Þarna sé með öðrum orðum um að ræða framsal á löggjafarvaldi.
    Við skulum þá líta á lausn deilumála og dómsvaldið. Um það væri hægt að deila heilmikið við ráðherra og gera ýmsar athugasemdir við það sem hann sagði áðan en ég ætla ekki að eyða miklu púðri í það og halda mig við það sem mér finnst mikilvægt að koma á framfæri.
    Mikilvægir aðilar í sambandi við lausn deilumála og dómsvaldið eru sameiginlega EES-nefndin, eftirlitsstofnun EFTA og EFTA-dómstóllinn.
    Verksvið sameiginlegu EES-nefndarinnar er að leysa úr deilumálum milli samningsaðila og reyna að varðveita einsleita túlkun á samningnum í ríkjum EB og EFTA. Hún á að fylgjast með úrskurðum EB-dómstólsins og EFTA-dómstólsins og gæta þess að samræmi sé í túlkun þeirra.
    Ef mismunur kemur fram í fordæmisrétti dómstólanna, og þetta er mikilvægt, þ.e. ef dómar þeir í máli sem hafa fordæmisgildi eru ólíkir á nefndin að reyna að finna lausn á málinu. Kveðið er á um það í 105. gr. samningsins. Hins vegar er rétt að benda á að í álitsgerð EB-dómstólsins um samninginn kemur fram að dómstóllinn sættir sig ekki við afskipti af sínum fordæmisrétti. Þetta þýðir með öðrum orðum að EFTA-dómstólnum verður einhliða gert að laga sig að EB-rétti. Í því sambandi vil ég vísa í samþykkt samningsaðila vegna 105. gr. sem ég var að tala um, en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Ákvarðanir sem sameiginlega EES-ráðið tekur samkvæmt þessari grein mega ekki hafa áhrif á fordæmisrétt dómstóls Evrópubandalaganna.``
    Það getur ekki skýrara verið að það er EFTA-dómstóllinn sem á að laga sig að fordæmisrétti EB-dómstólsins. EB-dómstóllinn krafðist þess í úrskurði sínum að þetta ákvæði varðandi 105. gr. næði einnig til 111. gr. samningsins en í þeirri grein er fjallað um lausn deilumála á svæðinu. Allir samningamenn EFTA-ríkjanna og EB hafa nú fallist á það að þessi bókun, sem ég var að lesa upp varðandi 105. gr., nái einnig til 111. gr. um að fordæmisréttur EB verði ekki skertur.
    Ég nefndi eftirlitsstofnun EFTA áðan. Hún er líka mikilvæg varðandi stofnanaþátt svæðisins. Hún á að kveða upp úrskurði í málum sem einungis varða viðskipti milli EFTA-ríkjanna og ef einungis eitt EB-ríki á hlut að máli. Öll önnur mál, þ.e. öll mál sem hafa áhrif á viðskipti milli einstakra EB-ríkja óháð því hversu mörg EFTA-ríki eru aðilar að slíku máli, eru á verksviði framkvæmdastjórnar EB og þar af leiðandi falla þau undir dómstól Efnahagsbandalagsins. Deilumál EFTA-ríkis eða fyrirtækis í EFTA-ríki fellur undir framkvæmdastjórn EB og þar af leiðandi verður EB-dómstóllinn um leið æðsta dómsvald í því máli þó svo viðkomandi ríki eigi þar enga fulltrúa. Þetta á við ef um er að ræða eitt eða fleiri EB-ríki sem blönduð eru inn í dóminn. Ég fæ ekki betur séð en þarna sé um hreint framsal á dómsvaldi að ræða til EB-dómstólsins.
    Margir hafa haldið því fram, m.a. hæstv. utanrrh. held ég að ég geti fullyrt, að breytingin á dómstólaþættinum í síðustu samningalotu hafi verið til batnaðar, þ.e. að sú niðurstaða að gefa EES-dómstólinn upp á bátinn hafi verið til bóta. Sú niðurstaða var án efa til bóta fyrir Efnahagsbandalagið en hún var tæpast til bóta fyrir EFTA-ríkin. Breytingin gerði í rauninni illt verra og í því sambandi langar mig að vísa til þess sem segir í álitsgerð EB-dómstólsins sem við í utanrmn. höfum nú fengið upp í hendurnar. Þar segir:
    ,,Andstætt því sem gert var ráð fyrir í EES-dómstólnum mun EFTA-dómstóllinn ekki fjalla um deilumál milli samningsaðila og mun aðeins hafa dómsvald innan EFTA.``
    Þetta segir í niðurstöðu EB-dómstólsins um samninginn.
    EFTA-dómstóllinn ásamt EB-dómstólnum verður æðsti dómstóll Íslendinga í málum sem eru á samningssviði EES og varða túlkun og beitingu EES-samningsins eða samningsins milli EFTA-ríkjanna um eftirlit og dómstól. Það er annar samningur sem á eftir að fjalla um á Alþingi sem er innbyrðis samningur EFTA-ríkjanna um dómstólinn og eftirlitsstofnunina. Sá samningur er nýkominn í hendur nefndarmanna í utanrmn. og er upp á tæpar 300 síður. Við höfum því verk fyrir höndum að fara í gegnum hann líka.
    Það er alveg ljóst að EFTA-dómstóllinn verður einhliða að laga sig að fordæmisrétti EB, eins og ég sagði áðan, þannig að þvert ofan í það sem menn hafa sagt munu framtíðardómar EB-dómstólsins fá gildi á Evrópska efnahagssvæðinu og þar með hér á landi. Í því sambandi langar mig til þess að vitna í samningsuppkast um EFTA-dómstólinn sem samningamenn EFTA urðu ásáttir um í Brussel þann 14. apríl sl. Þar segir, í grófri þýðingu minni á því gullaldarmáli sem þessir samningar eru yfirleitt skrifaðir á og verður ekki betra á íslensku þó að því sé snúið, með leyfi forseta:
    ,,Við túlkun og beitingu EES-samningsins og þessa samnings --- þ.e. EFTA-samningsins --- munu eftirlitsstofnun EFTA og EFTA-dómstóllinn taka fullt tillit til fordæmisréttar sem EB-dómstóllinn setur eftir undirskrift EES-samningsins og sem varðar túlkun þess samnings eða réttarreglna sem eru hluti af stofnsamningi Efnahagsbandalags Evrópu og Kola- og stálbandalagi Evrópu að því leytinu til sem það samsvarar reglum samningsins um Evrópskt efnahagssvæði`` o.s.frv.

    Þarna er talað um að taka fullt tillit til fordæmisréttar EB-dómstólsins eftir undirskriftina.
    Eftir að hafa skoðað stofnunarþátt samningsins um Evrópskt efnahagssvæði nokkuð rækilega þarf ég ekki frekari vitna við að í samningnum felst fullveldisframsal að vissu marki. Sem betur fer er framsalinu takmörk sett en það er engu að síður til staðar og þarf nokkuð sterk rök til að fá mig ofan af þeirri skoðun minni. Ekki síst vegna þessa framsals tel ég mjög mikilvægt að fá þjóðaratkvæði um samninginn, að þjóðin fái að fella sinn úrskurð og menn verði þá að sætta sig við hann og hlíta honum hvernig sem hann fer.
    Það er skoðun okkar kvennalistakvenna að þjóðaratkvæði sé almennt of lítið notað hér á landi. Við höfum oftar en einu sinni, held ég, flutt þáltill. um þjóðaratkvæðagreiðslu og þess vegna er þessi krafa okkar fyllilega í samræmi við þá skoðun sem við höfum sett fram áður. Því miður svaraði utanrrh. ekki áðan hver afstaða hans væri eða a.m.k. ekki í upphafserindi sínu og ekki fyrr en eftir því var gengið. Svo virðist sem afstaða hans til þjóðaratkvæðis sé sú að því einungis fái þjóðin að segja álit sitt að fjórmenninganefnd hans komist að þeirri niðurstöðu að um stjórnarskrárbrot sé að ræða. Þetta er auðvitað mjög mikilvægt. Ég vildi nú gjarnan fá að heyra afstöðu fleiri stjórnarþingmanna og ráðherra í ríkisstjórninni til þessa máls og það mætti gjarnan liggja fyrir á þingi áður en hæstv. utanrrh. heldur utan til að skrifa undir samningsdrögin þann 2. maí nk.
    En það er mikilvægt að fá svör við fleiri atriðum, ekki síst varðandi framtíð Íslands á Evrópska efnahagssvæðinu. Utanrrh. segir að þegar fram líða stundir og önnur EFTA-ríki tínast inn í EB muni samningurinn um EES breytast í tvíhliða samning og eftir því sem hann lýsti hér mun það verða tiltölulega einfalt mál. Gott og vel, segjum svo. En hvernig á það gerast? Það hafa menn ekki sýnt fram á. Ég vil spyrja hvort ekki sé tímabært að Íslendingar fái viðræður við Evrópubandalagið um framtíðartengsl sín við bandalagið rétt eins og hin EFTA-ríkin fá í gegnum aðildarumsókn. Hver eiga að vera framtíðartengsl Íslands við bandalagið? Mikilvægt er að fá svör við því hvort og þá með hvaða hætti íslensk stjórnvöld ætla að taka þetta mál upp við Evrópubandalagið, framtíðartengsl Íslands við bandalagið.
    Mér finnst mál standa þannig núna að íslensk stjórnvöld stefni út í óvissuna með samningnum um Evrópskt efnahagssvæði. Vel kann að vera að einhver framtíðarmynd sé að mótast í þeirra huga, en þau deila þeirri mynd a.m.k. ekki með þjóðinni. Afstaða forustumanna annarra EFTA-ríkja, hvað sem um hana má segja, er ærlegri. Þeir hafa flestir hverjir lýst því yfir að með samningnum um Evrópskt efnahagssvæði sé stefnan tekin á EB-aðild og það er þá miklu ærlegri afstaða. Íslensk stjórnvöld virðast stefna beint út í óvissuna.
    Ég verð að segja að stofnanaþáttur samningsins er einhver mikilvægasti þáttur hans. Það er hins vegar erfitt að ræða á Alþingi vegna þess að ekki er um mjög einföld mál að ræða og utanrrh. er, eins og ég hef oft sagt áður, mikill loftfimleikamaður þegar að þessum hlutum kemur. En ég ætla svo sannarlega að vona að hann verði með báða fætur á jörðinni þegar hann fer og skrifar undir samninginn þann 2. maí og hugsi ráð sitt vel áður en hann gerir það.